19.10.1976
Sameinað þing: 6. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

240. mál, hafnarmál Suðurlands

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af fsp. á þskj. 17, sem hv. 1. þm. Suðurl. var að gera hér grein fyrir, vil ég skýra hér frá gögnum þeim sem mér hafa borist frá n. þeirri sem um þetta mál hefur fjallað, en í henni eru Björn Fr. Björnsson sýslumaður, Vernharður Steingrímsson oddviti, Guðmundur Gunnarsson verkfræðingur, Ingimar Ingimarsson prestur, Jón Sigurðsson hafnsögumaður í Vestmannaeyjum, og starfsmaður n. hefur verið skrifstofustjórinn í samgrn., Ólafur Steinar Valdimarsson. Skýrsla n. er svo hljóðandi:

N. hefur komist að þeirri niðurstöðu að leggja þurfi í umtalsverðan kostnað til þess að unnt sé að skila raunhæfu áliti um verkefni það sem henni er falið á hendur. Ýmiss konar forathuganir og hagkvæmnisrannsóknir eru m.a. nauðsynlegur undanfari frekari aðgerða af hálfu n. N. er sammála um að athuganir eigi að beinast að tveimur stöðum: Víkur- og Dyrhólasvæðinu svo og Þykkvabæjarsvæðinu.

Gera þarf grein fyrir því hvernig hagkvæmast megi leysa hafnamálin á vesturhluta suðurstrandarinnar. N. er sammála um eftirfarandi áætlun um verktilhögun:

Gerður verði samanburður á þeim tveim stöðum sem áður er getið, þ.e. Víkur- og Dyrhólasvæðinu og Þykkvabænum. Sams konar rannsóknir er nauðsynlegt að liggi fyrir á þessum stöðum til þess að bægt sé að gera sér fyllilega grein fyrir því hvor valkosturinn er betri.

Þess má geta, að nokkrar athugasemdir og álitsgerðir eru fyrir hendi að því er varðar Dyrhólasvæðið, en engar eða nánast það hvað viðvíkur

Víkur- og Þykkvabæjarsvæðinu. Í grg. fyrir till. til þál. um rannsókn á gerð nýrrar hafnar á suðurströndinni, þ.e. þál. 1973, 179. mál, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í Þykkvabæ og við Þjórsárós hafa verið gerðar athuganir á hafnarstæði. Sérstaklega var vandað til athugana á hafnarstæði við Þykkvabæ. Var það á vegum varnarliðsins árið 1952 þegar stjórn Bandaríkjanna virtist hafa áhuga á því að gera flugvöll á Rangárvöllum og höfn í Þykkvabæ. Rannsóknir bandaríkjamanna á hafnarstæði við Þykkvabæ voru ítarlegar. Uppdráttur var gerður af höfninni og nauðsynlegum hafnarmannvirkjum ásamt kostnaðaráætlun. Verkfræðingarnir, sem unnu verkið, höfðu orð á því að hafnarstæðið við Þykkvabæ væri gott og aðstaða til hafnargerðar í betra lagi.“

Eigi hefur tekist að afla neinna upplýsinga um þessar rannsóknir. Enn verður að reyna á það til fulls hvort þeirra er unnt að afla. Ef það tækist og fyrir lægju niðurstöður þeirra athugana ætti það að verða til verulegs flýtisauka og enn fremur draga mjög úr kostnaði.

Þegar lokið er athugun þarf að hefjast handa um hagkvæmnisathuganir fyrir þann valkostinn sem álitlegri er talinn.

Samhliða er rétt að fram fari athugun á lausn hafnarmála á vesturhluta suðurstrandarinnar, svo og í Vestmannaeyjum.

Þegar framangreindum athugunum lýkur er því næst hægt að taka fyrir síðasta lið athugananna, þ.e. könnun á áhrifum nýrrar hafnar og bættrar hafnaraðstöðu á suðurströndinni að því er snertir byggðarkjarna sem fyrir eru, þróun byggðarmála á Suðurlandi og landinu í heild.

Lausleg kostnaðaráætlun vegna ofannefndra athugana:

Samanburðarathugun á Víkur- og Dyrhólasvæðinu, áætlaður verktími 6–8 mánuðir og mannaflaþörf 20–24 mannmánuðir. Kostnaður er 6–7.5 millj. kr.

Hagkvæmnisathugun í endanlegum valkosti, áætlaður verktími 18–24 mánuðir, mannaflaþörf 110–130 mannmánuðir. Kostnaður 33–40 millj. kr.

Athugun á lausn hafnamála á vesturhluta suðurstrandarinnar og Vestmannaeyjum, áætlaður verktími er 4 mánuðir, mannaflaþörf 10–12 mannmánuðir og kostnaður 3–3.5 millj.

Áhrif nýrrar hafnar o.s.frv. á þróun mála, áætlaður verktími 6–8 mánuðir, mannaflaþörf 15–18 mánuðir og kostnaður 4.5–5.5 millj.

Samtals er því gert ráð fyrir samkv. lauslegri áætlun að kostnaður við athugun verði 45.5–56.5 millj. Ekki er innifalinn í ofannefndum tölum kostnaður við boranir né öldumælingar, þar sem ekki liggur fyrir hve miklar athuganir hafa farið fram á því sviði. Miðað við að ekkert hafi verið gert af þessum athugunum má ætla að kostnaður verði sem næst 30–35 millj. við þær athuganir.

Áætlun þessi gerir ráð fyrir að verkinu ljúki á 30-40 mánuðum, en stytta mætti þennan tíma verulega ef fjármagn væri til staðar.

Niðurlagsorð n. eru þessi:

N. telur verkefni sitt verulega áhugavert í eðli sínu. Hins vegar er henni það þegar fullljóst, að kostnaður við nýja hafnargerð á suðurströndinni hlýtur að verða slíkur, að óraunhæft sé að gera ráð fyrir því að nýting hafnarinnar sem útvegs- og vöruflutningahafnar geti eins og horfir staðið undir fjármögnun þeirri sem nauðsynleg er vegna framkvæmdarinnar, og sérstaklega á þetta við ef byggingaráfangar yrðu mjög stórir.

Það er því líklegt að til þurfi að koma iðnaður sem þarfnast góðrar hafnaraðstöðu, og er þá fyrst og fremst hugsað til orkufreks iðnaðar sem mjög er um rætt og hafður á oddi, til þess að höfnin geti staðið undir fjármagnskostnaði. Ef slíkur iðnaður á að koma til álita við suðurströndina þarf að gera þá hagkvæmnisathugun sem getið hefur verið, þannig að stjórnvöld og væntanlega áhugasamir stóriðjuaðilar geti gert sér sem fyllsta grein fyrir þeim möguleikum sem aðstaðan hér býður upp á. Til þessa getur hæglega komið og þess vegna mætti þykja rétt að flýta athugunum þessum svo að valkostur um nýja hafnargerð og aðstöðu í sambandi við hana verði þá til staðar. Þetta eru meginatriðin að áliti n.

Rétt þykir að benda á að eigi væri það úr hendi, þegar staðarval hefði farið fram, að kannað væri um hug manna á svæðinu til hugsanlegrar stóriðju.

N. telur æskilegt að ákvörðunartaka um erindi þetta geti sem fyrst átt sér stað, svo að n. hafi tök á að hefja gagnasöfnun og síðan snúið sér að fyrsta þætti áætlunarinnar.

Um þetta vil ég svo segja það, að erindi þetta barst ekki fyrr en fjárlög fyrir þetta ár höfðu verið afgreidd. Hins vegar mun ég leita eftir fjármagni til áframhaldandi athugana á þessu máli, þó að það geti ekki orðið í eins stórum stíl og hér er gert ráð fyrir, enda mundi tíminn skammta það hve hratt ætti að fara í slíka athugun. En ég mun leita eftir því við fjvn. núna á þessu þingi að varið verði fé til áframhaldandi athugana á þessu máli og leita eftir því við nefndina að hún starfi áfram fáist fjárveiting, sem ég geri mér bestu vonir um.

Ég tel mig hér með hafa svarað þessari fsp. svo sem hún gaf tilefni til.