19.10.1976
Sameinað þing: 5. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (82)

Kosning í fastanefndir skv. 15. gr. þingskapalaga

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður, þó að ég haldi nú að flestir ef ekki allir hv. þm., sem þér hafa talað, hafi eytt eitthvað lengri tíma en ég í sínar ræður.

Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir þau svör sem hann gaf við þeim fsp. sem ég beindi til hans. Þau undirstrika það, að bann telur sömu forsendur fyrir hendi nú til skipanar fjvn. eins og samkomulagið, sem gert var haustið 1974, gerði ráð fyrir. Þetta hafa allir ræðumenn, sem tekið hafa til máls, undirstrikað sérstaklega, að undanteknum foringjum Alþb. Og hann segir, sem kannske má til sanns vegar færa, að hér sé um að ræða innanríkismál stjórnarandstöðunnar. Ríkisstj. beitti sér þó fyrir lausn þessa máls 1974, og það hefði því ekkert verið óeðlilegt að ríkisstj. hefði gert slíkt hið sama nú. En ég skal ekki ræða frekar um það, en gera örfáar aths. við það sem fram kom hjá hv. þm. Lúðvík Jósepssyni.

Það er nýtt að gamla kempan af Austurlandi kveinki sér undan umr. hér á Alþ. um málefni. En það kom greinilega fram í ræðu hans hér áðan, að hann taldi þetta óeðlilegar og óviðeigandi umr. hér á hv. Alþ. Vegna hvers? Auðvitað vegna þess að hér er verið að upplýsa óeðlileg vinnubrögð af hálfu þess aðilans sem þarna er Alþb. Þess vegna þykir þessum hv. þm. það óæskilegt — og lá við að hann setti ofan í við hæstv. forseta að leyfa slíkt — að það skyldi nú gert hér á Alþ. að rifja upp, ekki bara fyrir þingheimi, heldur og fyrir almenningi í landinu hver vinnubrögð það eru sem sumir hverjir hv. forustumenn í stjórnmálum á Íslandi leyfa sér að beita þegar þeim þykir það henta. Undan þessu kveinkaði hann sér. Og undir þetta tók hv. þm., núv. formaður Alþb. Honum þótti afskaplega óviðurkvæmilegt að það skyldi minnst á slíkt hér á Alþ. Ég skil þetta vel, því að allflestir af hv. þm. Alþb. sem ég hef rætt þetta mál við, — ég segi allflestir, ekki allir, sem betur fer, — hafa kveinkað sér undan því að ræða málið. Þeir hafa kveinkað sér undan því. (Gripið fram í: Hverjir eru það?) Ef menn vilja að ég fari að nafngreina hér, þá er það sjálfsagt. En ég held að það yrði ekki hagnaður fyrir hv. þm. sem kallaði fram í.

Það liggur sem sagt fyrir að hér á að skipa málum með þeim hætti við kosningu fulltrúa í fjvn. að það á að halda sér við töluna 10. Og það hefur upplýst að stjórnarflokkarnir munu stilla hér sjö mönnum á sinn lista og Alþb. þá að sjálfsögðu tveim, og ég geri ráð fyrir að Alþfl. stilli manni til kjörs. En ég vil taka það fram fyrir hönd þingflokks Samtakanna, að hann mun ekki stilla upp til þessara kosninga. Hann ætlar sér ekki að taka þátt í því að stilla upp til kosninga í fjvn. vegna þess sem á undan er gengið, því að við ætlum okkur ekki í þingflokknum að vera aðilar að neinum þeim vélbrögðum sem uppi hafa verið höfð eða kunna að verða uppi höfð af hálfu sumra hverra forustumanna í íslenskum stjórnmálum. Við ætlum því að standa fyrir utan kosningu í fjvn. að þessu sinni og tökum ekki þátt í henni. Þetta tel ég rétt að komi fram og að það liggi ljóst fyrir hver ástæðan er. Hún er sú, að ákveðinn stjórnmálaflokkur hér á Alþ. hefur rofið tveggja ára samkomulag, ætlar sér að rifta gerðum samningum, munnlegum að vísu, sem ég held þó og hef alltaf viljað taka jafngilda og skriflega. En reynslan kennir mönnum ýmislegt, og ég hygg að það sé æskilegt að allur almenningur í landinu fái vitneskju um vinnubrögð af þessu tagi, hvaða einstaklingur eða stjórnmálaflokkur það er sem slíkum vinnubrögðum beitir.

NEFNDARKOSNING.

Fram komu þrír listar með jafnmörgum nöfnum samtals og menn skyldi kjósa. Samkvæmt því lýsti forseti yfir að kjörnir væru án atkvgr.:

Jón Árnason (A),

Gunnlaugur Finnsson (A),

Steinþór Gestsson (A),

Geir Gunnarsson (B),

Þórarinn Sigurjónsson (A),

Pálmi Jónsson (A),

Ingi Tryggvason (A),

Lárus Jónsson (A),

Helgi F. Seljan (B),

Sighvatur Björgvinsson (C).