15.12.1976
Neðri deild: 23. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í B-deild Alþingistíðinda. (882)

31. mál, dagvistarheimili fyrir börn

Ellert B. Schram:

Virðulegi forseti. Eins og frsm. n. gat um hef ég skrifað undir þetta nál. með fyrirvara. Það er ekki vegna þess að ég sé ekki samþykkur þeim efnisbreytingum, sem gerðar eru núna á þessum lögum, né heldur vegna þess að ég sé andvígur þeirri verkefnaskiptingu sem upp var tekin milli ríkis og sveitarfélaga við byggingu og rekstur dagvistarheimila. Fyrirvarinn var vegna þeirra ákvæða sem samþ. voru með breyt. á þessum lögum frá 1973 og fram koma í 11. og 12, gr. laganna og þessa frv. sem hér liggur fyrir. Þar var ákveðið að rn. gæti með reglugerð sett skilyrði um húsakost dagvistarheimila, stærðareiningar, húsrými á barn, barnafjölda á deild, fjölda starfsliðs hverrar deildar og ákvæði um útivistarsvæði og innri gerð. Vitaskuld er nauðsynlegt að einhver ákvæði séu um þessi atriði, en ég tel að þær reglur og þau ákvæði, sem um þau hafa verið sett, séu allt of stíf og hafi leitt til þess að við höfum farið nokkuð aftur á bak frekar en fram á við í þessum málum.

Í því sambandi leyfi ég mér að vekja athygli á upplýsingum sem koma fram í ársskýrslu Sumargjafar sem hefur rekið dagheimili og leikskóla í Reykjavík, — ársskýrslu sem er yfir árið 1975, — en þar koma m.a. fram þær upplýsingar að í framhaldi af þeim reglum, sem settar voru skv. lögunum 1973 og komu til framkvæmda á árunum 1975 og 1976, hefur börnum fækkað á dagheimilum og leikskólum í Reykjavík. Þessi fækkun nemur um 100 börnum á viðkomandi skólum og heimilum, og ég tel að það sé ákaflega vafasamt að á sama tíma sem þörfin fyrir dagvistunarheimili eykst dag frá degi og biðlistar vaxa jafnt og þétt um pláss á þessum heimilum, þá skuli settar slíkar reglur að það dragi úr möguleikum þessarar stofnunar til þess að taka við börnum.

Ég hefði því talið eðlilegt að um leið og gerðar eru breytingar á þessum lögum nú, þá hefðu þessi ákvæði, sem hér um ræðir, verið endurskoðuð og reglurnar rýmkaðar svo að það húsnæði og þær stofnanir, sem fyrir hendi eru í dag, gætu áfram tekið a.m.k. jafnmörg börn og þau gerðu fyrir breytinguna, þannig að að því leyti væri ekki dregið úr þeim fjölda sem þessar stofnanir geta tekið á móti.

Ég fer ekki nánar út í þetta, virðulegi forseti, þó full ástæða væri til þess að gefa hér margvíslegar upplýsingar sem fram koma í fróðlegri skýrslu Sumargjafar um ástandið í þessum málum. Þar kemur í ljós að biðlistar lengjast dag frá degi og biðin getur verið alllöng hjá fólki sem þarf augljóslega mjög á því að halda að koma börnum sínum fyrir um stundarsakir á slíkum dagheimilum og leikskólum. Það er því að minn mati ákaflega óæskilegt að löggjöfin beinlínis stuðli að frekari erfiðleikum með því að setja svo stífar reglur sem hér um ræðir.