17.12.1976
Efri deild: 24. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1348 í B-deild Alþingistíðinda. (939)

127. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Jón Helgason:

Herra forseti. Ég skrifaði undir þetta nál. með fyrirvara vegna þess að afstaða mín var að nokkru leyti sú sama og kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns.

Það er svo margt óljóst í sambandi við efni 1. gr. frv., að ég er alls ekki viss um að þetta ákvæði sé það sem koma skal í sambandi við þetta. Við vitum í fyrsta lagi ekkert enn þá hversu fljótvirkt þetta fasteignamatskerfi verður. Það kom jafnvel fram í n. það álit, að byggingar, sem væri unnið að með venjulegum byggingarhraða hér hjá okkur, þær mundu varla vera komnar inn í fasteignamat til skatts fyrr en þær væru teknar í notkun. Um þetta og margt fleira getur vitanlega reynslan ein skorið úr, en mér finnst að það sé nokkur hætta á því að með þessu ákvæði sé verið að gera einfalt mál flókið. Það hlýtur að fara töluverð vinna í að athuga það hverju sinni, áður en fasteignaskattur er lagður á, hvaða byggingar eru komnar það langt að teljast búnar, en eins og hv. frsm. gat um, þá hefur verið talið, að byggingar séu fullgerðar þegar búið er að vinna 80% af þeim. Ef það á svo að fara að athuga það í hvert skipti hvaða byggingar er búið að framkvæma 80% af, þá hlýtur það í fjölmennum sveitarfélögum að vera töluvert mikil vinna.

Í framsöguræðu hæstv. félmrh. voru það aðalrökin, að það væri ófært að fara að leggja skatt á ungt fólk á meðan það væri að koma upp íbúð, og um það getum við vitanlega allir verið sammála. En hér er um fleira að ræða heldur en íbúðir handa ungu fólki, og svo er það þannig að sveitarfélög taka ýmsa aðra skatta af ungu fólki sem stendur í byggingum. Það eru tekin gatnagerðargjöld, og vitanlega eru gatnagerðargjöldin margfalt hærri skattur en fasteignaskattarnir. Mér dettur því í hug að varpa því fram, hvort það væri ekki einfaldari leið, ef það verður þannig í framkvæmd að skatturinn lendir á húsum í byggingu, að lækka þá aðeins gatnagerðargjaldið til þess að jafna metin. Þá þyrfti ekki að vera að hafa neina aukaathugun á byggingarstigi eða neitt slíkt sem þeirri leið fylgdi. Sem sagt, mér finnst að svo mörgum spurningum sé ósvarað í sambandi við þetta og þar sem það er augljóst að það verður engin breyting á þessu fyrr en á árinu 1978, þá tel ég með tilliti til andmæla stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga rétt að fresta samþykkt þessarar greinar.