14.12.1976
Sameinað þing: 31. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í B-deild Alþingistíðinda. (831)

1. mál, fjárlög 1977

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Þegar hefur við þessa umr. verið gerð svo ítarleg grein fyrir megináliti okkar alþb.-manna varðandi fjárlagaafgreiðsluna nú og heildarstefnuna í fjármálum og efnahagsmálum af hv. þm. Geir Gunnarssyni að þar er í engu þörf við að bæta.

Nokkrar almennar hugleiðingar um virkni og áhrif fjvn. hljóta hér að nokkru inn í að koma fyrir nýliða, og skal þá skýrt fram tekið að ekki er þar við meiri hl fjvn. að sakast um vinnubrögð og markviss áhrif á fjárlagagerð, heldur ræður þar mestu um hver áhrif stjórnvalda og stefna þeirra eru hverju sinni, og inn í það fléttast svo um leið hin mikla og sívaxandi sjálfvirkni fjölmargra fjárlagaliða. Ég vík hér aðeins að starfi undirnefnda í skólamálum, athugasemdum varðandi meðferð á fjárveitingum tilflugmála og geri að síðustu stuttlega grein fyrir þeim tveim eða þeim brtt., sem ég stend að. En fyrst nokkur almenn orð.

Ég hlýt að taka undir þakkir þeirra, sem hér hafa talað frá hálfu minni hl. fjvn., þakkir til samnm. okkar og þó alveg sérstaklega tl formanns fjvn. Þar tek ég heils hugar undir, því það samstarf hefur í alla staði verið ágætt þó leiðir hafi skilið í ýmsum málum.

Stutt vera í fjvn. hefur sannað mér tvennt að mínu viti: Allt of lítil áhrif fjvn. sem heildar á fjárveitingar, nema þá hvað skiptingu snertir. Stjórnvöld og embættismenn sníða n. vægast sagt þröngan stakk í störfum öllum. Starf n. fer æ meira og meira í átt til umsjónar- og skiptingarnefndar einhvers konar en nafnið bendir í raun og veru til, — þetta ágæta nafn sem felur nokkuð mikið í sér: fjárveitinganefnd, þ.e.a.s. nefnd með raunhæft sjálfstæði í fjárveitingum, ekki aðeins til smærri liða, heldur og til stærri málaflokka, þó ég viti að stjórnarstefna og stjórnvöld hverju sinni hljóti ætið að vera mestu ráðandi. Ég held að hér sígi ætíð í nokkra ógæfuátt, því dvínandi áhrif n. í raun eru til ills miðað við stöðu hennar áður og raunar miðað við almennt álit fólksins í landinu á áhrifamætti nefndarinnar og valdsvið hennar, sem ljóst er að fólk almennt vill að sé nokkurt og það ólíkt meira en nú hefur reynst. Þetta verður ljóst bæði í viðtölum við n. og eins viðhorfum ýmissa opinberra aðila, svo sem sveitarstjórna o.fl. Þeir aðilar vilja almennt á það trúa að vald n. sé ólíkt meira en það í raun er. Og hitt er svo ljóst, að þrátt fyrir mikla sanngirni formanns n., sem ber að virða og meta, hlýtur víða svo að fara að minnihlutamönnum þyki sem vera sín í n. sé í mörgu til lítils og þá ekki hvað síst í þeim málum sem sköpum skipta, t.d. í ýmsum þeim samneysluþáttum sem hljóta ætið að vera efst á baugi hjá félagshyggjumönnum. Hér er það ekki meiri hl. fjvn., sem ferðinni ræður eða í vegi stendur, heldur ríkisstj. sem með niðurskurðarstefnu sinni markar brautina alveg sérstaklega í þeim opinberu framkvæmdum sem landsbyggðin byggir öðru fremur á: heilsugæslu, menntakerfi, samgöngum og félagslegri þjónustu, svo helstu þættir séu nefndir. Þegar á því leikur vafi fram á síðustu stund og á móti því virðist vera barist af stjórnvöldum að t.d. rúmar 30 millj. fáist til viðbótar í allar grunnskólabyggingar landsins þrátt fyrir hina geysilegu fjárþörf sem þar er, 26 millj. kr. upphæð til allra heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa, að ekki sé nú talað um fáeina milljónatugi í dagvistarheimili, eitt brýnasta samfélagsverkefni okkar sem þar að auki er sem fjárfesting arðbært í besta lagi fyrir hagvaxtarbú framleiðslunnar eða svo er okkur sagt, þá stöndum við andspænis margfaldri þessari upphæð allri í höfn uppi á Grundartanga, af því að hún á að þjóna hvoru tveggja: hagsmunum erlends auðhrings, en þó framar öllu öðru sem líður í því að snúa atvinnuþróun á Íslandi við frá innlendri framleiðslu eigin hráefna, þegar þar er nú bjartara fram undan en áður, inn á braut erlendrar stóriðju sem fyrst og síðast beinist að fjárhagslegu ósjálfstæði okkar. Við þessari ágætu höfn þarna uppi á Grundartanga, sem gleypir nokkur hundruð milljóna, er hið einfalda svar: Þetta er ekkert atriði. Til þess verkefnis á að taka lán. — Og manni skilst svo sem á þeim góðu mönnum, sem þau orð hafa, að þetta lán eigi aldrei að borga, það skipti engu máli. (Gripið fram í: Fundið fé.) Ja, enda fundið fé að þeirra dómi. Það er þó vissulega rétt.

En Grundartanginn er nú kannske ekki eina dæmið þó að það sé mér einna mestur þyrnir í augum. Víða hleðst utan á í okkar ríkiskerfi þar sem með öllu virðist óþarft við að bæta, og eins og hv. þm. Geir Gunnarsson hefur með ljósum dæmum og skýrum rökum sýnt fram á hafa rekstrarútgjöld ýmiss konar, vaxtahækkanir af völdum óráðsíuskulda og fleiri liðir ýmsir bólgnað út og margfaldast á meðan þeir samneysluþættir, sem ég minnti á áðan og hafa afgerandi þýðingu fyrir landsbyggðina, hafa glatað svo mjög raungildi sínu sem raun ber vitni og hvarvetna sér stað. Það er óþarft að fara um það fleiri orðum, en hann fjallaði í skýru máli sínu fyrr í dag.

Ég starfaði í undirnefnd skólamála, og ljúft er mér og skylt að þakka samstarfið þar, einkum við formanninn, hv. þm. Steinþór Gestsson, sem gerði flest sem honum var unnt til að menn gætu orðið sáttir. Vitanlega verða menn ekki á eitt sáttir um svo viðamikla afgreiðslu og margliðaða, og því get ég lýst yfir, að ánægður er ég ekki, því fer fjarri en þar er vitanlega aðalatriðið að upphæðin, sem til skipta kemur, er allt of lág. Þegar svo naumt er skammtað að ekki er einu sinni ætlað fé til þeirra framkvæmda sem þegar eru í gangi og eiga lögum samkvæmt að taka ákveðinn árafjölda, þá gefur auga leið að enginn vegur er að koma nýjum brýnum framkvæmdum að nema á einn veg, þ.e.að skerða þær fjárveitingar til fyrri framkvæmda sem eru þó nær óhjákvæmilegar, m.a. vegna áfangaskipta. Og þó sú leið hafi verið valin til þess að hleypa nýjum framkvæmdum af stað, þá er þar eins um svo takmarkaðar fjárhæðir að ræða að um það hlýtur að ríkja mikill vafi með flestar þeirra, hvort fjárveiting nægi til byrjunarframkvæmda. Ég lýsi því yfir að ég var út af fyrir sig samþykkur þeirri leið sem valin var, annað var hreinlega ekki hægt vegna fjölmargra framkvæmda sem beðið hafa í stöðvun síðustu tveggja ára. En auðvitað orkar þetta mjög tvímælis þegar fjárhæðin til skipta er 1300 millj. á móti nær 1900 millj. kr. fjárþörf sem rn. taldi að væri brýnt að til þessa verkefnis færi, og var þó hvergi nærri allt tekið með inn í það dæmi sem átt hefði að taka.

Þegar við erum nú að feta fyrstu sporin á grundvelli nýrra laga um grunnskóla, þá er vægast sagt ömurlegt að svo skuli vera staðið að framkvæmdaþættinum sem byggingar allar snertir. En hér er um samræmda stefnu stjórnvalda að ræða sem birtist þó hvergi á nöturlegri hátt en í dagvistarheimilunum og framlögum til þeirra sem hv. þm. Svava Jakobsdóttir gerði hér grein fyrir svo rækilega áðan að ég þarf ekki að fjölyrða þar um frekar. En varðandi afgreiðslu undirnefndar skólamála, þá var þar eitt atriði sem ég rak mig á sem mér þykir sérstök ástæða til að minnast á, og það er Reykjavík annars vegar og landsbyggðin hins vegar, án hins minnsta metings þar á milli. Ég hygg að Reykjavík sé ekkert of sæl af sinni hlut í grunnskólum ef við tökum þá alveg út af fyrir sig. En þar var sá reginmunur á og viðast úti á landsbyggðinni að allt var njörvað niður með samningum, sem hvergi mátti við hræra, milli Reykjavíkurborgar og menntmrn Endirinn varð svo sá að þarna var hreyft við lítillega í lokin, ég segi: þakka beri formanni þessarar undirnefndar, hv. þm. Steinþóri Gestssyni. En það var vissulega ekki skemmtilegt að horfa á þessar njörvuðu upphæðir sem ekki mátti skera niður um krónu, vil ég segja, á meðan við þurftum svo að hamast við að skera niður fjárveitingar til hinna ýmsu framkvæmdaþátta úti á landi, sumpart til að geta verið innan ramma fjárlaga og sumpart, eins og ég sagði áðan og það skal viðurkennt, til þess að geta hleypt nýjum verkum af stað, — verkum sem óhjákvæmilega biðu. Til viðbótar þessu kemur svo það að Reykjavíkurdæmið er margslungið. Inn í það koma hreinir framhaldsskólaþættir vegna alls konar samninga milli rn. og Reykjavíkurborgar og í grunnskólaframkvæmdum eru þannig yfir 200 millj. til Reykjavíkur í verkefni sem ekkert eiga skylt við grunnskólastigið. Þetta er illþolandi og má ekki svo til ganga lengur. Reyndar var ákveðið í undirnefndinni, og ég hygg að þannig verði niðurstaða fjvn. í heild einnig, að unnið skyldi að breytingunum hér á fyrir næstu fjárlagagerð, og á það verður að treysta. En aðalatriðið er þó frá mínum sjónarhóli að allir sitji hér við sama borð, hafi sama rétt, að Reykjavík eða hvaða annar staður sem er á landinu, hvaða kjördæmi sem er, skulum við segja, hafi ekki neinn forgang þegar sest er að skiptingu fjárins og að skera þar niður. Þar eiga og mega engir samningar koma í veg fyrir eðlilegan jöfnuð.

Ég skal taka skýrt fram hér og nú, að einn skóla hér á þessu Reykjavíkursvæði hef ég borið sérstaklega fyrir brjósti, enda er hann eins og er fyrir landið allt og alfarið kostaður af ríkinu. Þetta er Öskjuhliðarskólinn. Eitt mesta gleðiefni mitt úr þessu starfi öllu er að það skyldi nást fram m.a. fyrir ötula forgöngu formanns undirnefndar að sá skóli fengi sinn skerf til eðlilegs áframhalds og réttrar þróunar á menntabraut þessa vanrækta fólks.

Ég vildi aðeins víkja hér að flugmálunum og taka undir það sem hér hefur áður verið sagt um það hve fjárveitingar til þeirra mála eru allt of lágar og alveg sérstaklega þegar litið er til þess hve þýðing flugsins í samgöngum okkar er orðin gífurleg. Einhvern tíma verðum við sem sagt að viðurkenna það hve snar og mikilvægur þáttur flugið er orðið í öllum okkar samgöngum. Við verðum einhvern tíma að fara að setja hlutina í rétt samhengi og viðurkenna hina miklu og brýnu þörf, sem við höfum fyrir þennan samgönguþátt, og þá nm leið að tryggja öryggi í þessum málum sem allra mest, og þar tek ég undir hina hvössu ádrepu sem kom hér fram frá hv. þm. Karvel Pálmasyni áðan varðandi hina vægast sagt óviðunandi öryggisþjónustu víðs vegar um land.

Þegar við ræddum um flugmálin kom upp sú athugasemd við eitt atriði flugmálanna hvort ríkið ætti skilyrðislaust að fjármagna flugstöðvabyggingar. Ég held að þarna sé mikil spurning um hvort það séu ekki aðrir aðilar sem eiga að fjármagna þessar byggingar á aðalflugvöllum okkar, hvort flugfélögin sjálf eigi ekki hreinlega að gera þetta. Ég held að þetta sé röng stefna að mínu viti, að ríkið sjái hér um, það sé Flugfélagið sem eigi að eiga og reka þessar byggingar og þar með auðvitað greiða stofnkostnað við þær. Ég held að afkoma þessa félags sé svo ágæt og skattleysi þess með þeim endemum einnig að það hljóti að geta staðið við það ef þeir njóta sömu hlunninda og þeir hafa gert.

Annað atriði í þessu sambandi vildi ég nefna og það er hin furðulega og óvenjulega meðferð fjárlagatalna sem er hjá þessari ágætu stofnun. Ég veit ekki betur en viðast hvar, þó þess séu reyndar önnur slæm dæmi einnig, — að víðast hvar séu þær fjárveitingar, sem á blað komast í fjárlögum, geymdar og taldar geymdar í þau verkefni sem þær eru ætlaðar til á fjárlögum hverju sinni. Þessu er öfugt farið í sambandi við flugmálin. Þar eru fjárveitingar ekki taldar geymdar hjá viðkomandi og fjárfest í allt öðrum þáttum en fjárveitingar segja til um, og flugmálayfirvöld virðast hafa þarna furðufrjálsar hendur. Það er kannske nokkuð gróft dæmi að taka dæmið um Egilsstaðaflugvöll vegna þess að þar hefur ríkt nokkur vafi hvað ætti að gera með þann flugvöll, hvort ætti að flytja hann á nýjan stað eða hvort ætti að endurbyggja hann á þeim stað sem hann er nú. En ég get ekki stillt mig um að benda á það, að 1974 og 1975 var veitt til þessa flugvallar samtals 58.5 millj. kr. á fjárlögum. Fjármögnunin varð hins vegar 7.5 milljónir. Samkvæmt þessu ætti Egilsstaðaflugvöllur að eiga inni geymda frá þessum árum 51 millj. kr. Ekki er fullljóst um árið í ár, fjármögnunin mun þó vera innan við fjárveitinguna, en þó nær en áður. Hér þarf að mínu viti að verða á mikil breyting og sama regla að gilda um fjárveitingar í þessum efnum og hjá öðrum stofnunum, þannig að þær fjárveitingar, sem við sjáum í fjárlögunum, séu látnar renna til þeirra framkvæmda sem þar er áætlað, ef þær eru ekki geymdar til viðkomandi verkefnis. Það mun hafa verið ákveðið í fjvn. að skrifa flugmálastjóra bréf og krefjast hér sömu aðferða og annars staðar gilda um þetta í kerfinu. Því ber að fagna. En það þarf líka að koma fram hvernig með síðustu ár verður farið, svo hrikalegur munur sem þar er á fjárveitingum og fjárfestingum. Þar verða bæði viðkomandi ráðh. og fjvn. úr að skera.

Ég hef flutt hér ásamt hv. þm. Braga Sigurjónssyni, Magnúsi T. Ólafssyni og Stefáni Jónssyni litla brtt. um nýjan lið: til Alþýðuleikhússins á Akureyri 1500 þús. Ég vil fara um þessa till. nokkrum orðum.

Hér er um mjög merkilegt framtak að ræða, svo ekki sé meira sagt. Einu sinni var kostuð um landið starfsemi sem kallaðist, að mig minnir: Líst um landið. Sumt af því, sem þar var flutt, var allvel gert, sumt miður. Sums staðar var hreinlega kastað til höndum og var eins og verið væri að fá einhverja uppgjafamenn hér syðra til þess að bæta þeim upp vonbrigði sín á listamannsferlinum. En þetta leikhús hefur gert tvennt sem er mjög merkilegt. Það hefur flutt frumsamin íslensk leikverk og í öðru lagi hafa þau verið frumsýnd úti á landi og það hefur verið ferðast um landið með þessi verk. Alþýðuleikhúsið hefur sem sé farið inn á það hlutverk sem blessuðu Þjóðleikhúsinu okkar með 260 milljónirnar er ætlað að rækja, en það vanrækir eins rækilega og kostur er.

Ég vil taka það fram að undirtektir við þetta leikhús úti á landi hafa verið frábærar, og ég sé það einnig hjá gagnrýnendum hér að þeir þykja hér fullkomlega samkeppnishæfir við aðra í þessum efnum.

Menn álitu e.t.v. að úr liðnum leiklistarstarfsemi gæti Alþýðuleikhúsíð fengið eitthvert framlag. Ég hlýt að fagna því að þetta framlag hefur verið hækkað um 50%, enda staðið í stað í tvö s.l. ár að mestu. En þegar lögin eru skoðuð, — og ég bar það alveg sérstaklega undir fyrrv. menntmrh., Magnús T. Ólafsson, sem er þessu máli mjög kunnugur frá úthlutun á þessu fé, — þá er útilokað að Alþýðuleikhúsið fái styrk úr þessari fjárveitingu. Ef menn vildu svo sniðganga lögin og gera vel við Alþýðuleikhúsið engu að síður, þá yrði útkoman sú fyrir áhugafélögin í landinu í heild að það yrði lítið úr hækkuninni til þeirra, því að staðreyndin yrði þá auðvitað sú, ef Alþýðuleikhúsið yrði tekið þarna inn, að vegna verkefna og sýningafjölda samkvæmt reglunum um úthlutun mundi það hljóta að fá a.m.k. helming af þeirri hækkun sem lögð hefur verið til nú af fjvn.

Alþýðuleikhúsið verður því að mínu viti að komast á sérlið. Ég trúi því ekki, að pólitískt ofstæki í garð róttækra listamanna með skapandi hugverk ráði enn hér, og veit raunar, að margir úr liði núv. stjórnarflokka vilja sannarlega hér að styðja.

En úr því að ég minntist á leiklistarstarfsemina, þá vil ég aðeins til upplýsingar um það, hve skammt 50% hækkunin hrekkur, upplýsa að úthlutun er nú nýlega lokið og sú raunalega staða kom upp að sama krónutala var veitt til verkefna áhugafélaganna nú og s.l. ár. Menn hafa, held ég, aldrei athugað það á hverju lögin um leikstarfsemi áhugamanna byggjast. Þau byggjast á því að þau veiti leikfélögunum styrk sem nægi til leikstjórakostnaðar. Þannig voru þau upp byggð og þannig voru þau kynnt. Þannig var sú meginregla sem fyrrv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, lagði til grundvallar þegar þessi lög urðu til á sínum tíma. Núverandi styrkir nægja nú til helmings í besta falli, en fara allt niður í þriðjung af leikstjórakostnaði. Sama gróska og vöxtur þýddi þá smávægilega lagfæringu næst sem þó ber að meta ef þessi upphæð verður óskert. Ég vil aðeins nota þetta tækifæri til að sýna þörfina á því að frv. til leiklistarlaga, sem nú liggur fyrir Alþ., nái fram að ganga, svo að fast skipulag megi komast hér á og viðunandi fyrirgreiðsla fáist við þessa oft merkustu menningarstarfsemina í mörgum byggðarlögum.

En umfram allt: Alþýðuleikhúsið má ekki verða þögn og fyrirlitningu að bráð hér á þingi. Ég held að landsbyggðarmenn ættu alveg sérstaklega að sameinast um leiðréttingu þessu leikhúsi til handa.

Ég hef einnig á þskj. 165 borið fram litla till. um hækkun á framlagi til Skriðuklausturs vegna viðbótarmanns sem þangað er þegar kominn í góðri trú, manns sem ætlað er að stunda tilraunir þar á búinu og allir, sem til þekkja, viðurkenna að sé til þess einkar vel fær. Ég veit að þessi till. átti og á góðan hljómgrunn innan meiri hl. fjvn., en þó ekki nægilega til þess að fram næðist, a.m.k. ekki ennþá. Ég var að vísu upplýstur um það, eftir að þessi till. kom fram, að vel kynni að verða á þessu leiðrétting, og ég verð þá að trúa því og mun draga þessa till. til baka til 3. umr. að sjálfsögðu. Það er upplýst í þessu sambandi að sú stofnun hér syðra, sem hefur með yfirstjórn að gera varðandi öll þessi mál og þar með yfirumsjón með tilraunabúunum, hafi á síðustu árum mjög aukið við starfslið sitt hér syðra. En nú þegar á að bæta við einum manni beint á vettvangi hins raunverulega starfs, þá kemur stöðvunin á. Og mér er tjáð að það sé fordæmið sem menn óttast. Ég er nú ekki alveg með á því og skil ekki hvaða voði væri í því ef á tilraunabúinu sjálfu færu nú að koma rannsóknaraðilar, færir starfskraftar og góðir, í stað þess að bæta enn frekar við mönnum við skrifborðið hér uppi á Keldnaholti. Hér er röng stefna á ferð, og ég leyfi mér að vitna í orð eins þekktasta sérfræðings okkar eystra í þessum málum orðum mínum til halds og trausts. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Sannleikurinn er sá, að starfsemin á tilraunastöðvunum hefur að mestu leyti staðið í stað í fleiri áratugi. Á hverri tilraunastöð er tilraunastjóri sem einn ber ábyrgð á tilraununum og hefur yfirleitt ekki sérmenntaða menn með sér. Auk þess að sjá um tilraunirnar eiga þeir svo að stjórna búrekstri sem verður í flestum tilfellum þeirra aðalstarf, en tilraunirnar sitja á hakanum.

Síðari árin hefur verið safnað miklu af sérmenntuðum mönnum á ýmsum sviðum landbúnaðarins á Keldnaholti. Til að störf þessara manna njóti sín þarf tilraunastörf, því að tilraunirnar eru grundvöllurinn undir fræðistörfum á flestum sviðum. Að mínu viti er því efling tilraunastarfseminnar á tilraunastöðvunum mjög nauðsynleg fyrir landbúnaðinn, en hún hefur verið vanrækt því að mest menntuðu sérfræðingarnir hafa lítið leitað þangað, en meira leitað eftir að koma sér fyrir við skrifborð.“

Þetta voru orð þess manns sem ég met mest í þessum málum eystra hjá okkur varðandi þennan lið.

Áður hefur verið mælt hér fyrir brtt. frá okkur hv. þm. Lúðvík Jósepssyni út af Fáskrúðsfjarðarmálinu. Ég vil aðeins benda á það í því sambandi, að framlag bæði til heilsugæslustöðvar og eins til lúkningar læknisbústaðar á Búðum, báðir þessir liðir eru þess eðlis að þar er ekki um nýja liði að ræða. Báðir voru nefnilega á fjárl. síðasta árs. Ég hlýt að trúa því að a.m.k. annar þessara liða, sá sem er þegar í fullum gangi, þ.e.a.s. læknisbústaðurinn, nái fram að ganga. Ég hef reyndar um það vilyrði að þetta mál verði tekið til endurskoðunar, og ég trúi sérstaklega á góðan vilja hv. þm. Lárusar Jónssonar, sem er formaður undirnefndar í þessum málum, til þess að hér verði úrbætur á, því að það er full ástæða til þess að þeir fáskrúðsfirðingar verði ekki alveg út undan nú eftir að hafa þó verið gefið grænt ljós í sambandi við hvorn tveggja þessara líða á síðasta ári.

Ég skal ekki hafa þessi orð miklu fleiri. Margt er enn ógert í störfum fjvn„ eins og hér hefur verið hent á, og eiginlega illmögulegt að sjá hvernig hví á að ljúka í tæka tíð svo að a.m.k. við landsbyggðarmenn komumst sæmilega heim fyrir jólin. Suma þætti ræði ég því ekki hér. jafnvel þá þætti sem ég vildi gjarnan vekja sérstaka athygli á, einkum af þeim ástæðum að ég vænti þar leiðréttingar á. Þar nefni ég alveg sérstaklega Styrktarsjóð vangefinna sem ég hef um nokkra vissu að á fáist jákvæð afgreiðsla nú næstu daga og að sá sjóður verði allt að þrefaldaður, svo sem full þörf er á.

Aðeins í lokin vildi ég svo taka sérstaklega undir till. sem ég hef verið meðflm. að hér áður, a.m.k. tvisvar, um hækkun á jöfnun námskostnaðar, sem er á þskj. 165, frá þeim hv. þm. Karvel Pálmasyni, Skúla Alexanderssyni og Braga Sigurjónssyni. Ég viðurkenni það að á þessu hefur fengist nokkur leiðrétting í meðförum fjvn. En á það ber að leggja ríka áherslu að sú leiðrétting, sem þar hefur fengist, er aðeins til þess að mæta hækkun framfærsluvísitölu frá í fyrra, en ekki til þess að bæta upp stórfellda skerðingu frá árinu 1975 og eins á þessu ári, hvað þá að fara nokkuð í áttina eftir anda laganna um algera jöfnun námskostnaðar. Það skulu mín lokaorð nú að leggja áherslu á nauðsyn framgangs þessa máls og treysta því og trúa að á þessu fáist frekari leiðrétting, að við förum nú að feta okkur eitthvað í áttina til þess að hér verði raunverulegum jöfnuði náð, en ekki verði aðeins um nokkurn hluta bóta að ræða eins og verið hefur hingað til.