14.12.1976
Sameinað þing: 31. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1206 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

1. mál, fjárlög 1977

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Á þskj. 127 flyt ég brtt. við fjárlagafrv. Ég flutti þær fljótlega eftir að 1. umr. um fjárlagafrv. hafði farið fram hér og meðan málíð var enn til meðferðar í fjvn. Ástæðan til þess að ég hafði þennan hátt á er sú, að ég geri hér till. um æðiháar upphæðir, næstum því 2 600 millj. kr., og mér er kunnugt um þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð. Meðferðin eftir 1. umr. um fjárl. í fjvn. er aðalmeðferðin og hún markar stefnuna og eftir að búið er að taka ákvörðun um hana er mjög erfitt að koma fram breytingum sem máli skipta. Það er hægt að koma fram minni háttar breyt., en ekki jafnstórum breyt. og þarna eru gerðar till. um.

Aðalbrtt. mín er sú að lífeyristryggingar almannatrygginga, sá liður verði hækkaður um 20%. Það eru 2 milljarðar 334 millj. Þetta er allhá upphæð, en engu að síður er þetta ekki hærri upphæð en svo, að ég hygg að hún muni varla hrökkva til þess að bæta upp þá skerðingu á lífskjörum sem aldrað fólk og öryrkjar hafa orðið fyrir á undanförnum tveimur árum.

Almannatryggingakerfið er ein mikilvægasta framkvæmd sem hefur verið gerð á Íslandi á þessari öld, að mínu mati. Það er stundum í hátíðlegu tali rætt um velferðarríki, og ég held að mælikvarðinn á velferðarríki sé hvernig þar er búið að öldruðu fólki, öryrkjum og börnum. Við höfum lært okkar kerfi af öðrum Norðurlandaþjóðum, en við höfum lengi verið miklir eftirbátar þeirra um framkvæmdina.

Þegar almannatryggingakerfið var lögfest hér á Íslandi var það stórviðburður. En því miður varð þróunin sú æðilengi eftir það að stuðningur almannatryggingakerfisins við aldrað fólk og öryrkja var miklu minni en ástæða var til og ég er kunnugur þessum málum annars staðar á Norðurlöndum. Ég þekki t.a.m. persónulega aldrað fólk og öryrkja í Danmörku, og ég held að það sé nærri því víst að lífeyrir þessa fólks í Danmörku sé að kaupmætti tvöfalt hærri en hér á Íslandi. Auk þess kemur til margvísleg önnur félagsleg fyrirgreiðsla. T.a.m. er tekið tillit til húsnæðiskostnaðar aldraðs fólks og öryrkja. Ef hann fer yfir ákveðið mark kemur þar einnig til stuðningur frá almannatryggingakerfinu. Einnig nýtur aldrað fólk og öryrkjar mikillar fyrirgreiðslu í sambandi við ferðalög. Það fær að ferðast á mjög lágu verði, ekki aðeins með strætisvögnum, heldur einnig með járnbrautum og ferjum sem eru í ríkiseigu í Danmörku, og margvísleg önnur fyrirgreiðsla er þar einnig í sambandi við síma, hljóðvarp og sjónvarp, þannig að þarna erum við mjög aftarlega, finnst mér.

Það tókst í tíð fyrrv. ríkisstj. að lyfta þessum hópum allverulega, þannig að kjör þessa fólks tóku að nálgast það, sem þau voru annars staðar á Norðurlöndum. En því miður hefur þróunin orðið sú að þetta hefur sigið aftur og er komið upp ástand sem ég tel íslensku þjóðfélagi algjörlega til vanvirðu.

Það hefur tíðkast mikið núna um þessar mundir á Íslandi að meta alla hluti til peninga, að leggja peningamælikvarða á allt. Við skulum minnast þess að fólkið, sem nú fær ellilífeyri á Íslandi, er aldamótakynslóðin. Það er fólkið sem fæddist um síðustu aldamót, árin fyrir og eftir aldamótin. Þetta er það fólk sem hefur unnið það afrek að lyfta Íslandi úr einhverju versta fátæktarbæli í Evrópu upp í þjóðfélag sem er með einhverjar hæstu meðalþjóðartekjur á mann. Þetta fólk var ekki með peningasjónarmið þegar það vann þetta afrek. Það þorði að nota orð eins og ættjarðarást. Það var ekkert feimnisorð þá. En það er þetta fólk sem hefur lyft þessu þjóðfélagi upp í það sem það er núna, og ef peningasjónarmiðinu væri beitt gæti þetta fólk gert æðimikinn reikning til okkar sem nú lifum. Það gerir ekki þennan reikning því það á enn þá til þennan aldamótahugsunarhátt sem ég minntist á áðan. En það er skylda okkar, sem núna erum á miðjum aldri eða yngri, að láta þetta fólk njóta þess stórvirkis sem það hefur gert á Íslandi.

Ég tel þetta ástand, eins og það er orðið núna aftur, íslensku þjóðfélagi til algjörrar vanvirðu. Það eru engin rök fyrir því að aldrað fólk og öryrkjar eigi að geta dregið fram lífið á rúmlega 40 þús. kr. á mánuði. Mér þætti ákaflega fróðlegt ef einhver vildi leggja fram dæmi um það hvernig hægt er að draga fram lífið á slíku, enda hefur ákaflega stór hópur aldraðs fólks haft samband við mig, hringt í mig og sagt, að það hafi getað komist af á tíma fyrrv. ríkisstj. en nú geti það það ekki lengur, það verði að leita til ástvina sinna eða vina til þess að geta dregið fram lífið hreinlega, og ég endurtek, ég tel þetta vera þjóðfélagi okkar til algerrar vanvirðu. Það eru engin rök fyrir því að leysa efnahagsvandamál, sem upp kunna að hafa komið, á kostnað þessara þjóðfélagshópa. Það er okkur öllum til vanhirðu að gera það.

Þessi upphæð, sem ég nefndi áðan, 2 miljarðar 334 millj., kann að virðast allhá, og ég er fús til þess að aðstoða við tekjuöflun til þess að mæta henni. En tekjuhlið fjárlaga er ekki til umræðu að þessu sinni og ég hef ekki borið fram neina formlega till. um það, en ég er mjög fús til samvinnu um það. Það eru margar matarholur til í okkar þjóðfélagi. Ég minnist þess til að mynda að fyrir nokkrum árum, þegar frændþjóðir okkar á Norðurlöndum voru að breyta um frá söluskatti í virðisaukaskatt, að þá voru birtar rannsóknir, sem gerðar höfðu verið í Danmörku, Svíþjóð og Noregi á því hve miklu af söluskatti væri stolið undan, kæmi aldrei í ríkissjóð þó að það væri innheimt, og mat manna var það, að þessi upphæð væri hvorki meira né minna en milli 10 og 20%. Ég hygg að hærri prósentan eigi við hér á Íslandi vegna þess að hér er mikill fjöldi atvinnurekenda með smárekstur, eins konar vasabókhald, þar sem þeir geta hagrætt hlutunum að vild sinni. En þarna er um ákaflega stórar fjárhæðir að ræða. Söluskatturinn á Íslandi er nú kominn upp í 20% og heildarupphæðin er 33 milljarðar. 10% er 3.3 milljarðar, 20% er nærri 7 milljarðar. Þetta er miklu hærri upphæð en sú sem ég geri hér till. um.

Við ræddum hér fyrir nokkrum dögum um dæmi sem verðlagsstjóri hefur dregið fram í dagsljósið um það hvernig innflytjendur hegða sér í sambandi við innkaup á varningi frá útlöndum. Þetta er ekkert nýtt fyrirbæri á Íslandi. Um þetta hefur alltaf verið vitað. Það er saga sem er næstum því eins gömul og íslenska þjóðin. Meðan við vorum dönsk nýlenda voru það einokunarkaupmennirnir dönsku sem aðallega höfðu af okkur fjármuni, og sú þróun hefur því miður haldið áfram. Ef fast væri tekið á þessum málum, þá hygg ég að þar mætti auðveldlega finna ærið marga milljarða til þess að standa undir hlutum eins og lífeyri til aldraðs fólks og öryrkja. Við sáum í sumar skattskrá sem bar með sér að auðug fyrirtæki og auðmenn losna við að borga eðlileg gjöld til opinberra aðila. Ef tekið væri á þessu máli væri einnig hægt að finna verulegar fjárveitingar til að standa undir eðlilegum lífskjörum aldraðs fólks og öryrkja á Íslandi. Ég nefni þessi þrjú dæmi. En ég er reiðubúinn til þess að starfa með fjvn. eða hæstv. fjmrh. til þess að finna tekjustofn á móti þeirri aukningu á lífeyri aldraðs fólks og öryrkja sem ég geri till. um.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta nú. En mér er þetta ákaflega mikið alvörumál, að íslenskt þjóðfélag má ekki sökkva niður í það fen að láta aldrað fólk og öryrkja búa við miklu rýrari kost en almenning í landinu. Okkur er ekki sæmandi að hafa slíkt þjóðfélag.

Önnur till. á þessu þskj. fjallar um framlag til Geðdeildar við Landsspítalann í Reykjavík. Á fjárlagafrv., eins og það var lagt fyrir, var gert ráð fyrir 125 millj. kr. til framkvæmda við Geðdeild. Ég geri till. um að fjárveitingin verði 380 millj. Það var meðan ég gegndi störfum heilbrrh. að gengið var frá framkvæmdaáætlun um byggingu Geðdeildar og þá gerðar alveg ákveðnar áætlanir og miðað við að byggingin yrði fullgerð í ársbyrjun 1978. Þetta hefur því miður verið tafið mjög stórlega, ekki síst á þessu ári. Það er talið að miðað við núverandi verðlag, sem því miður endist víst ekki nema skamma stund, vanti um 760 millj. á að hægt sé að fullgera Geðdeildina. Ég geri hér till. um helming þeirrar upphæðar og er þá miðað við að Geðdeildin geti verið tilbúin í árslok 1978 og þyrfti ekki tefjast þá nema í eitt ár eða svo. En miðað við þær till., sem rn. hefur komið með fram í sambandi við fjárlög, þá virðist mér að það muni taka ein 6 ár að fullgera Geðdeildina. Mun ég taka þetta sem dæmi um þá kenningu hæstv. forsrh. að nú eigum við að stefna að því að draga úr samneyslu og auka einkaneyslu. Ég hef áður víkið að þessari kenningu hér á þingi, vegna þess að ég tel hana vera stórhættulega. Það er einmitt stefna sem leiðir að vaxandi mismunun í okkar þjóðfélagi og leiðir til þess að erfiðleikar bitni á þeim sem síst skyldi. En með þessu framferði, að draga opinberar byggingar á þennan hátt, að safna peningum í steinsteypu sem ekki kemur að neinu gagni, þá er ekki verið einu sinni að framkvæma þessa stefnu hæstv. forsrh. Það er aðeins verið að fara mjög illa með peninga. Það er ekki hægt að fara fíflalegar með peninga en að festa þá í steinsteypu sem kemur ekki að neinu gagni. Við verðum að vera menn til þess að hraða öllum slíkum byggingum eftir því sem kostur er, þannig að þær komi til nota. Á meðan þær koma ekki til nota er verið að binda fjármuni sem munu ekki skila neinum þjóðfélagslegum arði. Og við skulum minnast þess, að það er enginn sjúklingahópur á Íslandi sem á eins erfitt og geðsjúkt fólk. Þar vantar mörg hundruð legurými. Ef ég man rétt gerði Tómas Helgason grein fyrir því, að hann teldi vanta nærri 600 legurými. Þarna er um að ræða sjúklinga sem yfirleitt er hægt að hjálpa ef þeir koma til meðferðar nægilega snemma. En ef þeir koma ekki til meðferðar nægilega snemma, þá koma upp veruleg vandamál, þá geta þessir sjúklingar orðið að búa við sjúkdóm sinn alla ævi og þeir geta leiðst út á alls konar vandræðagötur, drykkjuskap og annað slíkt, sem oft fylgir einmitt geðveilusjúkdómum. Kostnaður, sem af slíku hlýst, er vissulega atriði sem menn eiga að hugsa um líka, þeir sem vilja reikna allt til peninga.

Ég nefni hér og flyt till. einvörðungu um Geðdeildina, en það er æðimargt annað á svíði heilbrigðismála sem ástæða hefði verið til að flytja till. um. Í tíð fyrrv. stjórnar var m.a. gerð áætlun um Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og var við það miðað að hægt yrði að ljúka þeirri miklu framkvæmd á árinu 1983. Þegar ég gerði grein fyrir því þá hér á þingi risu upp ýmsir þm. Sjálfstfl. og gagnrýndu mig harðlega fyrir of daufar framkvæmdir. Ég sé, — að sá þm., sem talaði einna mest um það, brosir framan í hæstv. fjmrh. En mér sýnist að fjárveitingar til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri séu nú þannig að það verði ekki fullgert fyrr en á næstu öld, og þetta er, eins og ég sagði áðan, herfileg meðferð á fjármunum, fyrir utan þann andlega hluta sem skiptir náttúrlega langmestu máli. Við verðum að hafa vit á því að raða framkvæmdum og hraða þeim eins og við getum, annars erum við að sóa peningum í tóma vitleysu.

Á þskj. 165 er till., sem ég er borinn fyrir. Hún er um framlag til byggingar sundlaugar við Grensásdeild Borgarspítalans í Reykjavík. Þetta eru mistök. Ég hef óskað eftir því að þessi till. verði tekin til baka a.m.k. við þessa umr. Ég geri þetta vegna þess að ég er alveg sannfærður um að hv. fjvn. muni afgr. þetta mál á jákvæðan hátt. Í þingbyrjun fluttum við 4. þm. úr jafnmörgum flokkum, ásamt mér hv. þm. Jóhann Hafstein, hæstv. ráðh. Einar Ágústsson og hv. þm. Eggert G. Þorsteinsson, þáltill. um þessa framkvæmd. Henni var vísað til fjvn. Og mér er kunnugt um að starfsmenn Reykjavíkurborgar og borgarráð hafa fjallað um málið og komið sér niður á endanlega till. sem kostnaður við mun vera um 120 millj. kr. Þegar málið var rætt hér við 1. umr. fékk það ákaflega góðar undirtektir. Fyrir utan okkur flm. tóku þar til máls Albert Guðmundsson og Gylfi Þ. Gíslason, hv. þm., ef ég man rétt, og einnig hæstv. heilbrrh., og undirtektir þeirra voru allar mjög jákvæðar. Ég tel ekki nokkra minnstu ástæðu til að efast um að hv. fjvn. muni sinna þessu máli og flytja um það till. af sinni hálfu. Ég dreg það alls ekki í efa. Þess vegna er þessi till. mín komin inn fyrir mistök, eins og ég sagði, og verður dregin til baka.