14.12.1976
Sameinað þing: 31. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

1. mál, fjárlög 1977

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Mér þykir hlýða að fara nokkrum orðum um till., sem ég flyt hér við 2. umr. fjárl., og fylgja þeim úr hlaði. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um fjárlagafrv. ríkisstj. eins og það virðist ætla að verða nú eftir 2. umr. fjárl. Ég er andvígur samdráttarstefnu ríkisstj., þeirri samdráttarstefnu sem hún hefur iðkað hvað opinberar framkvæmdir snertir. Ég tel að niðurskurður, sem felst í því að fjárveitingar til margháttaðra nauðsynjamála hækka lítið sem ekkert frá ári til árs þrátt fyrir einhverja mestu verðbólgu Íslandssögunnar, — ég tel, að slíkur niðurskurður sé óréttlætanlegur með öllu, og þarf ekki að fara frekari orðum um það mál. Ég tel líka að ríkisstj. eigi auðvelt með að afla meira fjár í ríkiskassann en hún gerir, m.a. með því að breyta skattalögum í viðunandi horf, og við alþb.-menn höfum einmitt flutt till. þess efnis ár eftir ár. Ég sé því ekki heldur ástæðu til þess að fjölyrða um tekjur þær sem gætu komið á móti þeim útgjaldatill. sem ég leyfi mér að flytja. Það mætti vafalaust fá milli 5 og 10 þús. millj, kr. í auknar tekjur fyrir ríkissjóð ef skattalögum væri breytt, og er það að sjálfsögðu margfalt, margfalt hærri upphæð en sú sem felst í brtt. okkar stjórnarandstæðinga.

Það kveður sýknt og heilagt við, þegar rætt er um fjárlög ríkisstj., að skera verði niður opinberar framkvæmdir til þess að sporna gegn verðbólgunni og til þess að koma í veg fyrir þenslu í efnahagslífinu, eins og það er kallað. Ég ætla ekki heldur hér að fjölyrða um þessa hlið málanna. En ég vil rétt aðeins leyfa mér að spyrja hvort menn telji fremur verðbólguhvetjandi ef 10 stórfyrirtæki í Reykjavík eru ekki látin borga 50 millj. kr. í tekjuskatt sem þeim bæri að greiða ef eitthvert réttlæti ríkti í skattalöggjöfinni, þessu fé sé haldið eftir og því sé síðan eytt í einkafjárfestingu eigendanna, eða þá hitt, að þessar 50 millj. séu teknar í ríkiskassann og þeim varið til byggingar sjúkrahúsa úti um land. Hvor stefnan er frekar verðbólguhvetjandi eða fallin til þess að auka þenslu í þjóðfélagi? Ég er hræddur um að það þurfi býsna laginn hagfræðing til þess að finna út að það sé verulegur munur á þessum tveimur leiðum. Ef einhver munur er hvað verðbólguáhrif snertir eða hvað snertir óhagstæðari viðskiptajöfnuð, þá er ég sannfærður um að það gildir áreiðanlega frekar í því tilvikinu að stórfyrirtækin haldi þessu fé eftir og fái að eyða því að sinni vild. Í báðum tilvikum er að sjálfsögðu um eyðslu fjármuna að ræða. Aðalmunurinn er í því fólginn hvað fyrir þá fæst. Ég tel að stefna fjárl. sé andfélagsleg, hún sé andmenningarleg, eins og reyndar við mátti búast af íhaldsstjórn. Ég er andvígur niðurskurðarstefnu fjárl., andvígur þeirri stefnu í skattamálum sem fjárl. eru byggð á, og ég hika því ekki við að flytja hér nokkrar till. um brýn málefni sem fela í sér hækkun fjárlaga. Ég vil nú gera grein fyrir þessum tillögum.

fyrsta lagi flyt ég hér ofurlitla till. sem snertir Sinfóníuhljómsveitina og er á þskj. 181. Tillögugerð þessi byggist á erindi Tónskáldafélags Íslands sem sent hefur verið bæði menntmn. Ed. og Nd. og fjvn., en hefur ekki verið sinnt. Í bréfi Tónskáldafélagsins segir m.a. að í Sinfóníuhljómsveitinni sé fjöldi tónlistarmanna fastráðinn, og svo segir þar, með leyfi forseta:

„Þessir menn hafa lært hljóðfæraleik og geta séð sér farborða með því að leika á hljóðfæri sitt. Hljóðfæraleikarar eru túlkandi eða endurskapandi listamenn sem hafa það að ævistarfi að flytja gamla tónlist, a.m.k. að langmestu leyti. Sinfóníuhljómsveitin og opinberir aðilar gera næstum ekkert til þess að ný íslensk tónlist verði til. Hinir skapandi tónlistarmenn eru nær algerlega settir hjá. Ungur maður, sem leggur stund á selló- eða trompetleik, getur átt í vændum atvinnu við list sína og tiltölulega örugga afkomu við hljóðfæraleik. En leggi hann fyrir sig tónsmíðar verður hann að sjá fyrir sér og sínum með öðru en tónsmíðum. Og eftirfarandi spurning vaknar: Hví er ekki hægt að hafa einn skapandi listamann á launum við Sinfóníuhljómsveitina úr því að unnt er að hafa nokkra tugi túlkandi listamenn þar starfandi? Munurinn á kjörum tónskálda og hljóðfæraleikara sést best af því að laun eina tónskáldsins, sem Alþ. hefur veitt heiðurslaun listamanna, eru ekki helmingur af launum eins hljóðfæraleikara í Sinfóníuhljómsveitinni.“

Bréf þetta eru allmiklu lengra en hér hefur verið lesið, en ég held að þessi kafli úr bréfinu gefi fulla innsýn inn í þá hugsun sem að baki þessari tillögugerð felst. Á seinasta aðalfundi Tónskáldafélags Íslands mun hafa verið gerð eftirfarandi samþykkt:

„Aðalfundur Tónskáldafélags Íslands, haldinn 15. febr. 1975, skorar á Alþ. að stofna hið fyrsta stöðu fyrir tónskáld við Sinfóníuhljómsveit Íslands sem hafi það starf að semja verk fyrir hljómsveitina. Staðan verði veitt til eins árs í senn.“

Í bréfinu segir einnig að fyrirkomulag hugmyndarinnar gæti verið á þessa leið, að n. tilnefnd af Tónskáldafélagi Íslands, stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands og starfsmannafélagi hljómsveitarinnar tæki ákvörðun um það eftir umsóknum hvaða tónskáld hlyti þessa stöðu til eins árs í senn. Ekki mætti ráða tónskáld til lengri tíma í einu nema í sérstökum tilfellum. Sama tónskáldi yrði ekki veitt staða þessi oftar en á 7 ára millibili. Tónskáldinu yrði skylt að skila í lok ráðningartímabils verki fyrir hljómsveitina eða hóps innan hennar. Tónskáldið fengi sömu laun og konsertmeistari.

Ég sé ekki ástæðu til þess að gera frekari grein fyrir þessari till. Ég tel að Tónskáldafélag Íslands geri hér fullnægjandi grein fyrir hendi með þessum orðum sem ég hef greint frá, og ég geri það því að till. minni að í liðinn, sem snertir Sinfóníuhljómsveitina, komi staða tónskálds við Sinfóníuhljómsveit Íslands veitt til hálfs eða eins árs í senn, 2 millj. kr.

Í öðru lagi flyt ég nokkrar till. sem snerta skólabyggingar á Norðurl. v. Ég er ekki að halda því fram að Norðurl. v. sé kjördæmi sem fari illa út úr fjárveitingaskiptingu til skólamála í landinu ef miðað er við önnur kjördæmi. En ég tel hins vegar að það hafi átt sér stað fráleitur niðurskurður á fjárveitingum til skólamála almennt í landinu á undanförnum tveimur árum. Ég hef ekki haft aðstöðu til að yfirfara það dæmi í heild hvar þörfin er mest, en læt mér hér nægja að benda á nokkra staði og gera till. um nokkra staði sem ég tel að nauðsynlega þurfi úrbóta við.

Í fyrsta lagi eru það skólastaðirnir Skagaströnd og Haganeshreppur, þ.e.a.s. skólastaðurinn í Fljótum. Í báðum tilvikum er gert ráð fyrir því, að þessir staðir fái 3 millj. í fjárl. Í báðum tilvikum er um að ræða skólastaði sem hafa fengið á undanförnum árum smáslettur á fjárl. sem hafa verið mátulega smáar til þess að engum hefur dottið í hug að hefja neinar framkvæmdir. Ég óttast að í þessu tilviki sé einnig um að ræða fjárveitingar sem séu meira til að sýnast. Ég rökstyð þessa fullyrðingu mína m.a. með því, að í till. menntmrn. til fjvn. er gert ráð fyrir að Haganeshreppur fái 15 millj. til að fara af stað með sína skólabyggingu og Skagaströnd fái 12.5 millj. Það eru þær upphæðir sem menntmrn. bersýnilega telur nauðsynlegar til þess að sá skriður komist á þessar skólabyggingar sem þörf er á. Sé hins vegar um að ræða mjög smávaxnar fjárveitingar er hætta á því að það sama verði upp á teningnum á þessu ári og mörg undanfarin ár, — ég tek það fram: mörg undanfarin ár, — að veitt er smáupphæð til skólabyggingarinnar sem kemur ekki að neinum notum og er ekki gerð tilraun til að nota vegna þess að hún nýtist ekki. Ég vil í þessu sambandi vekja á því athygli að ég hef í tvö undanfarin ár flutt till. um fjárframlög til þessara tveggja skólabygginga, en þær hafa í bæði skiptin verið felldar.

Í þriðja lagi flyt ég till. sem snertir skólann í Varmahlið í Skagafirði. Í ábendingum menntmrn. til fjvn. er frá því greint að fjárveitingaþörf til þessa skóla sé 32 millj. á árinu 1977 og ég geri hér till. um þessa upphæð í staðinn fyrir þær 23 millj. sem till. er gerð um af hálfu hv. fjvn. Ég óttast það og veit það reyndar, vegna þess að ég þekki mjög vel til þessa staðar og þessa skóla, að framkvæmdir munu stöðvast við það uppbyggingarstarf sem þarna fer fram ef ekki fæst meiri fjárveiting en hér er um að ræða, því að hún mun nokkurn veginn öll renna upp í skuldir, upp í það sem þegar hefur verið unnið og er í skuld úti um hvippinn og hvappinn.

Í þriðja lagi geri ég hér till. um nokkur menntamál á Norðurl. v. Þar er í fyrsta lagi um að ræða fjárveitingu til safnahúss á Sauðárkróki 300 þús., til safnahúss á Blönduósi 300 þús. og til Héraðsskjalasafns Skagfirðinga 200 þús.

Varðandi safnahúsin er rétt að vekja á því athygli að þau hafa verið í fjárl. í fjöldamörg undanfarin ár, en einhver niðurskurðarmeistarinn hefur nú brugðið hnífnum á þessar fjárveitingar og skorið þær algerlega út. Og það eru reyndar ekki bara þessi tvö safnahús sem hafa horfið út úr fjárlagafrv., heldur gildir hið sama um nokkur önnur hús.

Nú skal það tekið fram að ríkissjóður hefur ekki byggt þessi hús. Ríkissjóður hefur aðeins látið lítils háttar framlag á hverju ári til þessara bygginga, en að langmestu leyti hefur verið staðið undir kostnaði við byggingu þeirra af viðkomandi sveitarfélögum og sýslufélögum. Enn er margt ógert í sambandi við þessi hús, og tel ég því einsýnt að þessum fjárveitingum verði haldið áfram, ekki eru þær stórar, 300 þús. kr. í hvoru tilviki.

Hv. fjvn. hefur borist styrkbeiðni frá Héraðsskjalasafni skagfirðinga þar sem farið er fram á að veittar verði 200 þús. kr. til söfnunar og skrásetningar ljósmynda. Í allítarlegri og langri grg., sem fylgir þessari umsókn og undirrituð er af Kristmundi Bjarnasyni f.h. stjórnar Héraðsskjalasafnsins, er gerð grein fyrir því gagnmerka starfi sem fram hefur farið á Sauðárkróki við söfnun gamalla mynda, og án þess að ég fari að rekja hér efni þessa bréfs, þá vil ég leyfa mér að fullyrða að hér sé um sjálfsagt nauðsynjamál og merkilegt nauðsynjamál að ræða og ég vildi eindregið mælast til þess að hv. alþm. veittu þessu máli liðsinni.

Í fjórða lagi flyt ég ásamt hv. þm. Stefáni Jónssyni till. sem snerta grænfóðurverksmiðjur í Skagafirði og í Suður-Þingeyjarsýslu. Ég vil leyfa mér að fullyrða að þessar verksmiðjur eru einhver arðbærustu fyrirtæki sem unnt er að reisa hér á landi og vafalaust ólíkt skynsamlegri fjárfesting heldur en þau stóriðjufyrirtæki sem nú eru mest í tísku, þ. á m. það stóriðjufyrirtæki sem nú á að reisa í Hvalfirði, á Grundartanga. Þar við bætist að hér er um að ræða sérstakt nauðsynjamál fyrir landbúnaðinn og hér er um að ræða verksmiðjur sem ætlunin er að noti jarðhita fyrst og fremst, en á það skal bent að þær verksmiðjur, sem fyrir eru í landinu, nota ekki jarðhita, heldur olíu. Þetta eru því fyrstu verksmiðjurnar sem verða staðsettar þannig að þær gætu notað jarðhita, og hér er því um merkilega nýjung að ræða í atvinnuháttum íslendinga.

Ég vil minna á það að fyrir einu ári fluttum við hv. þm. Stefán Jónsson sams konar till. sem einnig snertu verksmiðjur í Hólminum í Skagafirði og í Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu. Þá voru upphæðirnar, sem við nefndum, 15 millj. sem mátti heita lágmark þess sem til þurfti þá til að koma þessum framkvæmdum af stað. Þessar till. voru þá felldar og engin fjárveiting fékkst til þessara nauðsynjamála. En síðan hefur verið gerð svo hörð hríð að forustumönnum landbúnaðarmála, þ. á m. hæstv. landbrh., að koma þessu máli fram, að ríkisstj. sér nú sóma sinn í því að veita 10 millj. kr, til hvorrar verksmiðju í þessu frv. Ég tel hins vegar að þar sé um algerlega ófullnægjandi fjárveitingu að ræða. Það er því till. okkar, miðað við það að við gerðum till. um 15 millj. í fyrra í hvora verksmiðju, að nú verði veittar 20 millj. í hvora verksmiðju.

Í fimmta lagi flyt ég till. um fjárveitingar til nokkurra sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva á Norðurl. v. Ég nefndi það áðan að ég sæi ekki ástæðu til að kvarta yfir fjárveitingum til skólamála á Norðurl. v. ef einungis væri miðað við það hvað önnur kjördæmi fá og ekki væri tekið tillit til þarfarinnar. En ég get ekki sagt það sama um fjárveitingar til sjúkrahúsmála. Ég tel, að fjárveitingar til sjúkrahúsmála á Norðurl. v. séu óeðlilega lágar, og gæti auðveldlega fært sönnur á þá fullyrðingu. Ég vil hins vegar láta þess getið að svo hefur verið oft á undanförnum árum og hefur oft verið yfir því kvartað. En það er að sjálfsögðu engin afsökun fyrir því að enn skuli fara svo að algerlega ófullnægjandi fjárveitingar fást til sjúkrahúsmála á Norðurl. v.

Hér er um að ræða í fyrsta lagi sjúkrahús á Blönduósi og Sauðárkróki, en á báðum þessum stöðum er ætlunin að byggja heilsugæslustöðvar. Ég vil minna á það hér að það er ekki í fyrsta sinn að um þetta mál er fjallað hér á Alþ., heilsugæslustöðvar á þessum stöðum, því að þessar stöðvar hafa um marga ára skeið fengið fjárveitingar í fjárl. án þess að nokkuð væri framkvæmt fyrir þessar fjárveitingar, vegna þess að þær hafa ávallt verið of lágar. Ég tel að þær fjárveitingar, sem nú eru áætlaðar í fjárl., séu enn of lágar til þess að þær megi gagnast sem skyldi. Ég er ekkert viss um það að t.d. 22 millj. til heilsugæslustöðvar á Blönduósi nýtist nokkuð betur en þær 10 millj. sem veittar voru til þessarar heilsugæslustöðvar, ekki í fyrra, heldur í hittiðfyrra, en voru ekki notaðar þá, heldur skornar niður og notaðar í eitthvað allt annað. Ég get rétt ímyndað mér að sami leikurinn eigi að gerast nú í fimmta skipti í röð, því að það er fjórum sinnum áður búið að veita fjárveitingar til þessara heilsugæslustöðva án þess að nokkur skriður kæmist á framkvæmdir, þar af tvívegis 10 millj. til hvors staðar. Ég tel að það beri því brýna þörf til að þessar fjárveitingar verði hækkaðar upp í það sem rn. gerði till. um, en það voru 36 millj. í hvoru tilvíki.

Sama gildir um heilsugæslustöð á Hvammstanga. Hverjum dettur í hug að það sé annað en að sýnast að fjvn. kemur hér með till. um 2 millj. til heilsugæslustöðvar á Hvammstanga? Það verður áreiðanlega lítið gert við þá fjárveitingu annað en halda áfram að teikna eins og gert hefur verið á undanförnum árum. Það gildir það sama um þessa heilsugæslustöð, að hún hefur verið til umr. í mörg ár án þess að nokkurn tíma fengist skriður á það mál.

Fjórða læknamiðstöðin í þessu kjördæmi er Siglufjörður og þeir, sem til þekkja, vita að þar er að skapast hið mesta vandræðaástand vegna þess að húsnæði vantar fyrir læknana á staðnum. Það er gerð till. í fjárl. um 5 millj. til læknisbústaðar á Siglufirði og ég tel að það sé ófullnægjandi, enda mun till. rn. hafa verið um 10 millj. Ég vil því gera hér till. um að sú fjárveiting verði veitt.

Loks er ég hér með till. um að Hofsósi, sem er einn af þeim mörgu stöðum á landinu, sem eru algerlega læknislausir, og verður að leita í heilsugæslustöð klukkutímaleið að vetrarlagi, verði veitt fjárveiting til þess að bæta læknamóttöku á staðnum, eins og unnið hefur verið að á undanförnum árum. Samkv. þeim upplýsingum, sem við alþm. höfum fengið, mun sá kostnaður vera kominn upp í 4–5 millj., og óskað er eftir því að tvær millj. verði á fjárl. veittar til þessa verks. Ég tel sjálfsagt og óhjákvæmilegt að við því verði orðið, enda lágmark að aðstaða þess staðar, sem svo illa er farið með, — hann hefur nú verið sviptur lækni sínum og íbúar þaðan verða að leita langan veg, oft í erfiðum vetrarferðum, til læknis, — að þeirra aðstaða hvað sjúkrameðferð snertir á staðnum sjálfum verði bætt.