15.12.1976
Sameinað þing: 33. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1302 í B-deild Alþingistíðinda. (895)

112. mál, landhelgismál

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. — Það mátti heyra á orðum hæstv. sjútvrh. að hann hafði ekki lagt vinnu í að lesa þá till. sem hér er til umr., og vil ég því þrátt fyrir orð 1. flm. till. lesa till. yfir, en hún er þannig:

„Vegna þeirrar vitneskju, sem fyrir liggur um veika stöðu helstu fiskstofna við landið, lýsir Alþ. yfir því, að nýir samningar um veiðiheimildir útlendinga í fiskveiðilandhelgi Íslands komi ekki til greina.“

Þannig er till. Það segir ekki stafkrókur í till. að við viljum ekki tala við neina menn, og þess vegna var það algjör útúrsnúningur hjá hæstv. sjútvrh. og sýnir rökþrot af hans hálfu.

Það er athyglisvert að heyra það þegar þeir stjórnarliðar fara að tala um það innbyrðis hvaða þættir séu stærstir í landhelgismálinn og einn segir 50 mílur, síðasti ræðumaður 200 mílur, og svo fara menn að rekja söguna og hver að hæla sínu sem mest.

Þetta er óþarfi. Þetta er mál allrar þjóðarinnar og hefur verið það og verður það alltaf. Þess vegna er þessi till. nauðsynleg til þess að það komi fram að við höfum unnið fullnaðarsigur og ætlum að halda honum.

En hæstv. sjútvrh. hefur undanfarið átt erfitt og orðið að gefa yfirlýsingar um að hann tæki ekki tillit til eins eða neins, hvort sem það væri sett fram af vísindamönnum eða ákveðnum hópum, hann réði hér ráðum einn. Hefur jafnvel þessi rödd hans heyrst hér á hv. Alþingi.

En ég vil spyrja hvers vegna við þurfum að ræða stöðuna í landhelgismálinu nú eftir að við höfum komið bresku veiðiþjófunum, þessum gömlu óvinum okkar, út fyrir 200 mílurnar. Væri ekki miklu ánægjulegra að öll þjóðin stæði nú saman og fagnaði þessum sigri þar sem barátta hennar sem heildar hefur borið þann árangur að þessi erkióvinur okkar er nú horfinn af Íslandsmiðum? Hví kemur upp sú spurning, nokkrum dögum eftir að bretinn hefur hypjað sig burt, að við skulum þurfa að ræða hugsanlega samninga við breta eða Efnahagsbandalagið fyrir þeirra hönd um veiðar aftur að nýju innan 200 mílna markanna? Satt að segja hélt ég að slíkt mundi ekki hvarfla að nokkrum manni, hvar sem hann er staddur á landinu, í hvaða stjórnmálaflokki sem hann er og hvaða lífsskoðun sem hann hefur, að við léðum máls á því að einhver minnsti möguleiki væri á veiðum fyrir breta á næstu árum hér við land eftir að þessari löngu baráttu er lokið með algjörum sigri okkar. Sá sigur hefur unnist á undanförnum áratugum vegna traustrar og styrkrar samstöðu þjóðarinnar allrar þó að stundum hafi verið skoðanaskipti um málsmeðferð. Það hefur verið og er aðalsmerki okkar íslendinga að samstaðan hefur verið heilsteypt og órjúfandi að ná þessu marki og að hafa yfirráðin í okkar hendi. Hví í ósköpunum þarf að vera að ræða um hugsanlega innkomu breta nú nokkrum dögum eftir að þessu langþráða markmiði er náð, að koma þeim í burt? Ég hélt að það væri fyrir fullt og allt.

En þessar umr. hér í kvöld fara fram að gefnu tilefni. Þegar till. til þál. um staðfestingu á samkomulagi við ríkisstjórn Bretlands um takmarkaðar veiðar breskra togara samkvæmt þeim samningi, sem gerður var í Osló 1. júní s. l. var til umr. reyndust hæstv. ráðh., þeir er til máls tóku, ófáanlegir til þess að lýsa því yfir að samkomulag yrði ekki gert við breta að nýju. Talað var um að nauðsynlegt væri að hlýða á hvað Efnahagsbandalagið hefði að bjóða, og það hefur komið hér fram í kvöld, og við yrðum að bíða um nokkurn tíma meðan þeir mótuðu fiskveiðistefnu sína, — hún er ekki enn til, — þar sem hún væri ekki enn fullmótuð, en væri til meðferðar í Brüssel hjá embættisbákninu þar. Við yrðum að ljá máls á viðræðum við þessa háu herra og gætum ekki gefið út neinar yfirlýsingar af okkar hálfu um það að hér yrðu ekki fyrir hendi neinir möguleikar til fiskveiða fyrir breta né aðrar Efnahagsbandalagsþjóðir á næstu árum.

Þessi afstaða hæstv. ráðh, en þeir voru forsrh., sjútvrh. og utanrrh., kom mér og ég held flestöllum íslendingum á óvart. Við viljum fá það enn einu sinni fram, ef mögulegt er, hver er afstaða ríkisstj. í þessu máli. Það er ekki farið fram á meira. En við fáum ekki skýrari svör. Það virðist ekki vera hægt.

Hæstv. utanrrh. hefur sagt nú nýlega á fundi í Framsóknarfélagi Reykjavíkur að hann væri alls ekki trúaður á að gagnkvæmisréttarsamningar, eins og það er orðað, mundu nást. Og nú fyrir skömmu í sjónvarpsviðræðum sagði hann einnig —- eða hv. þm. Lúðvík Jósepsson sagði þessi orð í lok umr., með leyfi forseta: „Væri nú ekki gaman í lokin að fá skýlaus svör?“ Þá svaraði hæstv. utanrrh.: „Það er alveg guðvelkomið að endurtaka það í þriðja sinn í þessum þætti, að ég tel mjög ólíklegt að það sé þannig ástand fiskstofna bæði hjá okkur og Efnahagsbandalagi Evrópu að til gagnkvæmra fiskveiðihlunninda geti komið í náinni framtíð.“ „Ég tel mjög ólíklegt,“ — — því má ekki segja þetta berum orðum? Þá svarar Lúðvík Jósepsson: „Þetta er gott, Einar. Ég er viss um að ef við fengjum bara einn þátt enn mundum við segja algjört nei.“ — Nú stendur yfir þessi viðbótarþáttur í málinu, og nú viljum við fá nei og þjóðin vill fá skýr svör, að ekki sé möguleiki á neinum fiskveiðisamningum við Efnahagsbandalagið, hvorki við breta né aðrar þjóðir, í náinni framtíð.

Þessir hæstv. ráðh. verða að hlusta á fólkið í landinu. Það er út í hött þegar launþegasamtök, þegar samtök útvegsmanna, þegar Fiskiþing og fleiri aðilar gera ályktanir, allir í þá átt að alls ekki sé möguleiki á samningum um næstu framtíð, að hlusta ekki á þessa aðila. Ber mönnum ekki að íhuga þessar ályktanir sem hníga allar í sömu átt? Hvað um álit fiskifræðinga okkar? Trúa menn ekki því sem þeir segja? Hver getur vefengt niðurstöður þeirra hér á hv. Alþ.? Hver hefur það vald að hann geti sagt: Þetta er álit sem er ekki byggt á nægilegum rökum og ég tek sáralítið tillit til? Ég tel engan mann hafa vald né rétt til að tala þannig. Og eðli málsins samkv. er ekki unnt að taka þá áhættu, sem felst í ofveiði á þorski, meiri en þegar hefur átt sér stað. Það er svo mikið í húfi fyrir efnahagslíf íslendinga að ekki er leyfilegt fyrir nokkurn mann eða nokkra ríkisstj. að haga sókn okkar með þeim hætti að við eigum von á því eða á hættu að ganga um of á stofninn. Þá er hreinn voði fyrir dyrum. Allar aðvaranir fiskifræðinga okkar í þessu efni ber að taka alvarlega og hlusta gaumgæfilega á.

Þess vegna knýjum við á það í stjórnarandstöðunni að fá skýr svör um hugsanlega samninga. Þess vegna fara þessar umr. fram nú. Þjóðin biður eftir því að fá hrein svör, skýlausar yfirlýsingar í þessu efni, ekki neitt óákveðið orðalag. Það má tala við fulltrúa Efnahagsbandalagsins ef það er talið kurteisi og nauðsynlegt. En það á að tilkynna þeim í þessum viðræðum, sem fram undan eru, að við getum ekkert af hendi látið um óákveðinn tíma af fiskstofnum okkar og þá fyrst og fremst af þorski, ýsu, ufsa og einnig fleiri tegundum. Þetta á að liggja á hreinu frá okkar hálfu.

Það hefur komið fram að við þurfum að hlusta á fiskverndunarsjónarmið frá hendi Efnahagsbandalagsins, þar sem þær þjóðir eru orðnar nágrannar okkar nú og við kunnum að hafa hagsmuni af síldveiðum í Norðursjó, karfaveiðum við Grænland, hugsanlega rækju- og jafnvel loðnuveiðum. Þessi atriði eiga að vera það mikilvæg að það réttlæti viðræður við þessa háu herra. Ég hef talið og reyndar flestir að við þyrftum heldur að kenna þessum mönnum fiskverndunarsjónarmið og túlka fyrir þeim gildi þeirra en að við mundum sækja eitthvað til þeirra í því efni. Síldveiðar í Norðursjó verða á næstu árum sáralitlar, ef þá nokkrar, samkvæmt kröfum margra erlendra hagsmunaaðila í þessu efni. Karfaveiðar við Grænland eru því miður sama og engar og loðnuveiðar sáralitlar eða engar. Það er einnig forkastanlegt ef íslendingar ætla að fara að semja við Efnahagshandalagið um réttindi í landhelgi grænlendinga handa okkur. Hafa menn gleymt eigin sögu? Ég teldi það sérstakt hneyksli ef við færum að semja við fulltrúa Efnahagsbandalagsins um veiðirétt í lögsögu við Grænland. Slíkt má ekki henda nokkurn íslenskan aðila.

Í sjálfu sér á ekki að þurfa langar umr. um þetta mál, það liggur svo ljóst fyrir sem verða má. Það hníga öll rök að því, hvernig sem við lítum á málið, að við getum ekki boðið neinni þjóð fiskveiðiréttindi innan 200 mílna um óákveðinn tíma. Því er engin ástæða til funda um gagnkvæmisréttarsamninga. Við getum tilkynnt þetta á einarðlegan og kurteislegan hátt: Við erum til viðræðna um fiskverndunarsjónarmið ef þær hafa eitthvað fram að færa um þau mál í væntanlegri fiskveiðistefnu sinni, Efnahagsbandalagsþjóðirnar. Hingað til hefur ekkert verið til þeirra að sækja í þeim efnum. En við íslendingar höfum verið veitendur í þessu skyni.

Ég vil vekja sérstaka athygli á því nú í þessum landhelgisumr., að hver þjóðin af annarri tilkynnir nú ákvörðun hjá sér um útfærslu í 200 mílur. Japanar og rússar eru nú seinastir þjóða með yfirlýsingar um 200 mílurnar. En þeir hafa þumbast á móti 200 mílunum á Hafréttarráðstefnu undanfarin mörg ár. Þannig er það nú svo ljóst sem verða má að 200 mílna fiskveiðilögsaga er orðin að staðreynd mjög víða í heiminum. Sjálf Efnahagsbandalagslöndin taka nú 200 mílur innan skamms, eða 1. jan. n. k. Þessu til viðbótar vil ég minna á þá staðreynd, að enn stendur óhaggað í texta um fiskveiðar í plaggi því sem er á Hafréttarráðstefnunni, að strandríkið hafi fullan og óskoraðan rétt til að ákveða leyfilegt veiðimagn og gera allar tilheyrandi ráðstafanir um verndun fiskstofna á sínu umráðasvæði. Því liggur ljóst fyrir að við njótum fulls stuðnings við stefnu okkar í texta þeim er liggur fyrir Hafréttarráðstefnunni. Allur undansláttur nú með einhver gagnkvæmisréttarsjónarmið í huga er því fullkomlega óþarfur.

Herra forseti. Má ég í lokin minna á þá bjartsýni sem nú ríkir í röðum útvegsmanna, þar sem fjöldi aðila um allt land hefur nú hug á auknu átaki við endurnýjun togara og báta sem allra fyrst. Endurnýjun á veiðileyfum til einhverra þjóða, hvort sem það eru bretar eða aukin réttindi til annarra, kemur í veg fyrir að þetta átak eigi sér stað sem allra fyrst. Það er okkur lífsnauðsyn að hagnýta fiskstofna okkar sem allra best og að eðlileg og skipulögð endurnýjun flotans eigi sér stað Við flytjum þessa till. til þess að fá það fram, hver vilji Alþ. er í þessu efni, og fá það hreint fram sagt, eins og ég drap á hér áður, í áheyrn alþjóðar að viljayfirlýsing liggi fyrir um það að ekki verði samið við neinar þjóðir um aukin fiskveiðiréttindi um óákveðinn tíma. — Þökk þeim er hlýddu. Góða nótt.