17.12.1976
Efri deild: 25. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1374 í B-deild Alþingistíðinda. (999)

119. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. 1. minni hl (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur tekið til athugunar frv. til l. um tollskrá o. fl. N. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins og munu 3 hv. þm. skila séráliti, en ég ásamt hv. þm. Jóni Helgasyni og Jóni G. Sólnes rita undir nál. 1. minni hl.

Frv. þetta er beint framhald af fyrri breytingum á tollskrárlögum og þeim samningum sem Ísland hefur gert við EFTA og Efnahagsbandalagið. Þessar tollalækkanir eru samningsbundnar og koma sjálfkrafa til framkvæmda hvort sem lögunum er breytt eða ekki. Þannig hefur alltaf verið haldið á þessum málum þegar tollskrárbreytingar hafa orðið.

Í öðru lagi er með þessu frv. stefnt að allverulegum lagfæringum til handa iðnaðinum. Í fyrsta lagi eru tollar af ýmsum rekstrarvörum felldir niður, ýmist að fullu eða í áföngum, tollar á fjárfestingarvörum falla niður á þrem árum og ýmsir tollar á hráefnum til smíði tveim áföngum.

Áhrif þessa frv. koma annars vegar fram í því, að ríkissjóður verður fyrir allverulegu tekjutapi. Er áætlað samkv. frv. að tekjutap ríkissjóðs verði um 1050 millj. og með þeim brtt., sem 1.minni hl. n. gerir, má áætla að þessi upphæð hækki um 120–130 millj.

Þetta frv. er að því leytinu til tímamótafrv., að þar kemur fram svo að ekki verður um villst að tollvernd iðnaðar á Íslandi er lokið árið 1980 og á því ári nýtur iðnaðurinn ekki lengur tollverndar.

Það er einnig rétt að taka fram að í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir því að breyta í neinum mæli svokölluðum fjáröflunartollum. Það er alveg ljóst og það kom skýrt fram í n., held ég mér sé óhætt að segja hjá öllum um., að það verði ekki komist hjá því að taka fjáröflunartolla til endurskoðunar á næstunni. Þær vörur, sem voru taldar lúxusvörur fyrir áratug eða jafnvel nokkrum árum, þykja sjálfsögð heimilistæki og sjálfsagður þáttur í lífi hins almenna borgara, þannig að hugtakið lúxusvara hefur fengið verulega breytta merkingu. Hitt er alveg ljóst, að við slíka lagfæringu stendur ríkissjóður frammi fyrir tekjuöflunarvandamáli ef á að halda rekstri hans áfram í svipuðum mæli og hefur orðið nú á undanförnum árum. Og það er einnig ljóst, að þessi tollalækkun, sem nú er gert ráð fyrir, nemur a. m. k. 4500 millj. á ársgrundvelli þegar allar tollalækkanir hafa komið til framkvæmda á árinu 1980, þannig að hér er um verulegan tekjumissi að ræða sem vart er hægt að hugsa sér að mæta nema með einhverri annarri tekjuöflun.

Ég sé ekki ástæðu til að gera frekar grein fyrir frv., hæstv. fjmrh. gerði það í mjög ítarlegri framsöguræðu, en vil í stuttu máli gera grein fyrir störfum n.

Til fundar við n. komu starfsmenn ýmissa rn., fjmrn., viðskrn. og iðnrn., og þessir aðilar veittu ýmsar upplýsingar. Þá kallaði n. sérstaklega til sín aðila frá Félagi ísl. iðnrekenda og Landssambandi iðnaðarmanna og var verulegt gagn að viðræðum við þessa aðila sem veittu margvíslegar upplýsingar um stöðu iðnaðarins. Þessir aðilar lögðu mikla áherslu á það að trjávöruiðnaður og fataiðnaður fengi meiri ívilnun eða lækkun á tollum á sínum aðföngum en gert er ráð fyrir í frv. Í sumum tilfellum var það svo, að tollur á innfluttum húsgögnum var jafnvel ívið lægri en tollur á aðföngum til húsgagnagerðar.

1. minni hl. n. hefur gert það að till. sinni, að tollur á nokkrum liðum í aðföngum trjávöruiðnarins verði lækkaður. Þar er einkum um að ræða krossvið og plötur ýmiss konar sem mikið eru notaðar í húsgagnaiðnaði. Þessar lækkanir kosta ríkissjóð, ef má orða það svo, eða ríkissjóður missir tekjur sem nemur um það bil 60 millj. strax á næsta ári. Hins vegar þótti ekki fært að lækka eða fella niður toll á furu, en innflutningur á furu er mjög verulegur og mest af þeim við er notað í byggingariðnaði. Ef tollur hefði verið felldur niður strax á næsta ári af þessum lið, þá hefði það þýtt tekjutap fyrir ríkissjóð a. m. k. um það bil 300 millj. Hins vegar er gert ráð fyrir að tollur á furu lækki nú á næstunni og fari í 0 1980.

Ég vænti þess, að lækkanir á krossvið og spónaplötum ýmiss konar verði til þess að efla nokkuð húsgagnaiðnaðinn, sem að vísu býr ekki í dag við þá erfiðleika að mikill innflutningur sé á húsgögnum, því að það kom fram í n. að um 90%, af seldum húsgögnum í landinu séu innlend framleiðsla. Hins vegar er það ljóst, að með lækkuðum tolli á erlendum húsgögnum á næstu árum er hætt við að verulegir erfiðleikar skapist í húsgagnaiðnaðinum og þess vegna er mikilvægt að lækka toll strax á helstu aðföngum hans til þess að hann geti búið sig betur undir harðnandi samkeppni.

Það var eitt atriði, sem kom fram í starfi n., og það er sú staðreynd að tollur á innfluttum húsum er 15%, en hins vergar er tollur á furu 25%, þannig að innlendir húsagerðarmenn og þær húseiningaverksmiðjur, sem starfa í landinu, þurfa að greiða 25% toll á sama tíma sem sams konar innflutt hús eru í 15% tolli. Þetta getur að sjálfsögðu ekki gengið ef á að halda uppi þessum iðnaði, þegar við bætist sú staðreynd að þessir aðilar þurfa að greiða söluskatt af framleiðslu sinni á sama tíma sem vinna á byggingarstað er söluskattfrjáls. Þess vegna ber að leggja á það áherslu og ég vil taka það skýrt fram, að það er talið að endurgreiðsla á þessum tolli geti fallið undir 12. lið 3. gr. í frv., og það er skilningur n. að það beri að endurgreiða þessum fyrirtækjum toll af furu. Þetta eru ekki mörg fyrirtæki, þau munu vera 4–5, en það kom skýrt fram hjá starfsmönnum fjmrn. að það væri nauðsynlegt að fá lærða menn, t. d. verkfræðinga, til þess að meta það hversu mikil fura færi í þau hús sem eru smíðuð. Og ég vænti þess, að það muni verða gert.

Þá kom einnig fram frá iðnrekendum, að þeir teldu að fataiðnaður ætti rétt á að búa við betri kost en frv. gerir ráð fyrir, og að kom fram í starfi n. að ef upplýsingar hefðu legið fyrir áður, þá hefði strax í upphafi verið gert ráð fyrir meiri tollalækkun á aðföngum til fataiðnaðar. 1. minni hl. n. gerir ráð fyrir því að ganga verulega til móts við þessar óskir í tveim áföngum, í fyrsta lagi í ársbyrjun 1977 og í ársbyrjun 1978. Þetta kemur skýrt fram ef bornar eru saman brtt. 1. minni hl. og samsvarandi liðir í frv. sjálfu.

Þá lögðu fulltrúar iðnrekenda nokkra áherslu á að tollur af fjárfestingarvörum félli niður, og það er ljóst að hér er um gífurlega stórt mál að ræða. Frv. gerir ráð fyrir því að tollur af fjárfestingarvörum falli niður í áföngum og verði kominn í 0 1980 af helstu fjárfestingarvörum. En það þótti ekki fært að lækka toll þennan meira en gert er ráð fyrir í frv. því að hér er um verulegt fjárhagsatriði fyrir ríkissjóð að ræða og ekki verður séð að innlend húsagerðarsmíði stafi veruleg hætta af erlendri samkeppni.

Þá kom það fram hjá fulltrúum iðnrekenda og einnig fulltrúa Landssambands iðnaðarmanna, að þeir lögðu mikla áherslu á ákvæði 12. liðar 3. gr. sem er nýmæli og felur í sér heimild fyrir fjmrn. að endurgreiða eða fella niður gjöld af hráefni, efnivörum og hlutum til framleiðslu innlendra iðnaðarvara sem tollar hafa verið lækkaðir á eða felldir niður af samkv. ákvæðum um aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu og ákvæðum samnings Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu, svo og af vélum, vélahlutum og varahlutum, sem notaðir eru til aðvinnslu sömu vara, jafnframt að lækka eða fella niður gjöld af efnivöru til innlendrar iðnaðarvöru ef gjöldin af sams konar iðnaðarvöru framleiddri erlendis eru jafnhá eða lægri en af efnivörunni. Hér er um mjög viðamikið mál að ræða, sem ljóst er að þarf að setja nánari reglur um, og þetta ákvæði er mjög mikilvægt fyrir iðnaðinn. Það er hins vegar ljóst, að ekki er hægt að sjá það fyrir algerlega hvernig þessi liður 3. gr. verður framkvæmdur. Það var almennur skilningur fyrir því í n. að einhverjar nánari reglur þyrfti að setja um framkvæmd þessa ákvæðis, og 1. minni hl. n. leggur til að við 12. tölul. bætist svo hljóðandi mgr.:

„Fjmrn. setur nánari reglur um framkvæmd ákvæða þessa töluliðar að höfðu samráði við iðnrn. og samtök iðnaðarins.“

Það er ljóst, að fjmrn. verður að móta hér framkvæmdina, en hins vegar er mikilvægt að þeir aðilar, sem starfa að þessum málum og þekkja vel til vandamála iðnaðarins, séu hafðir með í ráðum og það sé tryggt að þeir geti komið sjónarmiðum sínum að um framkvæmd þessa ákvæðis. Þess vegna er nauðsynlegt að bæta þessu ákvæði við til þess að það sé tryggt að þeir séu hafðir með í ráðum og geti fylgst náið með framgangi þessara mála.

Brtt. n. eru, eins og ég hef áður rakið, í fyrsta lagi sérstaklega varðandi trjávöruiðnaðinn, í öðru lagi varðandi fataiðnaðinn og síðan er gert ráð fyrir nokkurri lækkun frá því, sem gert var ráð fyrir í frv., á ýmsum vélum til landbúnaðar, sem kemur fram sérstaklega á siðu 5 í brtt. Þetta eru ýmsar vélar til landbúnaðarframleiðslu sem lækka lítillega. Einnig er gert ráð fyrir því, að vélar til fiskvinnslu, svo sem flökunarvélar, síldarsöltunarvélar, roðflettingarvélar, slægingarvélar og hausskurðarvélar til vinnslu á fiski, lækki einnig allnokkuð. Var um þetta samstaða í n. svo og um aðrar brtt., en aðrir nm. vildu ganga lengra í ýmsum efnum.

Ég sé ekki ástæðu til að gera grein fyrir þessum brtt. á þskj. 201 frekar, en vil aðeins víkja að brtt. á þskj. 214 sem er flutt af 1. minni hl. fjh: og viðskn., en hún felur í sér að það verði breyting á 27. lið 3. gr„ en hann hljóðar svo, að það sé heimilt „að lækka eða fella niður gjöld af allt að 400 bifreiðum árlega fyrir bæklað fólk eða lamað eða fólk með lungnasjúkdóma og aðra hliðstæða sjúkdóma, allt á svo háu stigi að það á erfitt með að fara ferða sinna án farartækis. Lækkun gjalda af hverri einstakri bifreið má þó ekki nema meiru en 80 þús. kr. Þó skal heimilt að lækka gjöld á allt að 25 bifreiðum árlega um allt að 120 þús. kr. fyrir þá sem mestir eru öryrkjar, en geta þó ekið sjálfir sérstaklega útbúinni bifreið“. Þetta ákvæði laganna hefur ekki breyst í nokkur ár og hefur þótt eðlilegt að gera þarna nokkra lagfæringu til samræmis við verðlagshækkanir. Og það er gerð till. um að þessi niðurfelling megi vera 150. þús. í stað 80 þús. Það er hins vegar nauðsynlegt að gera grein fyrir því, að leyfisgjald fellur einnig niður. Ef tekið væri dæmi um Skoda-bifreið, þá er tollur af slíkri bifreið 321 þús. kr. í dag og af því mundu þá falla niður 150 þús. kr. En einnig fellur niður leyfisgjald að upphæð 114 þús., þannig að heildarlækkun yrði þá 264 þús. Hins vegar ef tekið er dæmi um einhverja aðra bifreið, t. d. Ford-bifreið af ákveðinni gerð, þá er tollur 522 þús., en leyfisgjald 290 þús. hækkun af slíkri bifreið yrði þá 150 þús. kr. tollur og 290 þús. kr. leyfisgjald eða samtals 440 þús. Hins vegar þykir rétt að setja það ákvæði, að heildarlækkun að meðtöldu innflutningsgjaldi megi þd ekki vera hærri upphæð en 500 þús. kr. Það er hugmyndin með þessari heimild, að hún sé notuð til þess að tryggja þessu fólki, sem á við mikla erfiðleika að etja, að það geti eignast bifreið. En hins vegar þykir ástæðulaust að tryggja það að viðkomandi aðilar séu studdir til þess að kaupa mjög dýra bíla og þess vegna er þetta ákvæði sett inn, að viðkomandi aðilar geti vissulega tekið ákvarðanir um það að kaupa dýrar bifreiðar, en fái ekki stuðning til þess umfram þessa upphæð.

Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir því, að það sé heimilt að fella niður toll allt að 120 þús. af 25 bifreiðum árlega fyrir þá, eins og segir í frv. sem mestir eru öryrkjar, en geta þó ekið sjálfir sérstaklega útbúinni bifreið. Það þótti ástæða til að hækka þessa niðurfellingu allverulega eða úr 120 þús. í 450 þús., þannig að slíkar bifreiðar væri hægt að kaupa, þ. e. a. s. tiltölulega ódýrar bifreiðar, að mestu leyti án tolls. Ef tekið væri dæmi um Skoda-bifreiðina, þá er tollur 321 þús. þannig að það er verulega lægri upphæð en sú upphæð sem þarna er gert ráð fyrir. Ef síðan er tekin aðeins dýrari bifreið, af ákveðinni Ford-gerð, þá er tollur 522 þús., þannig að viðkomandi aðili þyrfti þá af slíkri bifreið að greiða 72 þús. kr. toll, en leyfisgjaldið væri fellt að fullu niður eins og í öðrum tilvikum.

Það kom fram hjá fulltrúum iðnaðarins, að þeir legðu á það áherslu og hefðu fyrir því áhuga að það væri lagt sérstakt jöfnunargjald á innflutning, og það var gert ráð fyrir því að þetta jöfnunargjald væri 4%. Þeir rökstuddu þessa skoðun sína með því að benda á það, að uppsöfnun söluskatts skerði samkeppnishæfni iðnaðar innanlands og hindri jafnframt uppbyggingu útflutningsiðnaðar. Það væri því nauðsynlegt að breyta þessu þannig að íslenskur iðnaður njóti sambærilegrar aðstöðu hvað þetta snertir og erlendir keppinautar hans njóta hérlendis og erlendis. Þeir gerðu ráð fyrir því að þessi uppsöfnunaráhrif væru 3 1/2%, sem kemur reyndar fram í skýrslu frá fjmrn., og einnig væri hér 0.5% iðnlánasjóðsgjald, þannig að iðnaðurinn kæmi til með að búa við neikvæða tollvernd 1980 sem næmi 4%. Það er vissulega nokkuð erfitt að fullyrða að svo sé. En iðnaðurinn hefur einnig annað gjald sem er ekki algengt erlendis, þ. e. a. s. aðstöðugjald sem er allt að 1%, þannig að slíkt gjald mundi þá bætast hér við. Hins vegar má vel vera að iðnaður í samkeppnislöndum okkar búi að einhverju leyti við gjöld sem ekki eru lögð á hérlendis, en um það vil ég ekki fullyrða. Það kom fram í n. verulegur áhugi fyrir því að þetta mál yrði kannað af alvöru og athugað hvort slíkt væri ekki hægt. Bent var á ákvæði í EFTA-samkomulagi, sem er nokkuð óljóst að mínum dómi og má skilja svo, að heimilt sé að leggja á slíkt jöfnunargjald, en þar segir: „Aðildarríkin skulu ekki leggja beint eða óbeint á innfluttar vörur nein fjáröflunargjöld sem hærri eru en þau, sem lögð eru beint eða óbeint á sams konar innlendar vörur, eða beita slíkum gjöldum svo að sams konar innlendum vörum sé veitt raunveruleg vernd“.

Það má vissulega líta svo á að þau gjöld, sem lögð eru á íslenskan iðnað hér á landi, en ekki annars staðar, séu óbeinar álögur. Og því má lesa út úr þessari grein, a. m. k. fyrir leikmann, að þetta muni vera heimilt. En hins vegar kom það skýrt fram hjá þeim sérfræðingi, sem hefur mest með þessi málefni að gera, ráðuneytisstjóra viðskrn., að hann teldi að þetta væri alls ekki heimilt. Og hann benti jafnframt á ákvæði í samningi Íslands við Efnahafsbandalagið í 6. gr., sem er mun ákveðnara en 6. gr. samningsins við EFTA, en í 6. gr. samningsins við Efnahagsbandalagið segir í 1. lið: Í viðskiptum Íslands og Efnahagsbandalaglagsins skal ekki leggja á nein ný gjöld, sem hafa sömu áhrif og innflutningstollar.“ Hér er mun skýlausara orðalag heldur en í EFTA-samningnum. En mér þykir hins vegar rétt og nauðsynlegt að þetta mál faí alvarlega athugun af yfirvöldum, því að það er ljóst að þegar allir tollar verða niður fallnir á erlendri iðnaðarvöru á árinu 1980, þá verður ekki við það búið að innlendur iðnaður búi við mun meiri álögur en samkeppnisiðnaður erlendis. Væri að mínum dómi nauðsynlegt að hann nyti þeirra bestu kjara, sem hugsanleg eru, á þeim stutta aðlögunartíma sem er eftir fram að 1980.

Það var nokkuð rætt á fundum n. um framlengingu aðlögunartíma, og fulltrúar iðnaðarins lögðu áherslu á að þeir hefðu mikinn áhuga fyrir því og legðu á það þunga áherslu að reynt væri að fá framlengingu á aðlögunartímanum. Ég lít svo á að það sé sjálfsagt að fara fram á framlengingu aðlögunartíma eftir því sem hægt er. En hins vegar verður að líta svo á að það sé aðskilið mál, sem komi ekki afgreiðslu þessa frv. beint við, og þess vegna sé ekki ástæða til að ég fari að rekja þær umr. sem voru á fundum nefndarinnar.

Þrátt fyrir það að ýmsir telji að það hefði mátt betur gera í þessu frv. og koma að ýmsum brtt., þá held ég að það verði ekki dregið í efa að það er mjög mikilvægt fyrir alla aðila og ekki síst íslenska iðnaðarframleiðslu að þetta frv. nái fram að ganga og það væri mjög skaðlegt fyrir iðnaðinn ef það næði ekki fram að ganga nú fyrir jólaleyfið.

Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja þetta mál frekar, herra forseti, en vil aðeins ítreka það, að 1. minni hl. n., ég ásamt hv. þm. Jóni Sólnes og Jóni Helgasyni, við leggjum til að frv. verði samþ. með þeim brtt. sem við höfum lagt fram.