15.12.1976
Efri deild: 22. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í B-deild Alþingistíðinda. (858)

11. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Frsm. (Ingi Tryggvason):

Herra forseti. Allshn. Ed. hefur rætt frv. til l. um rannsóknarlögreglu ríkisins á tveimur fundum. Frv. kom til Ed. Alþ. 9. des. og eins og hv. þm. er kunnugt hefur þetta mál lengi verið til skoðunar hjá hv. Nd. Alþ. og allshn. Nd.

Það er talið mikils vert að það takist að afgr. þetta frv. á þessu ári. Það er öllum ljóst að allshn. Ed. hafði ekki mikinn tíma til að skoða málið ef takast ætti að afgr. það nú fyrir jólin. N. kynnti sér eftir föngum þau gögn, sem frv. fylgdu frá Nd., og nm. urðu sammála um að mæla með samþykkt frv., en einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt.

Það kom fram í umr. í n., að ýmsum nm. sýndist að eðlilegt gæti verið eftir atvikum að einstök atriði í sambandi við lagasetningu þessa yrðu athuguð seinna eða lögin yrðu athuguð áður en langt líður með tilliti til hugsanlegra breytinga að fenginni reynslu, og þótti nm. rétt að þær hugmyndir, sem þeir höfðu um hugsanlegar breytingar, yrðu þá teknar til skoðunar við endurskoðun frv. þegar nokkur reynsla verður komin á það og eðlilegt þykir að taka það til skoðunar.

Ég tel ekki ástæðu til þess að rekja hér efni þessa frv., hv. dm. er það meira og minna kunnugt, og mun ég ekki orðlengja frekar hér um.