15.12.1976
Neðri deild: 23. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (874)

128. mál, Bjargráðasjóður

Iðnrh.(Gunnar Thoroddsen):

Forseti. Gildandi lög um Bjargráðasjóð eru nr. 51 frá 1972. Í þeim segir að Bjargráðasjóður sé sjálfstæð stofnun, sameign ríkisins, sveitarfélaga og Stéttarsambands bænda. Um hlutverk sjóðsins segir að hlutverk hinnar almennu deildar, en hann skiptist í tvær deildir, sé að veita einstaklingum, fyrirtækjum og sveitarfélögum fjárhagsaðstoð til að bæta meiri háttar tjón á fasteignum og lausafé af völdum náttúruhamfara, svo sem óveðurs, flóða og vatnavaxta, skriðufalla, snjóflóða, jarðskjálfta og eldgosa. En í 9. gr. segir að hlutverk búnaðardeildar sé að veita einstaklingum og sveitarfélögum fjárhagsaðstoð til að bæta meiri háttar tjón vegna búfjárdauða af völdum sjúkdóma eða af slysum, þegar gáleysi eigenda verður eigi um kennt, til fóðurkaupa vegna grasbrests, af völdum kulda, kals eða óþurrka, til að afstýra óeðlilega mikilli förgun búfjár, að bæta uppskerubrest á garðávöxtum, að veita fjárhagsaðstoð vegna verulegs afurðatjóns á sauðfé og nautgripum. Þetta er um hlutverk þessara tveggja deilda sjóðsins, hinnar almennu deildar og búnaðardeildar.

Um tekjur Bjargráðasjóðs segir að sveitarfélög skuli greiða sem nemur 50 kr. gjaldi fyrir hvern íbúa sveitarfélags, enn fremur skuli greiða 0.25% af söluvörum landbúnaðarins, og í þriðja lagi á ríkissjóður að greiða framlag sem nemur samanlögðum framlögum skv. þessum tveimur liðum, þ.e.a.s. framlagi sveitarfélaga og gjaldinu af söluvörum landbúnaðarins.

Það var orðið ljóst fyrir nokkru og í rauninni glöggt á síðasta ári að lög um Bjargráðasjóð þyrftu endurskoðunar við. Í fyrsta lagi mundi hann vera fjárvana til þess að hlaupa undir bagga ef einhver alvarleg tíðindi gerðust, eins og í rauninni hafa síðan gerst í sambandi við óþurrkana á s.l. sumri, og í öðru lagi þótti rétt að endurskoða tiltekin ákvæði vegna tilkomu Viðlagatryggingar. Það var því 8. sept. í fyrra sem ég fól stjórn Bjargráðasjóðs að endurskoða lög sjóðsins og eins og segir í bréfinu:

„sérstaklega með tilliti til setningar laga um Viðlagatryggingu Íslands.“ En jafnframt var lögð á það áhersla að efla fjárhagsstöðu sjóðsins.

Þetta frv. er árangur af þessari könnun stjórnar Bjargráðasjóðs og tillögugerð hennar. Með frv. er lagt til að framlag sveitarfélaga, sem hefur verið óbreytt nú um nokkurra ára skeið í krónutölu, hækki úr 50 kr. upp í 150 kr., í öðru lagi að framlag búvöruframleiðenda hækki úr 0.25% í 0.35%. Mótframlög ríkissjóðs hækka svo sjálfkrafa af þessum ástæðum.

Þessar breytingar mundu gera það að verkum að tekjur Bjargráðasjóðs tvöfölduðust, en á þessu ári eru þær áætlaðar 70–80 millj. kr. Á árinu 1977 yrðu því tekjur sjóðsins, ef þetta frv. yrði samþ., 140–160 millj. kr. að óbreyttum aðstæðum, þ.e.a.s. að viðbættum tekjum sem kunna að stafa af fólksfjölgun og hækkuðu búvöruverði ef til kemur.

Stjórn sjóðsins segir í grg. sinni að vegna gífurlegra tjóna, sem hlotist hafa af völdum óþurrkanna í sumar, er ljóst að til sjóðsins verður leitað á komandi hausti — þetta bréf er skrifað í sumar — og vetri um fyrirgreiðslu, auk fyrirgreiðslubeiðna vegna annarra tjóna. Þarf þá hvort tveggja að koma til, bráðabirgðafyrirgreiðsla í formi láns til sjóðsins og efling hans, eins og gert er ráð fyrir í þessum till.

Þá eru varðandi ákvæðin um almennu deildina gerðar nokkrar breytingar með hliðsjón af lögum um Viðlagatryggingu, og í megindráttum má segja að með þessu nýja orðalagi skuli hin almenna deild Bjargráðasjóðs taka þar við sem viðlagatryggingu þrýtur.

Ég ætla að þetta mál þurfi ekki frekari skýringa við, en vil leggja til að frv. verði vísað til hv. félmn. Ég tel mjög mikilvægt að þetta frv. verði lögfest nú áður en þinghlé verður svo það geti tekið gildi 1. jan. n.k., eins og frv. gerir ráð fyrir. Ég vil því biðja n. um að hraða afgreiðslu þess eftir föngum.

Ég vænti þess að málið hljóti góðar undirtektir og geti náð samþykki Alþingis í tæka tíð.