17.12.1976
Efri deild: 24. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1351 í B-deild Alþingistíðinda. (943)

127. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég fagna yfirlýsingu hæstv. ráðh. í lokin um að umr. um þetta mál verði frestað og það skoðað betur. Það var einmitt það sem fyrir okkur vakti í þessu efni. Ég vil aðeins taka það alveg skýrt fram, að það er ekki vegna andstöðu við þessa grein út af fyrir sig, sem ég mun greiða atkv. gegn henni, heldur það, að ég vil að hún sé skoðuð betur, og þegar andmæli hafa komið gegn henni frá þeim aðila sem gerst á hér að þekkja, þá treysti ég mér ekki til þess að standa með þessari grein, en alls ekki það að ég vilji með því fara að leggja til að þessi skattur verði lagður á unga húsbyggjendur og þeim íþyngt með því, enda engar sönnur á það færðar að það muni gerast þó að þetta ákvæði kæmi ekki til framkvæmda fyrr en á næsta ári. Það hafa engar upplýsingar komið fram um að það mundi gerast, Þegar þar við bætist svo það sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson kom hér að áðan, að það er upplýst að menn hafi reynt að komast fram hjá þessum hlutum, eins og þeir hafa verið í framkvæmd og eins og raunar framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga kom inn á líka í viðræðum við okkur, þá er ég ekki heldur kominn til með að segja að fyrri framkvæmdin á þessu hafi verið heilög og ágæt. Þá hefði ég séð fullkomna ástæðu til þess að athuga það einnig, ef fyrri framkvæmdin hefur verið misnotuð eins og hann benti á með skýrum og ljósum rökum áðan.