16.12.1976
Neðri deild: 24. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1320 í B-deild Alþingistíðinda. (916)

100. mál, söluskattur

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósepsson):

Forseti. Á þskj. 182 hef ég gefið út sérstakt nál. um afgreiðslu þessa máls í fjh.- og viðskn. og legg þar gegn því að þetta frv. verði samþ. Í rauninni er það svo, að þetta frv., eins og það liggur hér fyrir, varðar aðeins þann þátt þessa máls að taka ákvörðun um hvort halda á áfram því skipulagi sem verið hefur með olíugjald, þ. e. a. s. að innheimta 1% af söluskattsstofni í ákveðnu skyni og verja því eftir þar til settum reglum sem ákveðnar eru á Alþ. og í ákveðnu skyni, eða hvort hverfa eigi að því að taka þennan tekjustofn og leggja hann í ríkissjóð og láta það síðan á vald fjvn. og síðan auðvitað Alþ. á eftir að ákveða um það, hvort eitthvað af þessum tekjustofni, sem þannig er kominn til ríkisins, verður látinn renna í því skyni sem upphaflega var ætlað með þeim lögum sem hér er nú verið að leggja til að fella úr gildi.

Í rauninni er það svo, að frv., eins og það liggur hér fyrir, snýst um þetta. Auðvitað er hægt út af fyrir sig með því að láta þennan tekjustofn renna í ríkissjóð að ráðstafa tekjustofninum á sama hátt á eftir við afgreiðslu fjárl. Það er hægt. En ef horfið yrði frá þessu formi sem verið hefur, þá verður að takast á um það mál hverju sinni við fjárlagaafgreiðslu og það eftir að þetta er orðið að föstum tekjustofni ríkisins. Ég er sem sagt andvígur þessari breytingu. Ég tel að á meðan þetta gjald er innheimt, þá eigi að verja því til þess sem upphaflega var gert ráð fyrir og er ákveðið í lögum. Ef ekki þykir lengur ástæða til þess að verja gjaldinu á þann hátt sem upphaflega var áformað, þá á að mínum dómi að fella þennan gjaldstofn niður.

Ég gat þess við 1. umr. þessa máls, að hér væri í rauninni á ferðinni sá árátta hjá þeim, sem fara með fjármál ríkisins, líklega óhætt að segja á hverjum tíma, að stökkva í sífellu á alla tekjustofna sem þeir sjá, hirða þá fyrr eða síðar í ríkissjóð, þar gildi einu máli um það hvort menn koma sér saman um að leggja á neyðargjald vegna goss eða jarðskjálfta eða snjóflóða, þegar slík gjöld eru lögð á í alveg ákveðnum tilgangi og innheimt á einhverju tímabili samkv. þessari fyrirætlun. Þegar örlítill tími er liðinn kemur viðkomandi fjmrh.- og fjármálayfirvöld landsins, stökkva á gjaldstofninn, hirða hann og setja hann í ríkissjóð. Þetta er auðvitað alveg forkastanleg aðferð og verður líklega til þess að menn þora aldrei hér eftir að vera með því að leggja á svona markaða tekjustofna til eins eða neins. Hitt gefur svo auðvitað alveg auga leið, að þegar ríkissjóður er búinn að innbyrða svona tekjustofna og farið er að afgreiða fjárlög einu sinni eða tvisvar á grundvelli þeirra tekjustofna, þá er hægara sagt en gert að ætla að hverfa frá þeim síðar.

Ég er því alveg á móti þessari skipulagsbreytingu sem hér er á ferðinni, af þessum ástæðum sem ég hef greint. En auk þess er svo ágreiningur uppi um það nú, eins og hefur reyndar komið fram á undanförnum árum einnig, hversu réttmætt sé að verja þessu gjaldi, sem innheimt hefur verið, til þess að lækka kyndingarkostnað þeirra sem verða að hita upp íbúðir sínar með olíukyndingu. Á s. l. ári, en árið í þessu tilfelli mun hafa verið miðað við febrúarlok, þ. e. a. s. að gildandi lög um þetta áttu að gilda til febrúarloka nú á næsta ári, þá var við það miðað að greiða á hvern íbúa yfir árið 9500 kr, til lækkunar á þessum kyndingarkostnaði. Þar var um nokkra hækkun að ræða frá því sem hafði verið árið áður, en þó engan veginn að mínum dómi nægilega til þess að mæta hækkandi kostnaði við kyndinguna með þessum hætti. Og eins og kom fram nú hjá hv. frsm. meiri hl. er nú talað um að ef þessi greiðsla væri hækkuð úr 9500 kr. í ca. 10 600 kr. eða þar um bil, þá mundi það jafngilda þeirri olíuverðshækkun sem þegar er orðin og menn hafa búið við. En allar líkur benda nú til þess að olía eigi eftir að hækka í verði enn á næstunni, svo að aðeins til þess að mæta hækkun á olíuverði þyrfti auðvitað styrkurinn á hvern íbúa að hækka talsvert meira en sem þessu nemur, úr 9500 upp í 10 600 kr., — bara til þess að mæta hækkandi verðlagi á olíu. En hitt er þó aðalatriðið að mínum dómi, að þessi greiðsla hefur allan þennan tíma verið allt of lítil. Þeir, sem hafa búið við það að þurfa að hita upp íbúðir sínar með olíukyndingu og hafa ekki átt annars kost, hafa tvímælalaust búið við útgjöld í sambandi við upphitun íbúðarhúsa sinna, þeir hafa tvímælalaust búið við upphitunarkostnað sem hefur verið 4–5 sinnum hærri en er t. d. á hitaveitusvæðinu hér suðvestanlands. Það er enginn vafi á því og hefur verið sýnt fram á það af ýmsum aðilum, sem hafa gert athuganir á þessu, fleirum en Þjóðhagsstofnun, að almennt séð mun kyndingarkostnaður þeirra, sem verða að hita upp hús sín með olíukyndingu, vera 4–5 sinnum hærri en hjá þeim sem geta notið hitaveitunnar hérna suðvestanlands. Því er það að þessi styrkur, sem þarna hefur verið greiddur, hefur verið allt of lítill til að jafna þarna mismun. Og þegar svo stendur á að gjaldið er miklum mun hærra en greitt er í þessu skyni, m. ö. o. það er lagt á gjald til þess að jafna þennan mismun, en því er ekki varið nema að nokkrum hluta í þessu skyni, en mikill meiri hluti gjaldsins rennur til annars, þá er vitanlega ástæða til þess að endurskoða þessa upphæð sem greidd er í sérstakan olíustyrk.

Ég hygg eftir þeim upplýsingum, sem við höfum fengið, en eru mjög takmarkaðar að þessu sinni, að það megi reikna með því að gjaldið sem heild, eitt prósentustig, muni nema í kringum 1700 millj. kr. á næsta ári, — það eru upplýsingar sem við höfum fengið frá Þjóðhagsstofnun, — eða sem sagt nokkru meira en gert er ráð fyrir í grg. þessa frv. þar sem talað er um 1600 millj. kr. Ég hygg líka að það sé líklegt að greiðslur á olíustyrk, ef greiðslan væri hækkuð upp í það sem frsm. meiri hl. minntist hér á, þ. e. a. s. upp í 10 600 kr. á íbúa í staðinn fyrir 9500, þá mundu þessar greiðslur í olíustyrk nema í kringum 700 millj kr. yfir árið, því að reiknað er með því að þeir, sem ætla að njóta þessa styrks á næsta ári, séu í kringum 70 þús. íbúar eða kannske aðeins undir þeirri tölu, en þó mjög nærri henni. Það er því alveg ljóst að hér er verið að leggja á gjald í ákveðnu skyni sem nema mun 1700 millj. kr., en verið að ræða um að verja af því í kringum 700 millj., en taka síðan í ríkissjóð í kringum 1000 millj. eða mun stærri hluta.

Nú höfum við í fjh.- og viðskn, ekki fengið neinar fullnægjandi upplýsingar um það á þessu stigi hvernig hefur verið varið því fé af þessu olíugjaldi sem hefur runnið til Orkusjóðs. Orkusjóður mun hafa fengið á þessu líðandi ári í kringum 600 millj. kr. eða á milli 550 og 600 millj. kr. af þessu gjaldi, en nú er verið að ræða um að hann fái á komandi ári í kringum 1000 millj. kr. Það er þó enginn vafi á því, að miklum meiri hluta af þessari fjárhæð, sem rennur til Orkusjóðs, er varið til almennra ráðstafana á vegum Orkusjóðs, þ. e. a. s. til borana eftir heitu vatni og til jarðhitarannsókna. En auðvitað átti að kosta útgjöld Orkusjóðs í þessum efnum af öðrum aðilum, af ríkissjóði, eða þá í sambandi við lántökur eða þá að þeir greiddu það sem voru að ráðast hér í hitaveituframkvæmdir. En nú er þessi leið valin, að taka verulegan hluta af þeim gjaldstofni sem ætlað var að rynni til þeirra sem standa höllum fæti í þessum efnum. Nú á að taka þetta gjald, þó að það hafi verið lagt á þeirra vegna, og færa það yfir til annarra sem búa í þessum efnum við miklu betri skilyrði og eiga vitanlega að fá fjármagn til sinna framkvæmda með allt öðrum hætti.

Ég bendi á það í mínu nál., að svo er komið að það eru allar líkur til þess að þeir aðilar í landinu, sem eiga að njóta olíustyrksins, sem talið er að muni vera í kringum 70 þús., greiði af olíugjaldinu, vegna þess að það er lagt á alla landsmenn jafnt, þetta olíugjald, sem 1 prósentustig á söluskattsstofn, — þeir muni greiða í kringum 550 millj. kr. af heildargjaldinu, en hugsanlegt er að þeir fái hins vegar af þessu gjaldi í kringum 600 millj. kr. eftir því sem nú er áætlað. Ég hef sagt það og segi það enn: Hér er auðvitað um hreinan skrípaleik að ræða og rangfærslu, að tala um að þetta gjald sé lagt á vegna þessara aðila. Þeir fá í rauninni ekkert út úr þessu sem teljandi er. Þeir borga álíka mikið og þeir eiga að fá í sambandi við verðlækkun á olíu. Hér er því orðið um að ræða hreina tekjuöflun fyrir ríkissjóð, bara undir fölsku yfirskini. Ég álít að eins og ástatt er í þessum efnum ætti að halda áfram því fyrirkomulagi sem verið hefur, lögin um þennan sérstaka olíustyrk eigi að standa áfram, en það eigi hins vegar að verja miklum mun meira af þessum tekjustofni til þeirra sem verða að hita áfram hús sín upp með olíukyndingu.

Ég hafði hugsað mér að leggja fram brtt. um olíustyrkinn sjálfan, þegar að því máli kæmi við afgreiðslu eða við endurnýjun laganna sem áttu að falla úr gildi í febrúarlok, og koma því þá á framfæri að ég legði til að í staðinn fyrir 9500 kr., sem í gildi hafa verið, yrði greidd miklum mun hærri fjárhæð, allt að því helmingi hærri fjárhæð á hvern aðila en verið hefur. En það verður ekki hægt ef þetta nær fram að ganga sem ríkisstj. beitir sér fyrir í þessu tilfelli. En hins vegar gefst væntanlega tækifæri til þess að flytja till. um hvað olíustyrkurinn eigi að verða mikill á íbúa á næsta ári þegar till. fjvn. um þetta mál liggja fyrir, ef hún fær þetta mál nú í hendur til afgreiðslu samkv. þessari lagabreytingu sem hér er verið að ræða um.

Þá vil ég einnig benda mönnum á það, að hér er um alveg sérstakt vandamál að ræða fyrir vissa íbúa í landinu. Þeir, sem sérstaklega falla undir þetta, eru svo að segja allir íbúar Austurlands. Þar er ekki verið að ráðast í hitaveituframkvæmdir neins staðar vegna þess að þar eru ekki skilyrði til slíks, og þar er alveg fyrirsjáanlegt að menn verða að hita áfram hús sín með olíukyndingu. Þetta á jafnt við það fólk, sem býr í sveitum, og hitt, sem býr við sjávarsíðu. Það eru sem sagt svo til allir í þessum landshluta. Ég býst við að það sé nokkurn veginn víst að á Vestfjörðum sé mikill meiri hluti íbúanna bundinn við þessa hitunaraðferð á húsum sínum. Þar eru þó einhverjir möguleikar fram undan í sambandi við hitaveitur. En það verða þá ekki nema aðeins þeir sem búa í nánd við þessa möguleika sem geta fært sér þá í nyt við upphitun sinna húsa, en mikill meiri hluti íbúanna þar er bundinn við að nota þessa hitunaraðferð.

Það má einnig segja að langflestir þeirra, sem búa í sveitum landsins, verði að hita upp hús sín með því að kaupa hina dýru olíu. Þeir eiga auðvitað einhverjir kost á því að færa sig yfir í rafmagnshitun, en um það mun vera þröngt og víðast hvar mun því verða neitað, eins og ástatt er úti á landsbyggðinni, að selja mönnum raforku til upphitunar. Almenna reglan þar er sú að t. d. Rafmagnsveitur ríkisins samþykkja ekki rafhitun í húsum þar sem áður hefur verið notuð olíuupphitun. Aðeins í þeim tilfellum, þar sem er verið að byggja ný hús, hefur tekist, að vísu eftir hörkubaráttu, að fá það í gegn að menn geti fengið rafhitun húsa sinna. En þeir landsmenn hins vegar, sem búa við langbest skilyrði í þessum efnum, eru þeir sem búa hér á Reykjavíkur eða höfuðborgarsvæðinu. Það eru þeir, sem búa í Reykjavík og byggðarlögunum hér í kring, þar með talið í Hafnarfirði og Kópavogi og Garðahreppi, en allir þessir staðir eiga að fá heitt vatn til upphitunar húsa sinna á sama verði og gilt hefur og gildir í Reykjavík eða því lægsta sem sagt sem yfirleitt þekkist á landinu. Það er auðvitað ekki nokkur vafi á því, að hér er um alveg gífurlegan mismun að ræða, og ég verð að segja það, að ég furða mig á því að þeir aðilar, sem telja sig sérstaklega fulltrúa fólksins úti á landi, eins og t. d. þm. Framsfl. gera yfirleitt, þeir skuli treysta sér til þess að taka tekjustofn, sem lagður var á í þessu skyni fyrir þetta fólk sem býr við þessa aðstöðu, og færa yfir til hitaveituframkvæmda hjá hinum sem búa við miklu betri kjör í þessum efnum. Það er sjálfsagt að greiða fyrir hitaveituframkvæmdum með því að ríkið takist á hendur ríkisábyrgð á lántökum og veita sérstaka fyrirgreiðslu við erlendar lántökur til slíkra framkvæmda og um fjáröflun, eins og gert hefur verið í því skyni. Það var sjálfsagt og er sjálfsagt, af því að það hefur líka efnahagslega þýðingu fyrir þjóðarbúið í heild þegar litið er til lengri tíma, En hitt er ekki sanngirnismál, að ætla að taka takmarkað fé, sem átti að renna til þeirra sem versta höfðu aðstöðuna, taka það fé til þess að leysa þetta vandamál. Það er ósanngirnismál.

En þetta hefur nú farið svona, að t. d. Framsfl. hefur látið reka sig áfram í þessa átt stig af stigi og alltaf verið að klípa af þessu fé sem hefur átt að renna til þess fólks í landinu sem búið hefur við þessa aðstöðu sem ég hef hér verið að ræða um. En Framsfl. um það. Hann þarf ekki að halda að þessu máli verði gleymt þegar þetta verður gert upp við það fólk sem hér á hlut að máli. En ég verð að segja það, að mig undrar að nú skuli vera komin fram till. um að hirða þetta gjald, eins og það leggur sig, í ríkissjóð með síðan fullkominni óvissu um það hvernig þessu gjaldi verði ráðstafað á hverjum tíma.

Það eru vitanlega alveg haldlaus rök í þessum efnum að tala um það að út af fyrir sig séu hitaveituframkvæmdir góðar. Auðvitað eru þær góðar. Það hefði auðvitað mátt taka þetta gjald og verja því til margra annarra hluta í landinu sem líka voru góðir. Það mátti færa þetta gjald með ýmsum hætti yfir til Reykjavíkursvæðisins til margra góðra mála. En spurningin var bara þessi: hvort það er nokkur sanngirni í því að beita sér fyrir því að leggja þetta gjald á, eins og gert var, og standa að þessari gjaldheimtu og snúa blaðinu við á þann hátt að verja peningunum á þann hátt sem hér er verið að leggja til.

Ég vil aðeins segja um það atriði sem kom fram í framsögu af hálfu meiri hl. fjh.- og viðskn., að það þyrfti að hækka þann olíustyrk, sem nú er, um ca. 12% til þess að mæta hækkun á olíuverði, að þessi viðmiðun er gersamlega út í bláinn. Hún segir ekki nokkurn skapaðan hlut. Hún segir í rauninni ekki annað en það, að menn vilji halda því fram að sá styrkur, sem áður gilti í þessum efnum, hafi verið nógu hár og menn þurfi því ekkert að breyta honum. Þegar menn viðurkenna að styrkurinn var allt of lágur, þá dugir ekki aðeins að hækka styrkinn sem nemur þeirri olíuverðshækkun sem fyrir liggur, ekki heldur þó að tekið sé tillit til þeirrar olíuverðshækkunar sem menn búast við. Það á vitanlega að breyta styrkupphæðinni til þess að draga úr þeim mikla kostnaðarmun sem hér er um að ræða.

Ég skal ekki fara um þetta fleiri orðum. Ég þykist hafa gert hér grein fyrir afstöðu minni. Ég er algerlega á móti þessu frv., tel að hér sé verið að fara inn á ranga braut, hér sé um mikla ósanngirni að ræða gagnvart þeim aðilum sem búa við þá erfiðu aðstöðu að verða að hita upp hús sín með olíukyndingu. Ég tel að áður hafi reyndar verið búið að ganga allt of langt á þeirri braut að klípa af þessum gjaldstofni til almennra orkuframkvæmda sem áttu að fjármagnast á annan hátt. En nú þykir mér þó bitið höfuðið af skömminni með því að ætla sér að gera það sem felst í þessu frv.