15.12.1976
Sameinað þing: 33. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (889)

112. mál, landhelgismál

Flm. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. — Till. sú til ályktunar Alþingis, sem hér liggur fyrir til umr., er stutt og skýr. Hún er þannig:

„Vegna þeirrar vitneskju, sem fyrir liggur um veika stöðu helstu fiskstofna við landið, lýsir Alþingi yfir því, að nýir samningar um veiðiheimildir útlendinga í fiskveiðilandhelgi Íslands komi ekki til greina.“

Flm. till. eru þrír. Ég fyrir hönd Alþb., Benedikt Gröndal fyrir hönd Alþfl. og Karvel Pálmason fyrir hönd SF.

Ástæður til þess, að till. er flutt, eru fyrst og fremst þær, að ríkisstj. stendur í samningasnakki við Efnahagsbandalag Evrópu um svonefndar gagnkvæmar fiskveiðiheimildir. Til þess að skýra mál þetta betur verður ekki hjá því komist að rekja með nokkrum dæmum það sem opinberlega hefur komið fram um þessi samningamál að undanförnu.

Í stefnuræðu forsrh., sem flutt var í upphafi þings í haust, vék hann að samningaviðræðum við Efnahagsbandalagið um gagnkvæm fiskveiðiréttindi og lagði áherslu á að í þeim efnum mættu ekki skammtímasjónarmið ráða afstöðu okkar, heldar langtímahagsmunir. Þessi ummæli forsrh. voru ekki fullkomlega skýr. Þó virtist ekki um að villast að hann stefndi að samningum við Efnahagsbandalagið um gagnkvæm veiðiréttindi til langs tíma, þ.e.a.s. að við veittum þjóðum Efnahagsbandalagsins heimild til veiða í okkar landi? eigi gegn því að okkar skip fengju að veiða í landhelgi þeirra.

Mál þetta átti eftir að skýrast. 15. okt. birti Morgunblaðið viðtal við Matthías Bjarnason sjútvrh. í tilefni af ársafmæli útfærslunnar í 200 mílur. Í því viðtali segir Matthías orðrétt:

„Enn fremur vil ég benda á að það er mikil nauðsyn fyrir okkur að halda opnum samningaleiðum. Við þurfum og getum þurft í ríkum mæli að leita á fiskimið annarra þjóða.“ Og enn er haft orðrétt eftir Matthíasi: „Ef Efnahagsbandalagið býður okkur gagnkvæm fiskveiðiréttindi í íslenskri fiskveiðilögsögu eigum við að mínum dómi að skoða það og í því ljósi hvað er hagkvæmast fyrir okkur.“

Ég bið menn að taka vel eftir þessum orðréttu tilvitnunum í hátíðarviðtali Morgunblaðsins við sjútvrh. 15. okt. Þar segir hann að við þurfum í ríkum mæli að leita á fiskimið annarra þjóða og því þurfum við að halda samningaleiðum opnum. Og hann segir að ef Efnahagsbandalagið bjóði okkur gagnkvæm fiskveiðiréttindi í íslenskri fiskveiðilögsögu, þá eigum við að skoða það. Orðalagið er að vísu furðulegt um að Efnahagsbandalagið bjóði okkur gagnkvæman rétt í okkar lögsögn. En meining ráðh. fer þó ekki á milli mála.

Morgunblaðið varð auðvitað hrifið af þessum afdráttarlausu yfirlýsingum Matthíasar um samninga við Efnahagsbandalagið, enda birti það daginn eftir í leiðara þessar sömu tilvitnanir úr viðtali Matthíasar sem ég hef hér dregið fram.

Síðan þessar yfirlýsingar forsrh. og sjútvrh. komu fram um samninga, sem byggðir væru á gagnkvæmum fiskveiðiréttindum, hafa fyrirætlanir í þessa sömu átt margsinnis verið endurteknar á Alþ. og í blöðum af hálfu ríkisstj„ og síðan hafa formlegar viðræður við fulltrúa Efnahagsbandalagsins hafist um hugsanlega samninga á þessum grundvelli. Á Alþ. höfum við fulltrúar stjórnarandstöðunnar krafið ríkisstj. um svör við því, hvað hún meini með þessum gagnkvæmu fiskveiðiréttindum og að hvaða marki hún stefni í raun og veru. Við höfum spurt: Getur það verið að ríkisstj. telji mögulegt að semja um nýjar veiðiheimildir útlendinga í okkar landhelgi þrátt fyrir þær upplýsingar sem fyrir liggja um ástand helstu fiskstofna hér við land? Við höfum líka spurt og spyrjum enn: Dettur ríkisstj. í hug að heimila breskum togurum veiðar á þorski og ýsu hér við land gegn því að íslensk skip fái að veiða síld í Norðursjó? Veit ríkisstj. ekki hvernig komið er síldarstofninum í norðursjó? Hefur hún gleymt því að fulltrúar Íslands hafa nýlega lagt til á fundi Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar í London að öll síldveiði í Norðursjó verði stöðvuð vegna ofveiði? Ætlar ríkisstj. að gera þann tillöguflutning hlægilega með því að kaupa okkur rétt til síldveiða í Norðursjó með því að senda í staðinn breska togara á ofveiddan íslenskan þorskstofn? Þvílík þversögn og fjarstæða!

Við höfum líka spurt ríkisstj. hvað fyrir henni vaki með viðræðum við Efnahagsbandalagið um fiskimiðin við Austur-Grænland. Þar eru nú því sem næst dauð fiskimið. Er ríkisstj. að hugsa um að fórna okkar fiskimiðum í skiptum fyrir slík mið? Og við spyrjum: Getur það verið að ríkisstj Íslands sé á því siðferðisstigi að henni detti í hug að gera kaupskap við Efnahagsbandalag Evrópu um fiskimið grænlendinga? Það yrði okkur íslendingum til ævarandi skammar ef við semdum um fjárhagsleg hlunnindi handa ríkustu þjóðum heims á kostnað einnar þeirrar fátækustu. Um fiskimiðin við Grænland eigum við íslendingar aldrei að semja við neina nema grænlendinga.

Spurningum okkar um þessi samningamál hefur ríkisstj. litla svarað. Viðbrögð hennar, þegar málið hefur verið rætt, hafa verið svipuð og þess manns sem veit upp á sig skömm. Hún hefur farið undan í flæmingi og svarað út í hött. Hún afsakar viðræður sínar við fulltrúa Efnahagsbandalagsins með því að hún vilji sýna kurteisi og tala við menn, og hún telur óviðeigandi að mæta til funda með mótaða og yfirlýsta stefnu, en rétt sé að hlýða á mál manna og gera upp stefnuna síðar.

En hvað er það sem verið hefur að gerast á fundum ríkisstj. og Efnahagsbandalagsins um þessi mál? Tveir formlegir viðræðufundir hafa verið haldnir í Reykjavík, annar 12. og 13. nóv. og þinn 25. og 26. nóv. Um þessa fundi vill ríkisstj. sem minnst ræða. Hún segir að nánast hafi ekkert gerst á þessum fundum, hér hafi aðeins verið um könnunarviðræður að ræða. ekkert tilboð hafi komið fram og hún hafi því engu lofað. en skipst hafi verið á skoðunum.

Viðræðufundir þessir hafa sannarlega ekki borið á sér nein einkenni minni háttar áþreifinga eða könnunar. Einn af ráðh. hins mikla Efnahagsbandalags hefur komið hingað í einkaflugvél og haft með sér ráðunauta, og af Íslands hálfu hafa tekið þátt í viðræðunum tveir ráðh. og auk þeirra tveir alþm. og 8 embættismenn, eða 12 manna hópur. Auk þess hefur svo forsrh. sjálfur einnig rætt við hinn danska Efnahagsbandalagsráðh.

Að loknum síðari viðræðufundinum var gefin út sameiginleg yfirlýsing aðila þar sem m.a. segir að á viðræðufundi, sem verði haldinn fyrir jól, sé stefnt að samkomulagi til langs tíma um fiskverndar- og fiskstjórnunarmál, en jafnframt verði fjallað um gagnkvæm fiskveiðiréttindi. Ljóst er af þessari yfirlýsingu að viðræðuaðilar telja sig geta náð samkomulagi um fiskverndarmál og stjórn á fiskveiðum. Slík yfirlýsing er að vísu furðuleg þegar þess er gætt, að enginn fiskifræðingur tók þátt í viðræðunum, og þegar það einnig er haft í huga, að það er Alþingi íslendinga eitt sem getur sett reglur um stjórnun fiskveiða innan íslenskrar fiskveiðilögsögu.

En jafnhliða hinni sameiginlegu yfirlýsingu, sem aðilar gáfu, birti svo sendimaður Efnahagsbandalagsins aðra yfirlýsingu þar sem hann lagði áherslu á að hann hefði fulla trú á að á næsta samningafundi, sem haldinn yrði fyrir jól, mundi nást samkomulag „sem hindraði skyndilegan samdrátt fiskveiða hvors aðilans um sig á fiskimiðum hins,“ eins og orðrétt var haft eftir þessum sendimanni. Með þessari yfirlýsingu lýsti Finn Olav Gundelach, ráðh. Efnahagsbandalagsins, yfir því, að hann teldi að samningar tækjust fyrir jól um veiðirétt breta í íslenskri fiskveiðilandhelgi. Yfirlýsing hans verður ekki misskilin Og undir lestri þessarar yfirlýsingar sátu þeir Matthías Bjarnason sjútvrh. og Einar Ágústsson utanrrh. og gerðu enga aths. Þegar Gundelach síðan kom til Bretlands endurtók hann þetta og undirstrikaði enn á ný bjartsýni sína um lausn á vandamálum breta.

Síðan hafa margar fullyrðingar borist erlendis frá um væntanlega samninga við íslendinga. Ýmist bera fréttastofur aðila í Brüssel fyrir upplýsingunum eða sjálfan Gundelach. Íslensk stjórnvöld eru hins vegar sneypuleg og vilja sem minnst um málið tala.

Hér skiptir ekki neinu meginmáli, hvort einstakar fréttir, sem erlendar heimsþekktar fréttastofur eins og Reuter hafa eftir Gundelach, eru nákvæmlega réttar eða ekki. Það, sem máli skiptir, er að þessi Gundelaeh hefur hér á landi í áheyrn íslenskra ráðh lýst yfir að hann trúi því að samningar takist í þessum mánuði um veiðiheimildir breta í okkar landhelgi.

Þó að reynt hafi verið að halda leyndu því sem fram hefur farið á viðræðufundunum með Finn Olav Gundelach, þá liggja fyrir mikilvægar staðreyndir sem hægt er að sanna með fundargerðum frá viðræðufundunum. Ljóst er að á fundunum hefur verið rætt um í fyrsta lagi samning til langs tíma, í öðru lagi um rammasamning sem fylla mætti út í með tölum um fjölda skipa og aflamagn síðar, í þriðja lagi um veiðirétt íslendinga við Grænland og í Norðursjó og í fjórða lagi um veiðirétt erlendra skipa eða skipa frá Efnahagsbandalagslöndum í íslenskri fiskveiðilandhelgi. Samningamaður Efnahagsbandalagsins sagði berum orðum að hér væri um tilboð að ræða af hans hálfu, en þó án þess að nefna fjölda skipa og án þess að nefna fiskmagn. Hann sagði líka berum orðum í þessum viðræðum að „setja yrði ramma og gefa til kynna fyrirætlanir svo að ekki komi til upplausnar eftir 1. jan.“ Hvað átti Gundelach við með því að tala um að komið gæti til upplausnar 1. jan.? Var hann að ræða um veiðistöðvun breskra togara í aðeins einn mánuð, eins og breski utanrrh. Crosland hefur gert, þar sem hann sagði að stöðvun veiðanna við Ísland í einn mánuð væri að vísu slæm fyrir breska togaraútgerð, en þó betri en nýtt þorskastríð.

Kjarni þessa máls, sem hér er rætt um, er þessi: Fyrir liggur að Efnahagsbandalagið sækir á okkur um undanþágur til veiða í íslenskri landhelgi fyrir breska togara. Að þessu sinni liggur leið breta til veiða á okkar mið í gegnum Efnahagsbandalagið og í gegnum svonefnda gagnkvæmissamninga. Nú sækja bretar á og íslenska ríkisstj. veit varla hvað hún á að gera. Hún er hikandi, hún er hrædd, hún leitar fyrir sér og reynir alls konar undanbrögð.

Landsmönnum er ekki sagður nema hálfur sannleikurinn af því sem fram hefur farið. Reynt er að vefja málið í fjas um fiskverndarsamninga og um stjórn á veiðum, þó að allir viti að Efnahagsbandalagið geti hvorki samið við okkur né aðra um slík mál þar sem það hefur ekki sjálft gert upp stefnu sína í fiskveiðimálum. Allt tal um gagnkvæm fiskveiðiréttindi, eins og nú er ástatt, er á sama hátt fjas og fjarstæða.

Ástand fiskstofuanna við Ísland er þannig að um ekkert er að semja við aðra. Fiskifræðingar leggja til að ekki verði veitt meira af þorski á næsta ári en 275 þús. tonn. Það er jafnmikið og við íslendingar veiðum sjálfir í ár. Við höfum ekki heldur eftir neinu að slægjast í Norðursjó, eins og sakir standa, og Norðursjávarskipum okkar munum við beita til loðnuveiða á þeim tíma sem veiðin þar fer fyrst og fremst fram. Og miðin við Austur-Grænland gefa ekkert. Þetta vita allir íslenskir sjómenn og þetta verður íslenska ríkisstj. einnig að gera sér ljóst.

Því miður virðist ríkisstj ekki skilja alvöru þessa máls til fullnustu. Margt bendir til að hún sé komin lengra í makkinn við Efnahagsbandalagið en flestir hafa þó viljað trúa. Það síðasta, sem til þess bendir, er sú staðreynd að í nýlega fram lagðri spá Þjóðhagsstofnunar um áætlaðar fiskveiðar íslendinga á næsta ári gerir hún ráð fyrir aðeins 250 þús. tonna þorskafla, og er þá augljóst að hún reiknar með að einhverjir aðrir en íslendingar veiði a.m.k. 25 Þús. tonn af þorski, því að fiskifræðingar hafa talið óhætt að veiða 275 þús. tonn. Engin skýring getur verið til á þessari áætlun önnur en sú, að reiknað sé með veiðum breta sem nemur minnst 25 þús. tonnum af þorski. Hætturnar á nýjum undansláttarsamningum eru því vissulega miklar.

Þegar rætt er um það alvarlega mál, hvort nú eigi að semja um nýjar veiðiheimildir útlendinga eða neita öllum slíkum beiðnum, þá grípa einstakir ráðh. gjarnan til þess ráðs að hefja umr. um allt aðra þætti landhelgismálsins en um er verið að ræða. Nú er t.d. uppáhaldsumræðunefni þeirra að tala um sigursamningana frá Osló á s.l. sumri og um sigur þeirra í baráttunni fyrir 200 mílum. Umr. af þessu tagi sýna aðeins veikan málstað.

Samningarnir í Osló voru engir sigursamningar. Þeir veittu bretum leyfi til veiða hér við land í 6 mánuði, og það sem þó var enn þá verra, þeir fólu í sér framlengingu í 11/2 ár á samningunum við vestur-þjóðverja. Þar var um 90 þús. tonna fiskafla að ræða. Samningurinn við vestur-þjóðverja var að réttu fallinn úr gildi vegna vanefnda af þeirra hálfu. Samningarnir í Osló s.l. sumar voru bretum nauðsynlegir, eins og þeir hafa líka opinberlega viðurkennt. Bretar höfðu þá lýst yfir fylgi við 200 mílna stefnuna og börðust orðið harðri baráttu í Efnahagsbandalaginu fyrir útfærslu í 200 mílur. Þeir gátu því ekki haldið stríðinu við okkur áfram, eins og komið var.

Og hver er svo sigurinn sem felst í samningunum frá Osló? Bretar fóru út úr landhelgi okkar 1. des., en einum mánuði síðar eða 1. jan. gengur í gildi 200 mílna landhelgi Efnahagsbandalagsríkjanna og þar með einnig breta. Hefði enginn samningur verið gerður í Osló hefðu breskir togarar því í síðasta lagi farið út fyrir 200 mílna mörkin 1. jan. í stað 1. des. En líklegra er þó að þeir hefðu gefist upp miklu fyrr.

Nú, þegar á okkur er sótt um nýjar veiðiheimildir, skulum við minnast þess, að enginn árangur hefur náðst í margra ára landhelgisbaráttu okkar nema með stefnufestu og einarðri framkomu og aldrei án þess að við værum reiðubúnir til þess að leggja nokkuð á okkur.

Það kostaði t.d. fall ríkisstj. og myndun vinstri stjórnar árið 1958 að fá það fram að lofað væri að færa fiskveiðimörkin út í 12 mílur. Og þá tók það nærri tvö ár að knýja það fram í þeirri stjórn að staðið yrði við loforðið um útfærsluna. Þá var mér hótað brottrekstri úr ríkisstj. vegna þess að ég hótaði að birta reglugerðina um 12 mílur án formlegs samþykkis allrar ríkisstj. ef með þyrfti.

Það kostaði líka fall viðreisnarstjórnarinnar árið 1971 og myndun nýrrar vinstri stjórnar að knýja það fram að landhelgin yrði stækkuð í 50 mílur. Eftir þá stækkun náði landhelgin yfir 97% allra fiskimiða við landið.

Þegar baráttan nm 50 mílurnar stóð sem hæst lögðu forustumenn Sjálfstfl til að skjóta málinu undir úrskurð Alþjóðadómstólsins, sem þó hafði dæmt bretum og þjóðversum rétt til veiða hér við land. Þá tilkynnti Morgunblaðið líka í leiðara að deilan um 50 mílurnar væri töpuð og best væri að undirbúa málið á nýjan leik.

Lög um heimild til útfærslunnar í 200 mílur voru sett af vinstri stjórninni. en ekki núv. ríkisstj. Og í hennar tíð var 200 mílna stefnan mörkuð af Íslands hálfu á erlendum vettvangi. Um 200 mílurnar hefur því aldrei staðið nein deila á milli flokka hér á landi. En viðurkenningin á þeim fylgdi í kjölfar alþjóðlegrar þróunar í hafréttarmálum.

Það, sem nú skiptir máli. er að við látum ekki veikgeðja ríkisstj. og ósjálfstæða semja af okkur neinn rétt Bresku togararnir eru farnir út úr okkar landhelti og þeir mega ekki sleppa inn í hana aftur eftir neinum krókaleiðum eða undir neinum fölskum forsendum. Það er nógu slæmt að þurfa að sitja uppi með þýska togara í nærri heilt ár enn vegna þeirra glapræðissamninga sem gerðir voru við vestur-þjóðverja, þó að ekki bætist við þá breskir togarar eða skip annarra Efnahagsbandalagsríkja.

Við, sem flytjum þessa ályktunartill., leggjum áherslu á að hún hljóti fullnaðarafgreiðslu fyrir jólaleyfi. Það á að liggja fyrir svart á hvítu hver er afstaða einstakra þm. til þessa máls. Það væri óþingræðislegt og ólýðræðislegt ef ríkisstj. beitti sér gegn því að atkv. yrðu greidd um till fyrir jól. Það er von mín að meiri hluti þm. samþykki till. og taki þannig af allan vafa í þessu alvarlega máli, en láti ekki ríkisstj. heygja sig til undanhalds fyrir kröfum Efnahagsbandalagsins.