19.10.1976
Sameinað þing: 5. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

Kosning í fastanefndir skv. 15. gr. þingskapalaga

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég skal að sjálfsögðu verða við óskum hæstv. forseta um að hafa aths. mína örstutta.

Varðandi það, sem gerðist á fyrstu dögum fyrsta þings þessa kjörtímabils varðandi kosningu í fjvn., má það vel vera rétt hjá hv. þm. Ragnari Arnalds að um formlega fundi, sem sett er og slitið, hafi ekki verið að ræða milli þingflokkanna. En hann minnist þess áreiðanlega jafngreinilega og ég og aðrir í forustu þingflokkanna, að milli allra þingflokkanna og hæstv. ríkisstj. fóru fram umr. um þetta mál, það má gjarnan kalla þær óformlegar ef menn vilja heldur una því enda varð niðurstaðan allsherjar samkomulag allra þingflokkanna annars vegar og hæstv. ríkisstj. hins vegar. Hvernig hefði getað orðið um allsherjar samkomulag allra þm. að ræða nema því aðeins að forustumenn þingflokkanna hefðu ræðst við? En þetta er aukaatriði. Hitt skiptir meira máli, sem hann rifjaði upp varðandi niðurstöðu kosninganna 1963.

Hann man greinilega eftir grein sem ég skrifaði, þó að 13 ár séu liðin síðan, í málgagn mitt, Alþýðublaðið, þar sem ég taldi mig vekja alveg réttilega athygli á því að það væri ein athyglisverðasta niðurstaða kosninganna að flokkur, sem verið hefði í stjórnarandstöðu gegn þáv. ríkisstj. í 4 ár, hefði hlotið þá niðurstöðu, þann dóm í kosningunum, að nú væri skípan þingsins þannig að hann ætti ekki rétt á því að fá kjörinn fulltrúa í 5 manna n. Það er rétt munað hjá honum að endanleg lausn á þessu máli fékkst ekki í upphafi fyrsta þings þessa kjörtímabils, þó að málið hafi, eins og ég sagði áðan, þegar eftir kosningarnar verið rætt í ríkisstj. En reynslan sýndi einmitt á þessu fyrsta þingi eftir kosningarnar 1963, að það er bæði ósanngjarnt og óeðlilegt að allir þingflokkar eigi ekki sæti í þn. Þess vegna var það þegar á næsta þingi, að úr þessari ósanngirni og úr þessu ranglæti var bætt og meðlimum þn. fjölgað upp í 7, einmitt til þess að Alþb. gæti látið rödd sína heyrast í þn., hvort sem mönnum líkaði röddin vel eða illa.