15.12.1976
Neðri deild: 23. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í B-deild Alþingistíðinda. (885)

31. mál, dagvistarheimili fyrir börn

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð. — Ég vil fyrst segja það almennt, að ég er þeirrar skoðunar að það sé skynsamlegast að sveitarfélög hafi það alfarið í sínum höndum að taka ákvarðanir um hvaða dagvistunarstofnanir og leikskóla skuli reisa og hvenær og þá með tilliti til þeirra þarfa sem fyrir hendi eru hverju sinni í viðkomandi sveitarfélagi. Þau eru best til þess fallin að taka þær ákvarðanir. Ég er því eindregið fylgjandi þeirri stefnu að þessi verkefni séu færð yfir á sveitarfélögin og jafnframt standi þau skil á stofn- og rekstrarkostnaði að mestu eða öllu leyti. Það er hins vegar verkefni okkar að veita sveitarfélögunum tekjur til að standa undir þessum kostnaði. Má vera að það spor hafi ekki verið stigið nægilega rösklega enn, en að því er stefnt og að því er unnið að svo megi verða.

Hv. þm. Svava Jakobsdóttir spurðist fyrir um það, hvort ég væri hlynntur því að aftur yrði farið til sama fyrirkomulags og var áður. Ég rakti það hér áðan, að það væri mín skoðun, og skal staðfesta það enn hér. Hins vegar er það hennar fullyrðing, en ekki mín, að halda því fram að þessir staðir hafi verið geymslustaðir. Til þess að útskýra þetta aðeins nánar, hversu fjarstæðukennt er að halda því fram að heimilin hér í Reykjavík hafi verið geymslustaðir, skal ég aðeins nefna hér nokkrar staðreyndir, nokkrar tölur í því sambandi.

Með breytingum, sem urðu samkv. lögunum frá 1973, fækkaði rýmum á dagheimilum í Reykjavík sem hér segir: Í Bakkaborg var fækkað um 3 börn, í Efrihlíð var fækkað um 2 börn, í Hagaborg um 7 börn, í Hamraborg um 4 börn, í Laufásborg um 10 börn, í Laugaborg um 3 börn, í Selásborg um 1 barn, í Steinahlíð um 2 börn, í Sunnuborg um 3 börn. Ég held að það geti varla talist neinn geymslustaður enda þótt fjölgað yrði aftur börnum á þessum heimilum sem þessum tölum nemur. Ég held hins vegar að þær reglur, sem hafa verið samþ. og farið eftir, hafi verið allt of stífar og það hafi verið óskynsamlegt að gera Sumargjöf og þessum heimilum skylt að fækka börnum um 1 og 2 börn, eins og hér segir. Og þó að aftur yrði breytt í gamla horfið, þá yrði ekki um neina geymslustaði að ræða og myndi ekki ráða neinum úrslitum um rekstur þessara ákveðnu staða.

Ég vil svo að lokum aðeins segja frá því. að í Svíþjóð, sem menn hafa nú gjarnan til fyrirmyndar og sjálfsagt er komin einna lengst í þessari félagslegu samhjálp, eru settar reglur, eins og vitaskuld þurfa að vera. En svíarnir veita 10–15% frávik og fara að þessu marki upp fyrir staðla sem settir eru um rými á dagheimilum og leikskólum. Og ég held að við íslendingar séum ekkert of góðir til þess að gera það líka, ekki síst með tilliti til þess ástands sem ríkir í þessum málum. Það á sér margar orsakir og að sjálfsögðu ekki hægt að segja að það sé sök víðkomandi ríkisstj. hvernig ástandið er.