13.12.1976
Neðri deild: 21. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í B-deild Alþingistíðinda. (801)

102. mál, tilkynningarskylda íslenskra skipa

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Eins og kemur fram í ítarlegri grg. sem fylgir frv. þessu, er nokkuð langt um liðið síðan ég flutti þáltill. þess efnis að Alþingi ákvæði að gera ráðstafanir til þess með samþykkt sinni að hægt væri að fylgjast með daglegum ferðum íslenskra fiskiskipa. Þetta var gert að gefnu tilefni, þegar vélskipið Stuðlaberg fórst hér við Suðvesturland og enginn maður vissi um það, hvorki aðstandendur né aðrir, í nokkra daga að þar hefði slys orðið. Með þessu skipi fórust 11 menn. Það, sem kom út úr þessari till., var að það var skipuð n. að sjálfsögðu sem vann mikið starf, verð ég að segja. Og ekki aðeins það, þáv. sjútvrh., Eggert G. Þorsteinsson, setti reglugerð hvar hann gat um að til starfa skyldi tekið við svokallaða tilkynningarskyldu íslenskra skipa. Ég hef talið persónulega að eftir þá löngu reynslu, sem er komin á þetta mál, sé orðið tímabært að setja og binda í lögum ákvæði um þessa starfsemi, og því er það að ég flyt þetta frv. með nokkrum breytingum frá reglugerð þeirri sem þáv, hæstv. sjútvrh., Eggert G. Þorsteinsson, setti. En segja má að með litlum breytingum séu fyrstu sex gr, þessa frv. teknar beint úr reglugerð þeirri sem hann setti.

Ég tel að það sé komin sú reynsla á þessa starfsemi frá því að reglugerðin var sett, að við getum, hv. alþm., sett í lög ákvæði þess efnis sem koma fram í frv. þessu. Ég vil líka undirstrika að það, sem verið er að gera með þessu frv., er að styrkja og undirstrika stjórnun Slysavarnafélags Íslands á þessum málum. Ég veit og það er rétt, sem kemur fram í grg. þessa frv., að starfsemi tilkynningarskyldunnar undir stjórn Slysavarnafélags Íslands hefur þegar margsannað gildi sitt, og eins og ég tók fram áðan er nú reynslu- og þróunartími liðinn frá því að þessi starfsemi hóf sitt starf, og því tel ég að það sé orðið tímabært að setja í lög ákvæði um starfsemi þessa.

Um leið og ég segi í þessu frv., að það sé verið að ákvarða og staðfesta starfsemi Slysavarnafélagsins, er ég að leggja til líka að ákveðnar reglur verði settar um greiðslu til að standa undir þessari þýðingarmiklu starfsemi, — greiðslu sem að vísu hefur komið frá Alþ., fjárveitingavaldinu, á hverju ári og hefur farið hækkandi. En ég vil að í þessum lögum verði það ákvæði að hæstv. sjútvrh, ákveði um hvert það gjald eigi að vera sem útgerðir eigi að greiða fyrir þá þjónustu sem þær fá frá Landssíma Íslands, en ekki hæstv. samgrh. eða ráðh. Pósts og síma, vegna þess að ég tel að það sé sjútvrh. sem hafi besta vitund um það hvað er hægt að leggja á þessa útgerð. Og við skulum ekki gleyma því, að meðan við erum með þessa menn sem t.d. stunda fiskveiðar hér við land með mestu slysa- og dauðatölu í starfi sínu, þá finnst mér persónulega að það sé ekki of í lagt þótt almenningur í landinu greiði nokkuð til þess að halda uppi þessu öryggi fyrir þessa menn.

Í þessa grg. tók ég upp orðrétt þýðingarmikinn kafla frá Slysavarnafélagi Íslands, úr síðustu skýrslu þess, þar sem m.a. er kveðið á um það, hvað það hafi bætt við sig í þessari starfsemi og líka hvað þetta þýði fyrir ekki aðeins sjómennina sjálfa, heldur og fyrir aðstandendur þeirra. En það er að verða æ tíðara að það sé leitað til þessarar starfsemi Slysavarnafélagsins frá aðstandendum sem vilja komast að því hvar skip er statt og hvernig gengur. Er eitthvað að? Ég held að þegar þeir, sem vilja kynnast þessu, skoða þetta eins og vera ber, þá verði það ekki peningamagnið sem verði til þess að menn verði á móti þessu frv. Það má vera að einhverju sé áfátt í orðalagi þeirra greina sem koma fram í lok frv., en ég tel hins vegar að við verðum menn að meiri hér á Alþ. ef við samþykkjum þetta frv., þó með einhverjum breytingum yrði.

Ég tók það fram að 1.–6. gr. eru að mestu sniðnar eftir þeirri reglugerð sem þáv. sjútvrh., Eggert G. Þorsteinsson, setti. En til viðbótar er í 7. gr. verið að staðfesta skyldu Landssíma Íslands til fullkominnar þjónustu á því sviði sem þessu ríkisfyrirtæki er ætlað, öryggisþjónustu. Og síðari mgr. er m.a. fram komin vegna ályktunar á síðasta sjómannasambandsþingi, en þar kom fram auk áskorunar um lagasetningu um tilkynningarskylduna að mikið skorti á hlustunar- og sendiaðstöðu við Norðausturland, sunnanverða Vestfirði og Breiðafjörð.

8. gr. er til að staðfesta hinn stjórnunarlega rétt Slysavarnafélags Íslands, en á þennan félagsskap var ekki minnst í reglugerðinni frá 1968 þótt félagið hafi alltaf síðan haft með stjórnun þess að gera.

Með samþykkt 9. gr., ef af verður hér á Alþ., er ákveðið að lögbinda ákveðið gjald til Landssíma Íslands sem nú þegar er ákveðið með samkomulagi. Með frv. er sjútvrh. falið að ákveða greiðslur þessar, m.a. til þess að ekki verði um ofborganir að ræða. Því er þeim, sem gott vit hafa á hag útgerðarinnar, sett þessi ákvörðun í hendur, enda verður ekki hægt að telja eftir framlag af almannafé, eins og ég hef þegar getið um, til öryggismála þessarar stéttar sem á langmesta slysa- og dauðatíðni í starfi hér á landi.

í 10. gr. frv. er getið um sektarákvæði vegna vanrækslu við tilkynningarskylduna. Því miður verður það að segjast, að vegna trassaháttar og kæruleysis nokkurra skipstjórnarmanna verður að taka þetta fram. Þeir verða að gera sér grein fyrir því að því fylgir mikill kostnaður að hefja leit að skipi sem álíta verður að hafi hlekkst á þegar þeir láta hjá liða að tilkynna staðsetningu skipsins. Þegar bæði flugvélar, fjöldi skipa og leitarflokkar fara af stað eingöngu vegna trassaháttar, þá finnst mér sjálfsagt að þeim mönnum, sem eru staðnir að því ítrekað að brjóta þær reglur sem settar eru á því sviði, eigi hiklaust að refsa með sektum.

Í 11. gr., sem er ný frá því að reglugerðin var sett á sínum tíma, hef ég lagt til að Slysavarnafélag Íslands fái nokkuð fyrir sinn hugsanlega kostnað: ljós-, hita- og ræstingarkostnað og skrifstofuvinnu, að ég tali ekki um símakostnað sem reiknaður er að fullu af þeim hinum dýru aðilum, það fái til sín sektarfé og þá, ef eitthvað vantar á, komi það frá ríkissjóði, eins og verið hefur fram til þessa. Það er hlálegt að vera að borga frá vinstri hendi til hinnar hægri þegar við erum að glíma við þetta vandamál, sem er öryggi okkar sjómanna.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér, þegar þessari umr. lýkur, að leggja til að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og til hv, sjútvn.