15.12.1976
Sameinað þing: 33. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í B-deild Alþingistíðinda. (891)

112. mál, landhelgismál

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. — Um till. þá, sem hér er til umr. og lýst hefur verið af 1. flm. hennar, Lúðvík Jósepssyni, í ræðu hans hér áðan, þarf í sjálfu sér ekki að fara mörgum orðum. Efni till. er ljóst, tilgangur hennar skýr og afdráttarlaus. Markmið hennar er að sú ákveðna stefna verði mótuð af Alþingi íslendinga að eins og nú er ástatt um helstu fiskstofna á Íslandsmiðum komi nýir samningar um veiðiheimildir fyrir útlendinga í fiskveiðilögsögu okkar alls ekki til mála. Flm. till. telja fyllilega tímabært og raunar algerlega óhjákvæmilegt að Alþ. marki slíka stefnu sem allra fyrst, m.a. vegna þess að nágrannar okkar og samkeppnisaðilar eru nú í hann veginn að setja sér stefnu í fiskveiðimálum. Efnahagsbandalag Evrópu leggur t.d. þunga áherslu á að ljúka slíkri stefnumótun af sinni hálfu fyrir jól, og við þær kringumstæður eiga þeir ekki að fara í neinar grafgötur með hver sé vilji okkar í fiskveiði- og landhelgismálum okkar sjálfra.

Við þurfum að taka okkar afdráttarlausu ákvarðanir a.m.k. ekki síðar en þeir. Öll óvissa, sem ríkja mun um þá afstöðu okkar verði látið hjá líða að taka hana, mun aðeins hafa í för með sér aukna erfiðleika og meiri áhættu fyrir okkur sjálfa. Að hika undir slíkum kringumstæðum getur verið hið sama og að tapa. Að tvístiga nú og slá úr og í, eins og hæstv. ríkisstj. gerir, verður án nokkurs vafa túlkað sem veikleikamerki, og engum getum þarf að leiða að því að erlendir viðmælendur okkar, svo sem eins og Efnahagsbandalagslöndin, munu þá beita öllum tiltækum ráðum til að reyna að knésetja okkur.

Staðan í landhelgismálinu og ástand fiskstofna hafa svo oft og svo mjög verið rædd að ástæðulaust ætti að vera að rökstyðja hvers vegna sú stefnumótun, sem felst í þáltill. þessari, er ekki aðeins nauðsynleg, heldur alveg óhjákvæmileg. Þær röksemdir þekkir hvert mannsbarn í landi voru, og allar nýjar upplýsingar, sem fram hafa komið, eru þessum röksemdum til enn frekari stuðnings. Þannig hefur Þjóðhagsstofnunin nú nýverið sent frá sér spá um afkomu þjóðarbúsins á árinu 1976 og áætlun um horfurnar á næsta ári. Á þessari áætlun er t.d. fjárlagagerð ríkisstj. reist, og þar er gengið út frá því að óráðlegt sé að miða útflutningsframleiðslu næsta árs við meiri þorskafla íslendinga en 240–260 þús. tonn. Þorskafli okkar á yfirstandandi ári er talinn nema 270–275 þús. tonnum, þannig að gert er ráð fyrir því að þorskafli okkar þurfi á næsta ári að dragast saman um 30 þús. tonn eða þar um bil. Er þá a.m.k. að því er best verður séð ekki gert ráð fyrir því að neinar nýjar veiðiheimildir verði veittar erlendum fiskiskipum. Á því, að við fáum einir að halda þessum takmarkaða þorskafla, byggja Alþ. og ríkisstj. fjárlagagerð sína fyrir næsta ár. Á því eru reistar vonir manna um að eitthvað taki að rofa til í efnahagsvanda þjóðarbúsins. Verði samið um nýjar veiðiheimildir, t.d. breskum togurum til handa, verður það ekki gert nema með því að rýra þann þorskafla sem sjálf ríkisstj. viðurkennir í forsendum fjárlagagerðar sinnar að framast sé óhætt að taka á næsta ári, og þar með eru vonir okkar um batnandi stöðu þjóðarbúsins foknar út í veður og vind.

Þetta vitum við öll, og það er þess vegna sem félagssamtök sjómanna, samtök útvegsmanna, heildarsamtök launþega, sveitarstjórnir viða um land og fjölmörg önnur stærri og smærri félög og starfshópar, sem sé flestar þær stofnanir og öll þau frjálsu félagasamtök sem mál þetta varðar, hafa lýst þeirri ákveðnu skoðun sinni að frekari samningar við útlendinga um veiðiheimildir í íslenskri fiskveiðilögsögu komi ekki til greina eins og sakir standa. Eftir stendur aðeins einn sem enga skoðun hefur enn tjáð í þessu máli, sjálft Alþingi íslendinga, sem á þó að standa í fylkingarbrjósti þjóðarinnar og þá ekki hvað síst í sjálfstæðisbaráttu eins og landhelgisbaráttan er. Alþ. hefur enn ekki gert upp hug sinn í þessu máli.

Þess er nú freistað með flutningi þessarar þáltill. að fá úr því skorið hver skoðun Alþ. sé. Verði till. samþykkt geta landsmenn varpað öndinni léttar, því að þá vita þeir hug forsjármanna þjóðarinnar. Fáist till. ekki afgreidd eða verði gerð tilraun til að fresta þeirri afgreiðslu, t.d. með því að vísa till. til n., þaðan sem hún eigi ekki afturkvæmt, þá hafa landsmenn séð sinn versta grun rætast, því að slík afgreiðsla er ígildi þess að ríkisstj. og þingmeirihl. hennar greiði atkv. gegn till., jafngildi yfirlýsingar um að ríkisstj. íslands vísi á bug viðvörunum fiskifræðinga, sjómanna og útvegsmanna, eins og hæstv. sjútvrh. hefur raunar þegar gert með dæmalausum ummælum sínum á opinberum vettvangi, og sé reiðubúin að íhuga frekari samninga við erlenda aðila um veiðar á Íslandsmiðum.

Það er alkunna að erfiðara getur verið að halda sigri og fylgja honum eftir en að vinna hann. Við íslendingar höfum nú unnið svo til fullan sigur í landhelgisbaráttu okkar. En samt sem áður megum við ekki slaka á aðgæslu og einbeitni því að við höfum enn ekki gætt þessa sigurs og enn ekki notfært okkur hann. Örlög okkar geta enn orðið þau hin sömu og greint er frá í Gamla testamentinu að æ ofan í æ hafi orðið hlutskipti hinnar fornu Ísraelsþjóðar, að á sjöunda deginum glataði hún öllu því sem unnist hafði hina sex.

Menn skyldu ætla að till. eins og sú, sem við stjórnarandstæðingar höfum flutt um landhelgismálið og er tilefni þessara útvarpsumr., ætti að vera með öllu þarflaus eins og málum er nú háttað, enda mun fáum hafa dottið það í hug í haust, um það leiti er þing kom saman, að þörf gæti orðið á slíkum tillöguflutningi. Sigurinn blasti þá við alger og endanlegur. En ýmislegt það hefur gerst að undanförnu í landhelgismálinu sem komið hefur okkur stjórnarandstæðingum og landsmönnum öllum í opna skjöldu, vakið með okkur ugg og ótta um að ríkisstj. íslands sé ekki að fullu treystandi, hún sé hikandi og ráðvillt í landhengismálinu og um endanlega afstöðu hennar til óska erlendra þjóða um frekari fiskveiðiheimildir geti brugðið til beggja vona.

Fregnir bárust í haust frá höfuðstöðvum Efnahagsbandalags Evrópu um að viðræður væru ráðgerðar við íslendinga um fiskveiðimál í nóvembermánuði. Hæstv. utanrrh. bar þessar fregnir til baka og sagðist ekkert við slíkt kannast. Hinar erlendu heimildir reyndust hins vegar réttar því að fundurinn var haldinn og viðræður eru hafnar. Ríkisstj. hefur lýst því yfir að aðeins hafi verið rætt um verndunarmál í þessum viðræðum. Fregnir erlendis frá, m.a. nú í kvöld, segja hins vegar aðra sögu og af þeim er a.m.k. Ljóst að meginerindi hinna erlendu fulltrúa við okkur er að semja um áframhaldandi fiskveiðar til langs tíma þótt þeir hafi nú þegar fengið heimildir til að veiða hér tvöfalt meira aflamagn en þeir telja sig geta boðið okkur í skiptum. En það, sem þó hefur vakið mestan óhug okkar, er sú furðulega yfirlýsing hæstv. sjútvrh., Matthíasar Bjarnasonar, að hann taki ekki allt of mikið mark á áliti fiskifræðinga um ástand fiskstofna við Ísland, en það álit hefur verið meginþungi röksemda okkar í landhelgisbaráttunni. Fyrir hvern er þessi dæmalausa yfirlýsing ávinningur í þeim viðræðum sem nú fara fram, viðmælendur okkar eða okkur sjálfa? Hvaða vopn gegn okkur geta samningamenn Efnahagsbandalagsins fengið beittara en orð sjálfs íslenska sjútvrh. um að vísindaleg niðurstaða íslenskra fiskifræðinga af athugunum þeirra á ástandi fiskstofna á íslandsmiðum sé ekki marktæk? Þegar svona er komið málum er ekki um annað að ræða en að knýja Alþ. til þess að marka sér ákveðna stefnu í landhelgismálinu, — stefnu þar sem skýrt og skorinort er kveðið á um að þótt við séum fúsir til þess að ræða við aðrar þjóðir um verndunarmál fiskstofna komi samningar um frekari veiðiheimildir á Íslandsmiðum ekki til greina, eins og nú standa sakir. Þessa stefnu verður að marka nú, áður en Alþ. fer í jólaleyfi, og tala ég þar af biturri reynslu því að við höfum þráfaldlega orðið fyrir því, þm., að tækifærið hefur verið notað í þinghléum til þess að gera samninga um veiðiheimildir við önnur ríki án þess að þm., hvort heldur stjórnar eða stjórnarandstöðu, hafi getað komið neinum vörnum við. Í ljósi þessarar reynslu vil ég mæla þau ákveðnu varnarorð, ekki síst til þeirra stjórnarþm., sem ég veit að eru andvígir samningum um frekari veiðiheimildir, að tefla ekki í þá tvísýnu að láta þessa till. vera óafgreidda þegar þeir halda heim í jólaleyfi, því að það getur gerst og hefur gerst að þegar þeir koma aftur standi þeir frammi fyrir gerðum hlut og neyðist til þess að gerast ábyrgir fyrir aðgerðum sem eru í andstöðu við samvisku þeirra og sannfæringu.

Alþ. hefur rætt stöðuna í þessu máli oft. Öll rök eru þegar komin fram. Frekari umr. og athuganir eru óþarfar. Alþingi er reiðubúið nú til þess að taka afstöðu til efnis þessarar þáltill., aðeins ef viljan vantar ekki. Formaður sænska Alþfl., stjórnmálaskörungurinn Olof Palme, sagði eitt sinn: „Pólitík, það er að vilja.“ Með þáltill. þessari reynum við að skapa Alþingi íslendinga vilja í máli sem ræður algerum úrslitum um alla framtíð þessarar þjóðar. Ef Alþ. afgreiðir ekki slíka till., þá er það vegna þess að þá skortir þessa stofnun þor. Þá flýr hún undan því að hafa skoðun, þá víkur hún sér undan því að hafa pólitíska forustu fyrir þjóðinni.

Sérhver íslenskur stjórnmálamaður. sem vill standa undir nafni, hlýtur að vera búinn að mynda sér skoðun á því hvað gera eigi í landhelgismálinu og á þess vegna að vera reiðubúinn til að afgreiða þáltill. þá, sem hér liggur frammi, án frekari umsvifa, greiða atkv. með henni eða móti. Í því máli geta menn ekki haft nema tvær gagnstæðar skoðanir, annaðhvort þá, sem felst í till., að semja ekki um frekari veiðiheimildir. eða menn eru á öndverðri skoðun. Báðar þessar skoðanir eiga vissulega rétt á sér því að í þeim báðum kemur fram ákveðinn vilji. Það eina. sem ekki á rétt á sér í þessu sambandi, er að hafa enga skoðun, er að hafa engan vilja, er að vilja í hvorugan fótinn stiga. Alþm., sem ekki er reiðubúinn nú til þess að tjá skoðun sína afdráttarlaust og lætur þá vöntun á pólitískum vilja, það skoðanaleysi koma fram í því að fresta afgreiðslu þessa máls, hann dæmir sjálfan sig til þess hlutskiptis sem hlýtur að vera hlutskipti skoðanalausra stjórnmálamanna, að enda sem verkfæri í annarra höndum. Þótt ég sé stjórnarandstæðingur, þá kýs ég ekki einu sinni hörðustu andstæðingum mínum slíkt hlutskipti. En það er ekki á mínu valdi hvert þeirra hlutskipti verður, heldur þeirra sjálfra með því hvaða afgreiðslu þeir ætla að hafa á till. þeirri sem hér hefur verið lögð fram.

Eins og staða landhelgismálsins er nú er vilji allt sem þarf. Eiga þm. þann vilja til? Eru þeir reiðubúnir til að skýra þjóð sinni og erlendum viðmælendum frá hver sá vilji er, eða vill Alþingi íslendinga taka þá áhættu að láta senda sig heim í jólafrí eins og viljalaust verkfæri, stefnu- og skoðanalaust í því máli sem nú er verið að tefja um við hörðustu andstæðinga okkar frá upphafi landhelgisbaráttunnar og til þessa dags? Úr því viljum við fá skorið og úr því verður skorið með þeim hætti hvernig meiri hl. Alþingis bregst við þeirri þáltill., sem hér er flutt, og óskum okkar um að hún verði afgreidd tafarlaust. — Góða nótt.