17.12.1976
Efri deild: 24. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (940)

127. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. (Steinþór Gestsson) :

Herra forseti. Mér þykir gæta nokkurs misskilnings í máli þeirra tveggja hv. þm., sem hér hafa talað næstir á undan mér. Þeir tala um 1. máli þeirra tveggja hv. þm., sem hér hafa talað næstir á undan mér. Þeir tala um 1. gr. frv. eins og hér sé verið að ganga inn á að einhverju leyti nýja leið í þessu efni. En það er síður en svo að svo sé. Þeir hafa talað um það báðir að eftir þeim hraða, sem líklegt sé að verði á fasteignamatsframkvæmdinni, þá muni þetta ekki koma til ákvörðunar fyrr en á árinu 1978, það ákvæði sem er um rætt í 1. gr. Það má vera að svo sé ekki. En ég er þeirrar skoðunar að hér sé um að ræða grundvallaratriði sem var í eldri lögum og ég vil leggja áherslu á að sé haldið í við núverandi aðstæður.

Eins og ég kom að áðan, þá er óleyfilegt að leggja fasteignaskatt á byggingar fyrr en þær eru metnar fullgerðar eða teknar í not, og það er einmitt það sem staðfest með 1. gr. þessa frv., og ekkert annað. (Gripið fram í) Það er nákvæmlega verið að staðfesta það sem er í gildandi lögum eða var í lögum á meðan eldri fasteignamatslögin voru í gildi.

Það er rétt, sem ég gat ekki um áðan, að frá Sambandi ísl. sveitarfélaga komu andmæli gegn 1. gr. inn á fund til okkar. Við reyndum að meta hversu veigamikil þau andmæli væru, ræddum einnig við ráðuneytisstjórann í félmrn. um það og fleira í þessu sambandi, og mitt mat er að sá ótti hafi verið ástæðulaus sem Samband ísl. sveitarfélaga lét fram koma á nefndarfundi hjá okkur.

Hv. 7. landsk. þm., Helgi F. Seljan, gat um það, að í tekjustofnalögunum væru rýmri heimildir um fráhvarf frá fasteignaskattsálagi heldur en hér er gert ráð fyrir í 1. gr. og það er alveg rétt. En þetta eru alveg tveir ólíkir liðir. Þau ákvæði, sem þm. talaði um að væru rýmri ú öðrum stað í tekjustofnalögunum, eru vissulega í gildi áfram. En þau, sem hér er verið að ræða um í 1. gr., eru aðeins stefnumarkandi um það, að fasteignaskattur skuli aldrei lagður á fyrr en bygging er metin fullgerð eða tekin í notkun. En ég er ekki í nokkrum vafa um það, að í hinum stærri sveitarfélögum er erfiðara að fylgjast náið með því, hvernig ástæður þeirra eru sem í byggingu standa, heldur en í litlum sveitarfélögum eins og þeim sem hv. 7. landsk. þm. var að lýsa áðan. En þó að maður vantreysti ekki stóru sveitarfélögunum á neinn hátt í þessu efni, þá er ég þeirrar skoðunar að þessi stefnumörkum sé rétt, að ekki sé leyft að leggja fasteignaskatt á byggingu fyrr en hún er fullgerð eða tekin í notkun.