16.12.1976
Neðri deild: 24. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (926)

100. mál, söluskattur

Gunnlaugur Finnsson:

Virðulegi forseti. Það eru aðeins örstuttar aths. tvær varðandi ræðu hv. 5. þm. Vestf., Karvels Pálmasonar

Í fyrsta lagi held ég að hann hafi tekið rangt eftir, að ég væri að tala um að lesa mínar þingræður, heldur ef það ætti að líta á þessar umr. eftir pólitískum leiðum, þá væri rétt að lesa þingræður sem haldnar voru þegar jafnréttismál eða jöfnunarmál hafa verið á dagskrá á undanförnum árum, en ekki endilega hvað ég sagði.

Í öðru lagi vildi ég gera aths. varðandi það að ég greiddi í gær atkv. gegn brtt. Skúla Alexanderssonar, Stefáns Jónssonar og Lúðvíks Jósepssonar. Ég gerði það að sjálfsögðu. Ég horfði upp á það hér í gær við atkvgr. að stjórnarandstöðuna flökraði ekki við því að greiða atkv. með brtt. upp á 5 milljarða á einu þskj., hafandi ekki hugmynd um raunverulega tekjuáætlun ríkisins. (Gripið fram í: Það voru ekki allir í stjórnarandstöðunni sem gerðu það.) Ja, sumir hverjir, er óhætt að segja. (Gripið fram í: Já, það er rétt, ekki allir.) Og þessi brtt., sem hv. þm. átti við, leggur til að það komi inn nýr liður upp á 20 millj. í þessum tilgangi. Hér er brtt. knúin fram til afgreiðslu við 2. umr. varðandi lið sem fjvn. er ekki búin að fjalla um og ekki búin að segja sitt endanlega álit um, og það kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. áðan að liðurinn varðandi olíukyndingarkostnaðinn á að hækka um 100 millj. Það kom fram áðan. Hver sem sú hækkun verður, hvort hún verður meiri eða eigi, það skal ég ekkert segja um, en ég tel að þetta mál eigi þar heima, en ekki í neinum sérstökum lið, svo að ég er algerlega sjálfum mér samkvæmur hvað það snertir að greiða þessari till. gagnatkvæði í gær.