15.12.1976
Neðri deild: 23. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1274 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

31. mál, dagvistarheimili fyrir börn

Svava Jakobsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég skal ekki tefja þennan fund miklu lengur. Það eru örfá atriði sem mig langar að víkja að.

Mig langar að leiðrétta hér eitt atriði, sem hv. þm. Gunnlaugur Finnsson kom inn á, eða rétt aðeins að skýra mitt mál, vegna þess að ég hef lent í því einu sinni áður að það var vefengt sem ég sagði einmitt um þetta atriði. Ég hafði ekki allt skrifað áðan, en ég lét þau orð falla að stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga hefði ekki samþykkt frv. um verkefnaskiptinganna í þeirri mynd sem hún lá fyrir. Það held ég að hafi svo oft komið fram á þingi að verði ekki vefengt. Það var líka viðurkennt að tekjustofnar voru ekki nægilegir. Sveitarfélögunum voru reiknaðar 120 millj. til dagvistarmála án þess þó að nokkur trygging fengist fyrir því að þær rynnu til þess málaflokks. Úr því er að sjálfsögðu bætt með þessu frv. sem hér liggur fyrir, og síst ætla ég að vanþakka það.

Í öðru lagi vildi ég benda hv. þm. Ellert B. Schram á það, að þegar rætt er um byggingar eða innri gerð dagvistarheimila, þá vil ég gera mikinn greinarmun á því rými, sem ætlað er börnum, og á byggingunni að öðru leyti. Ég held að það sé ekki rétt að fjölga börnum umfram það sem færustu sérfræðingar og reynt starfsfólk telur eðlilegt með tilliti til heilsu bæði barnanna og starfsfólksins. Hinu er ég fyllilega samþykk, að það verði reynt að finna leiðir til þess að gera byggingarnar ódýrari. Það held ég væri miklu réttari leið heldur en að hverfa aftur til þess tíma er of mörg börn voru á hverju heimili. Og ég held eða ég man ekki til þess að ég hafi nú viðhaft þau orð um þau barnaheimill Sumargjafar, sem hér eru í Reykjavík, að þau hafi verið geymslustaðir. En þau verða það náttúrlega ef á að fara að reyna að fækka á biðlistunum með því að troða inn í þau fleiri börnum en fyrir eru. En á hitt vil ég leggja áherslu og um það er mér mjög vel kunnugt, að ástandið að þessu leyti var víða úti á landi miklu, miklu verra og tæpast viðunandi.