16.12.1976
Efri deild: 23. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í B-deild Alþingistíðinda. (902)

11. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er komið frá Nd. þar sem það fékk allvandlega umfjöllun. Hið sama verður ekki sagt um umfjöllun Ed. á þessu frv., því að það virðist ætla að renna hér í gegn án nokkurra umr. svo heitið geti og án þess að það fái neina raunverulega skoðun í n., að því er mér sýndist á þeim hraða sem var á afgreiðslu n. Satt best að segja var ég nokkuð óviðbúinn því að frv. rynni svo hratt í gegnum d., og það vildi svo til að ég var hvorki viðstaddur 1. eða 2. umr. málsins og átti þess því ekki kost að gera neinar aths. við frv. Má því segja að aths. mínar séu nokkuð seint fram komnar, og misvirði ég það ekki við d. þó að ekki verði mikið tillit tekið til þeirra aths. við afgreiðslu málsins úr því sem komið er. Ég vil hins vegar ekki láta hjá líða að láta í ljós skoðun mína á þessu máli úr því að það er hér á ferð og er nú til afgreiðslu.

Ég vil almennt lýsa því yfir að ég tel að frv. horfi í rétta átt og að það sé fengur að því fyrir dómsmálakerfið í landinu að það verði samþykkt. Ég tel að ástand dómsmála hér á Faxaflóasvæðinu þurfi hiklaust talsverðrar endurskipulagningar við, það hefur ekki breyst nægilega í takt við tímann, og ég tel að þær breytingar, sem felast í þessu frv., séu þó a. m. k. spor í rétta átt. Það er að sjálfsögðu fráleitt að Seltjarnarnes, svo að ég nefni dæmi, sé í öðru lögsagnarumdæmi en Reykjavík, og það er í öðru lagi fráleitt hversu illa er búið að dómskerfinu á þessu svæði og væri auðvitað brýn þörf á að stokka þetta kerfi upp og þá ekki hvað síst að koma yfir það hentugu húsnæði.

Í sambandi við þetta mál, sem hér er að hljóta afgreiðslu, vil ég láta í ljós þá skoðun mína að ég hef ekki verið sannfærður um að þörf væri á því að hér yrði um sjálfstætt, sérstakt embætti að ræða. Mér hefur virst að ekki væri óeðlilegt að þetta embætti félli undir saksóknaraembættið, og ég hefði talið að í því gæti verið fólgin dálítil hagræðing að haga málum á þann veg. Ég tek eftir því, að í grg. með frv. segir m. a. á bls. 3, með leyfi forseta:

„Árið 1948 var lagt fyrir Alþ. frv. um meðferð opinberra mála sem þeir Einar Arnórsson dr. juris og hæstaréttardómararnir Gizur Bergsteinsson og Jónatan Hallvarðsson höfðu samið. Frv. gerði ráð fyrir að opinber ákærandi, saksóknari ríkisins, færi með ákæruvaldið, sem á þeim tíma var í höndum dómsmrh. Í frv. var einnig ákvæði um að sérstakur embættismaður, er lyti saksóknara ríkisins og nefndur var rannsóknarstjóri, skyldi taka við yfirstjórn rannsóknarlögreglunnar í Reykjavík í stað sakadómara. Hann skyldi og stjórna rannsóknum hvarvetna annars staðar á landinu þegar saksóknari teldi þess þörf. Þá átti rannsóknarstjóri að vera sækjandi í héraðsdómi í þeim opinberu málum sem þar sættu sókn og vörn eftir málshöfðun.“

Nú er það flestum kunnugt, sem kynnt hafa sér þessi mál, að þetta frv. náði ekki fram að ganga og gangur málsins varð með nokkuð öðrum hætti. Talsvert löngu seinna var komið á fót embætti saksóknara og ákæruvaldið flutt úr höndum dómsmrh. til þess embættis án þess að þessi breyting, sem hér var reiknað með, væri gerð á skipan rannsóknarlögreglu. Ég tel persónulega að nú, þegar það spor var stigið loksins að koma sérstakri skipan á rannsóknarlögreglu ríkisins, hefði verið heppilegra margra hluta vegna að það embætti hefði fallið undir embætti saksóknara ríkisins og yfirstjórn hans. Ég er viss um að því hefði fylgt minni kostnaður og ég held að sú skipan mála hefði verið til hagræðingar.

Ég vildi láta þessa skoðun mína koma hér fram enda þótt ég geri ekki tilraun til þess á úrslitastigi málsins að gera breytingu á frv.