16.12.1976
Neðri deild: 24. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (922)

100. mál, söluskattur

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs þegar hv. þm. Karvel Pálmason var að ræða hér um það, að þetta mál hefði ekki legið fyrir fjvn. og hann vissi ekkert um það hvort fjvn. mundi fjalla um skiptinguna á þessu olíugjaldi þegar það er komið núna inn í söluskattsstofninn. Hann ætti allra manna best að vita það að þetta hefur verið inni í fjárlagafrv., bæði teknamegin og gjaldamegin, og að sjálfsögðu fjallar fjvn. um allt fjárlagafrv. eins og það kemur fyrir. Hv. þm. er það vanur vinnubrögðum fjvn. að hann ætti að vita þetta, og enn þá er hann áheyrnarfulltrúi. Þetta er sem sagt staðreynd, að auðvitað verður fjvn. um þetta að fjalla.

Aftur á móti var það svo á þessu ári, að þá fóru nokkur hundruð millj., 600 millj., að mig minnir, í Orkusjóð. Vegna þess að það var ekki tekið í gegnum fjárlög, þá fjallaði Alþ. einmitt ekki um skiptinguna á því fé. Það var orkuráð, sem gerði það. Með þeim hætti, sem á var hafður, fjallaði Alþ. sem sagt ekki um skiptinguna á þessu fé nema að mjög litlu leyti, þ. e. a. s. að því leyti sem það rann til fólks sem olíustyrkur.

Ég á bágt með að skilja þá menn sem telja að fyrri hátturinn, að Alþ. hafði minni afskipti af þessu máli, sé betri kosturinn fyrir Alþ.,Alþ. ákvarðaði með lögum að það skyldi ganga svo og svo mikið fé til olíustyrkja, en síðan ekki sögu meir. Með þessum hætti, sem tekinn er upp núna, ákveður Alþ. að það skuli ganga tiltekin fjárhæð til olíustyrkja, síðan svona mikið fé e. t. v. til að flýta hitaveituframkvæmdum, svona mikið fé til þess að annast jarðhitaleit og svona mikið fé til þess að styrkja dreifiveitur í sveitum. Er ekki æskilegri vinnumáti fyrir hv. Alþ. að gera þetta einmitt svona, en láta ekki stofnanir úti í bæ ráðstafa þessu eftir því sem þeim þóknast, hversu góðar sem þær annars eru og hæfar að gegna hlutverki sínu? Ég fæ ómögulega skilið að fyrir Alþ. sé þetta verri háttur upp að taka heldur en sá sem frá er horfið.

Það kom fram í máli hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar, hv. 2. þm. Austurl., að Orkusjóðshlutinn, sem ætlað er að verði eitthvað um 1000 millj., komi ekki íbúum sumra landshluta neitt að gagni, og menn hafa verið að velta hér fyrir sér hver borgar olíugjaldið og í hvers þágu olíugjaldið er. Við skulum aðeins veita þessu máli fyrir okkur örlítið á gleggri hátt en hefur verið gert í þessum umr. Fá þeir, sem búa við hitaveitu, olíugjaldið? Kemur það þeim að notum á einhvern hátt? Fá þeir, sem búa við rafhitun, olíugjaldið? Kemur það þeim til góða á einhvern hátt? Nei, það kemur þeim ekki til góða. Hverjum kemur það þá að gagni, allt saman eins og það leggur sig, 1700 millj. kr. Auðvitað þeim sem búa við olíukyndingu. Víð getum verið sammála um að það kemur þeim misjafnt að gagni, en það kemur þeim einum að gagni. Það er verið að vinna á þennan hátt með svonefnt olíugjald: Í fyrsta lagi rennur það í formi styrks beint til þeirra sem búa við olíukyndingu. Í öðru lagi er verið að hraða framkvæmdum til þess að nýta innlenda orkugjafa til þess að þeir geti fengið hitaveitu sem búa við olíuupphitun. Þess vegna er alveg sama hvers konar reikningskúnstum menn beita hér í því skyni að sýna fram á að olíugjaldið komi ekki nema 100 millj. til þeirra sem kynda hús sín með olíu, eða eitthvað slíkt. Þetta er algerlega út í bláinn, ef menn nota kvarnirnar sem menn hafa í kollinum. Þannig er þetta augljóslega.

Ég vildi aðeins upplýsa, fyrst ég er kominn hér, að svo framarlega sem þessu kerfi verður ekki breytt, þá verður raðað niður í till. fjvn. til hv. Alþ. hvernig þessu olíugjaldi skuli varið. Í fyrsta lagi kemur till. um það, hvaða fjárhæð skuli láta í olíustyrki beint. Í öðru lagi kemur till. um það, hverju verði varið til jarðhitaleitar, hverju verði varið til þess að styrkja dreifikerfi í sveitum o. s. frv., hvaða upphæðum eigi að verja til þessara þátta. Ég vil taka fram í sambandi við það, að það er varið gífurlegum fjárhæðum til jarðhitaleitar úti um land beinlínis í því skyni að það sé hægt á skynsamlegan hátt að stefna að því að kynda öll hús landsmanna upp með innlendum orkugjöfum. Við eigum auðvitað ekki að stefna að því að hita hús upp með raforku. þar sem hægt er að ná í jarðhita og hann er ódýrari en raforkan. Það hafa orðið mjög miklar framfarir á þessum sviðum á síðustu árum, og sérfræðingar segja okkur: Við vitum of lítið um hvar jarðhita er að finna. Við getum ekki afskrifað Austfirði, að þar verði aldrei hitaveitur svo að neinu nemi. Þeir eru ekki á sama máli og hv. 2. þm. Austurl., að þeir fái aldrei hitaveitur. Þeir segja: Við þurfum að fá fé — verulegt fé — til þess að kanna hvort austfirðingar geti fengið hita til þess að hita upp hús sín með jarðhita, og síðan setjum við upp áætlun um það með hvaða hætti austfirðingar geta fengið upphitun húsa sinna með annaðhvort jarðhita eða rafmagni. — Þetta kostar mjög mikið fé, og það er mín skoðun að því fé sé ekki illa varið og það fé verði til þess að hraða því að austfirðingar þurfi ekki lengur að kynda með olíu og þar af leiðandi ekki að fá olíustyrk.

Ég vil enda þetta mál mitt með því að benda hv. d. á það, að samkv. upplýsingum, sem hv. fjh.- og viðskn. fékk, hafa 9 þús. manns fengið hitaveitu nú fyrir um það bil ári. Þetta fólk hefði þurft að fá yfir 100 millj. í olíustyrk ef ekkert hefði verið gert í því að hraða hitaveituframkvæmdum á þessum svæðum. Ég held að við getum allir orðið sammála um það, að þeim peningum hafi verið best varið til þess að hraða því að þetta fólk fengi innlendan, ódýran orkugjafa til þess að hita upp hús sin, og það er mergurinn málsins.