17.12.1976
Efri deild: 24. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (933)

106. mál, innflutningur á olíupramma

Jón Árm. Héðinsson; Herra forseti. Ég hef ekki í sjálfu sér neitt við þetta frv. að athuga að öðru leyti en því, að seinast í ræðu hæstv. samgrh. drap hann á að Siglingamálastofnunin mælti með þessu skipi. Mín ósk er sú, og það vil ég biðja samgn. um, að inn í þskj. komi umsögn Siglingamálastofnunarinnar varðandi öryggi og mengunarhættu. Mín ósk er sú að það sé ekki aðeins sagt hér að hún mæli með, heldur að verði það staðfest í þskj. að hún mæli með því og það liggi alveg á hreinu. Öryggislega séð og mengunarlega séð, þegar mjög harðar kröfur eru gerðar alls staðar í heiminum um öryggi varðandi flutninga á þessu efni, þá er það næsta undarlegt, svo ég segi ekki meira, að taka skip, þó endurbyggt hafi verið, sem upphaflega er smíðað fyrir nokkuð yfir 100 árum. Það var smíðað 1860, held ég, eða eins og hæstv. ráðh. orðaði það, fyrir nokkuð löngu.