17.12.1976
Efri deild: 25. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1372 í B-deild Alþingistíðinda. (992)

19. mál, fjölbrautaskólar

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þetta frv. um fjölbrautaskóla var lagt fram í Nd. og hefur verið afgreitt þaðan með smávægilegri breytingu. Það er fyrst og fremst formsbreyting, en ekki efnis. Ég er henni algerlega samþykkur og sýnist að betur fari á að frv. sé með þeim hætti sem Nd. gekk frá því.

Þetta er ekki veigamikið mál. Það fjallar aðeins um tvö atriði varðandi þá löggjöf sem nú gildir um fjölbrautaskólana: Annars vegar kostnaðarskiptingu á milli ríkissjóðs og sveitarfélaganna. Þar er nánast um það að ræða að lögbinda viðtekna venju sem komist hefur á að því er þetta atriði varðar. Á hinu leitinu eru örlítið nánari ákvæði en nú eru í lögum fjölbrautaskóla um það, hversu samræma skuli iðnmenntun þeirra, sem sækja verknámsbrautir í fjölbrautaskólunum, við hina almennu iðnmenntun í landinu. Um þetta atriði hafði verið fjallað nokkuð ítarlega áður en þetta frv. var lagt hér fram, en við enn nánari skoðun í hv. menntmn. Nd. þótti, eins og ég áðan sagði, rétt að breyta þarna lítið eitt um form, og ég er þeirri breytingu algerlega sammála. Ég vil aðeins taka það fram að lokum, að það er mikilsvert að þetta mál nái afgreiðslu fyrir áramótin, ef þessi hv. þd. telur það auðið, því að nauðsynlegt er að koma fastari og samræmdari skipan á þessi mál heldur en unnt er miðað við gildandi lagaákvæði.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. menntmn.