15.12.1976
Efri deild: 22. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í B-deild Alþingistíðinda. (869)

126. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Verðjöfnunargjald af raforku hefur verið alllengi í gildi og hefur því verið varið til þess að standa undir eða draga úr halla Rafmagnsveitna ríkisins, en gjaldið rennur um Orkusjóð til framkvæmda á vegum Rafmagnsveitna ríkisins.

Á árunum 1973–1974 var ákveðið af þáv. ríkisstj. að breyta því verðjöfnunargjaldi, sem áður hafði verið, breyta því í skatt á smásölu, þ.e.a.s. við útsölu rafmagns frá rafveitunum, og hækka það þannig að það gæfi verulega auknar tekjur.

Í fjárlögum fyrir árið 1974 var gert ráð fyrir þessu nýja hækkaða gjaldi. Það átti þá að skila 440 millj. kr. Úr því varð ekki að frv. um það efni yrði lögfest fyrr en haustið 1974. Varð það til þess að Orkusjóður eða Rafmagnsveiturnar fengu ekki nema lítinn hluta af þessum áætluðu tekjum á því ári. Þetta gjald hefur síðan verið framlengt frá ári til árs. Á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir að það skili um 700 millj. kr., og í fjárlagafrv. fyrir 1977 er áætlað að það skili 725 millj. kr. Núgildandi lög gilda aðeins til ársloka 1976, og efni þessa frv. er að verðjöfnunargjaldið skuli einnig gilda fyrir árið 1977.

Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og til iðnn.