15.12.1976
Efri deild: 22. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1255 í B-deild Alþingistíðinda. (856)

56. mál, launaskattur

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur á nál. á þskj. 155 skrifa ég undir með fyrirvara, en það stafar af því að við höfum, tveir þm. Alþfl. hér í hv. d., flutt brtt. er felur það í sér að ekki verði borgaður launaskattur af fólki sem er 67 ára eða eldra eða líkamlega fatlað og metið til örorku allt að 60% eða meira af Tryggingastofnun ríkisins. Þar sem þessi hópur manna hefði ekki sömu möguleika til að tryggja sér vinnu og margir aðrir, en eilítið álag eins og launaskatturinn er á atvinnu fólks, þó það sé ekki beint á launin, þá eru það útgjöld, þá töldum við að það væri nokkur hvöt fyrir atvinnuveitanda að hafa þetta fólk áfram í vinnu, ef að þrengdi, með því að þurfa ekki að borga kvöð af þessu fólki. Þetta hefur átt sér stað í öðrum löndum á Norðurlöndunum, og því miður veit ég um tilfelli þar sem fólk verr sett hefur orðið að víkja fyrr en æskilegt hefði verið úr vinnu. Hér er um sáralítið mál að ræða fyrir ríkissjóð í heild, en nokkuð persónulegt fyrir tiltölulega fáa einstaklinga á þessu aldursskeiði.

Það kom fram á fundinum að það kynni að vera nokkurt vandamál að gera greinarmun á þessu. En það er ekki svo, því að þegar maður gerir skil á launaskatti, eins og einhverjir fleiri en ég hafa þurft að gera undanfarið, þá erum við þegar beðnir um sundurliðun á launaskatti og hvers vegna hann komi fram með mismunandi hætti. Sú mótbára fær því ekki staðist, ef hv. þm. vilja kynna sér seðilinn sem við erum látnir fylla út. Þetta er á sjálfu sér ekkert vandamál, enda á launabókhald allra manna að vera á hreinu og það kostar aðeins eina frádráttartölu ef allt er í lagi, svo að sú mótbára, að hér sé um aukna skriffinnsku að ræða, fær ekki staðist. Hér er um lítils háttar sanngirnismál að ræða sem ég vona að hv. þm. vilji líta á.

Að öðru leyti erum við sammála um að launaskatturinn haldi áfram eins og verið hefur. Honum er ráðstafað á heilbrigðan og eðlilegan hátt og þetta er orðið gamalt í þjóðfélaginu og ekki nein tök á að fara að hrófla við þessum skatti út af fyrir síg. En þetta kann að vera viðkvæmt mál fyrir fáa einstaklinga sem standa verr að vígi atvinnulega séð.