15.12.1976
Efri deild: 22. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (851)

123. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen): Herra forseti. Frv. til l. um breyt. á lögum nr. 79 frá 1975, um aukatekjur ríkissjóðs, er flutt í tengslum við breytt fasteignamat sem leiðir af gildistöku laga nr. 94/1976, um skráningu og mat fasteigna. í samræmi við 26. gr. þeirra laga hefur yfirfasteignamatsnefnd ákveðið framreikning fasteignamats frá síðasta viðmiðunartíma þess, þ.e.a.s. frá verðlagi áranna 1969–1970, en þá fór síðast fram aðalmat fasteigna, eins og kunnugt er. Samkv. ákvörðunum n. verður framreikningsstuðull fasteignamatsins 5.5, en í fáeinum sveitarfélögum verður hann ekki nema 5 og í öðrum sveitarfélögum fer framreikningsstuðullinn upp í 6:5.

Þetta nýja og framreiknaða fasteignamat mun í samræmi við till. yfirfasteignamatsnefndar taka gildi hinn 31. des., eins og fram hefur komið í fréttatilkynningu frá fjmrn. Þar sem fasteignamat er samkv. ýmsum lögum viðmiðunargrundvöllur margs konar gjaldtöku til ríkis og sveitarfélaga fer ekki hjá því að endurskoða þurfi ákvæði þeirra laga. Þessi gjöld eru yfirleitt ákveðin sem viss prósenta af fasteignamatsverði, þannig að með 5.5–6-földun á fasteignamati að meðaltali er augljóst að þessi gjöld munu hækka stórkostlega að óbreyttum lögum.

Þau lög, þar sem fasteignamatsverð hefur áhrif á gjaldtöku opinberra aðila, eru þrenn á vegum fjmrn.: Í fyrsta lagi lög nr. 68 1971 með síðari breytingum um tekju- og eignarskatt, í öðru lagi lög 75 1921, um stimpilgjald með síðari breytingum, og í þriðja lagi lög nr. 79/1975, um aukatekjur ríkissjóðs. Samkv. þeim lögum hefur fasteignamat áhrif á töku skiptagjalds, sbr. 7.–9. gr. þeirra, og þinglýsingargjalds af eignarheimildum fyrir fasteign, sbr. 16. gr. laganna.

Á vegum félmrn. eru tvenn lög þar sem fasteignamatsverð hefur áhrif á gjaldtöku. Það eru lög nr. 8/1972 með síðari breytingum um tekjustofna sveitarfélaga, þar sem matið hefur áhrif á fasteignaskatta samkv. 3. gr. laganna, og í öðru lagi lög nr. 30/1971, um erfðafjárskatt með síðari breytingum. Samkv. 12. gr. þeirra laga er fasteignamatsverð alltaf viðmiðunargrundvöllur þess gjalds, sbr. hins vegar þinglýsingargjald ásamt stimpilgjaldi þar sem raunverulegt söluverð er viðmiðun ef það er gefið upp í skjali, en fasteignamat að öðrum kosti.

Meginbreytingin, sem lagt er til með frv. þessu að verði gerð frá gildandi lögum, kemur fram í 2. gr. frv., en þar er um að ræða þinglýsingargjald af skjölum er varða fasteignir. Samkv. núgildandi lögum er lágmarksgjald þinglýsingar af öllum slíkum skjölum 2000 kr. og síðan 150 kr. fyrir hver 100 þús. sem verðhæð skjalsins fer þar fram yfir. Með frv. er lagt til að sú upphæð lækki um helming, þ.e.a.s. úr 150 kr. í 75 kr. Við stefnumörkun á fjárhæð þess gjalds var haft í huga að frá því að nýtt fasteignamat tók gildi í árslok 1971 hafa þessi gjöld verið svo að segja óbreytt í krónutölu ef frá er talin óveruleg hreyting á lágmarksgjaldi sem gerð var á þessu tímabili. Þessi tekjustofn ríkissjóðs hefur því stöðugt verið að rýrna, og með hliðsjón af því, að með þinglýsingu eru menn að kaupa sér vernd ríkisvaldsins fyrir eignarréttindum sínum, tel ég eðlilegt að þessi gjöld hækki nokkuð í krónutölu til samræmis við breytt verðgildi peninga. Sú hækkun í krónutölu, sem þarna er lögð til, er þó ekki meiri en svo, að hún nær ekki hækkun á verðgildi þess gjalds sem menn greiddu fyrir þinglýsingu þessara skjala árið 1972, þ.e.fyrst eftir gildistöku núgildandi fasteignamats.

Sem örlítið dæmi um, hvernig þetta kemur út, má nefna hvaða gjöld menn greiddu fyrir þinglýsingu afsals af fasteign í þessu tilvíki íbúð í blokk, á árinu 1972 og hvað menn greiða ef þetta frv. verður að lögum. Af slíkri eign, sem er að fasteignamati 1200 þús. kr., greiddi kaupandi samtals í stimpilgjöld og þinglýsingargjöld á árinu 1972 rúmlega 8 þús. kr. Vegna minni háttar leiðréttingar á byrjunargjaldi greiðir hann nú rúmlega 9 þús. kr. Ef sú fjárhæð, sem hann greiddi samanlagt í þessi gjöld á árinu 1972, væri færð til núvirðis, eins og reyndar var gert á s.l. ári með önnur gjöld samkv. þessum lögum, þá ætti kaupandi slíkrar eignar að greiða rúmlega 34 þús. kr. vegna stimplunar og þinglýsingar afsalsins. Ef hins vegar það frv. til l. um breyt. á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, sem hér er mælt fyrir, og samhljóða frv. um breyt. á stimpillögum verða samþ. þarf hann að greiða rúmlega 25 þús. í þessi gjöld, sem samkv. framansögðu nær ekki rýrnun á verðgildi þessara gjalda eins og þau voru ákveðin við gildistöku núgildandi fasteignamats.

Aðrar breyt., sem lagt er til að gerðar verði með frv. þessu, eru þýðingarlitlar og þarfnast ekki nánari skýringar. Ég leyfi mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.