17.12.1976
Efri deild: 24. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1360 í B-deild Alþingistíðinda. (952)

132. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég reiknaði reyndar ekki með því að aths. mín í upphafi fyrri ræðu færi svona í taugarnar á hæstv. ráðh., þó að ég líkti því við að við fengjum fisk í soðið rétt fyrir mikla kjötveisluhátíð, eins og er nú orðið í dag, því miður. En það er ekki mitt að heimta ákveðin frv. í gegn í n. Til þess eru kjörnir formaður og varaformaður og nóg starfslið annað. En auðvitað hefur komið oft í ljós að hæstv. ráðh. þarf lítt á lögum að halda, því að hann hefur sagt að hann hlustaði ekki á ályktanir ákveðinna hópa og stjórnaði sjálfur. En neðst í aths. þessa frv. er þó sagt að hér sé farið eftir beiðni ákveðinna aðila. Gott og vel um það. Það getur vel verið að það liggi fyrir. Það er þó ekki prentað með í þskj.

Reynslan af loðnunefnd, eins og ég segi áðan, hefur verið góð. Loðnunefnd hefur einfaldlega starfað á þann veg, sem er heilbrigt og eðlilegt, að hún fylgist með veiðunum og skipulagning og tilhögun á löndun er í höndum hennar og hún tilkynnir hvar er tóm fyrir veiði. Síðan er það auðvitað í valdi skipstjórans hvar hann velur löndunarstað. Loðnunefnd tilkynnir einnig að það sé ákveðinn flutningsstyrkur á hvert kg, eftir því hve langt er siglt. Þetta hefur komið mjög vel út, eins og ég drap á áðan, og reynslan hefur sýnt að stærstu skipin sigla eðlilega mest og lengst. Þess vegna vil ég yfirvega þetta nokkuð, hvort skilyrðislaust vald sé fært í hendur þessara manna.

Ég drap á það að gefnu tilefni, — það má hæstv. ráðh. vita, — að marggefnu tilefni, að þegar Alþ. ætlar að ákveða hvar einn aðili selji, þá tel ég skyldu að tryggja að hann fái greiðslu fyrir afurðir sínar, þegar farmur getur numið 6–8 millj. kr., í staðinn fyrir að þurfa að biða jafnvel mánuðum saman ef ekki enn lengur. Ríkisvaldið biður ekki með skattheimtu. Skuldunautur er tilkynntur á uppboði ef hann stendur ekki í skilum. Það er þetta sem ég er að vara við að Alþ. geri. Og það er hægt að tína til nóg dæmi um þetta ef á að fara í einstök dæmi sem snerta aðila í atvinnulífinu. Ég ætla aðeins að vara við þessu. Eða treystir hæstv. ríkisstj, sér til þess að segja ákveðnum heildsala að selja ákveðnum smásölum fortakslaust til að hafa jafna og góða dreifingu á vörum, án greiðslutrygginga, svo að nemur millj. kr. í viðskiptum? Ég vildi sjá slík lög. Þegar við ákveðum þetta í lögum, þá erum við komnir á allt annað svið heldur en loðnunefnd hefur í dag.

Hitt er ákveðið skipulag, að taka af viðkomandi útgerðarmanni og skipstjóra ráðin um að ráðstafa verðmæti skipsins og taka þá áhættu sem af því leiðir. Þegar við setjum lög um að það séu tveir eða þrír menn sem segi: Þú ferð þangað, góði minn, og ekkert annað, — þá er dæmið frá mínu sjónarmiði orðið allt annað, Það er þetta sem ég vil athuga og fá að vita rækilega hvort menn séu sammála um það.

Við hæstv. ráðh. erum hins vegar sammála um að vegna þess að Norglobal hefur ekki fengist nú, þá skapast sérstakt vandamál. Ég er algerlega sammála því, og ég er sammála um það meginvandamál sem frv, fjallar um. En ég vil athuga málið meira, vegna þess að hér er það lagt á vald ákveðinnar n. er hefur ákveðna hættu í för með sér. Það má alls ekki blanda þessu saman við aðrar veiðar — alls ekki. Þetta er svo sérstakt mál að það má ekki blanda því saman við aðrar veiðar, því þar er frjáls ákvörðunartaka enn höfð. Þar er settur ákveðinn rammi, en frjáls ákvörðunartaka er enn fyrir hendi og frjálst að veiða og selja, en magnið er takmarkað og veiðisvæðið er takmarkað. Hér erum við komnir inn á allt annað svið, og ég vona, að hv. þm. skilji hvað felst í frv.

Það kom fram hér á Alþ. fyrir löngu bæði frá mér og mörgum öðrum þm., að það yrði að gera sérstakt átak í því að tryggja betri móttöku á loðnu og þeim fiski sem almennt er nú farið að kalla bræðslufisk, auðvitað samheiti á fisktegundum sem enginn veit reyndar hverjar eru. En við skulum þá nota þetta orð, bræðslufisk, ég held að inn í Alþ. hafi það verið flutt af núv. hæstv. menntmrh. En það hefur ekki verið hlustað á þetta og þál. um þetta efni var að velkjast í rn. mánuðum saman, en er vonandi komin í höfn. Kannske loðnunefnd hafi ákvarðað hafnarsvæði fyrir þál., svo að vonandi verður eitthvað úr þeirri þál.

En ég vil aðeins segja það, að ég vil fá svigrúm til að athuga málið. Okkur liggur ekkert á að lögfesta þetta miðað við 1. jan., af því að það hefur aldrei skeð áður — og jafnvel þótt útlitið sé gott nú — að verksmiðjur yrðu allar fullar í janúar. Ef þing kemur saman síðustu viku í jan., 24., 25. eða 26., þá má taka til höndunum strax með þetta frv. og vera búið að afgreiða það í fyrstu víkunni. Það er vandalaust verk, því að sjútvn. getur komið strax saman og beðið um umsagnir. Þær liggja þá allar fyrir og okkur er ekkert ofboðið með að afgreiða málið þegar á öðrum eða þriðja degi þegar þing kemur saman á hinu nýja ári, og þá tekst það ekki í þessari d. Þá hefur málið verið athugað og þá liggur það hreint fyrir. Og óski allir aðilar eftir þessu, bæði þeir, er þetta kann að bitna á sérstaklega, og aðrir, þá er það sameiginlegt átak að leysa þennan vanda, og það er það sem ég fer fram á, vegna þess að frv. felur í sér ákveðnar skyldur að mínu mati og það mjög miklar skyldur.

Ég vil ekki vera að pexa meira um þetta mál við hæstv. ráðh. Ég viðurkenni, eins og ég sagði áðan, að það er ákveðið vandamál uppi þar sem Norglobal fæst ekki og annað bræðsluskip hefur ekki fengist og afkastageta verksmiðjanna er ekki nægileg miðað við afkastagetu flotans, þar sem útvegsmenn hafa aukið afkastagetu flotans er nemur nær 3000 burðarlestum nú á þessu hausti. Um eða yfir 18 skip hafa verið stækkuð og geta því sótt meira og einnig siglt meira. En ég vil að þetta mál sé athugað meira en nokkur kostur er að gera nú á tveimur eða þremur síðustu dögum þingsins.