15.12.1976
Neðri deild: 23. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

31. mál, dagvistarheimili fyrir börn

Frsm. (Gunnlaugur Finnsson):

Virðulegi forseti. Félmn. Nd. hefur fjallað um þetta frv. Það er samið með tilliti til þeirrar breytingar sem var gerð í fyrra á verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og hefur gengið í gegnum Ed. Þegar frv. kom til Nd. höfðu komið fram ábendingar, bæði frá menntmrh. sem og frá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar, og n. tók tillit til ábendinga, sem þar komu fram, og hefur þess vegna lagt fram brtt. á sérstöku þskj., 159. Þessar breyt. eru þó ekki efnislegar, heldur fyrst og fremst til að skýra frekar aðskilnað á þátttöku ríkisins vegna stofnkostnaðar dagheimilanna og vegna rekstrar dagheimilanna og eru þess vegna eingöngu leiðréttingar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta frekari orð, en undir nál. rita með fyrirvara þeir Magnús T. Ólafsson og Eðvarð Sigurðsson. Sá fyrirvari er ekki þess eðlis að þeir leggi á móti þeirri breyt, sem hér er gert ráð fyrir, efnislega séð, ef verkefnaskiptingin verður áfram sem er orðin staðreynd, en þeir gera fyrirvara vegna þess að þeir voru á móti þessari verkefnaskiptingu í fyrra og eru það í sjálfu sér enn, en sem sagt ef hún á sér stað telja þeir eðlilegt að þessar leiðréttingar verði gerðar. Ellert B. Schram hefur einnig fyrirvara og mun eflaust skýra hann hér sjálfur. Ég sé að komnar eru fram brtt. við frv. þar sem gert er ráð fyrir að stiga skrefið til baka aftur, en um það fjalla ég ekki að svo komnu máli.