16.12.1977
Neðri deild: 33. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1384 í B-deild Alþingistíðinda. (1019)

129. mál, fjáröflun til vegagerðar

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósepsson):

Hæstv. forseti. Á þskj. 192 gerum við, sem erum í minni hl. fjh: og viðskn., grein fyrir afstöðu okkar til málsins. Þar kemur fram að við teljum að Vegasjóður þurfi vissulega á auknu fjármagni að halda, eins og hv. frsm. meiri hl. gat um. Hins vegar gat hann auðvitað ekki talað á réttan hátt fyrir okkar áliti því hann hefur sennilega ekki lesið það til loka og varla von. Það stendur nefnilega hvergi þar hjá okkur að við ætlum að vera á móti frv. Það er miklu vissara að þeir tali fyrir málunum, sem flytja þau sjálfir, heldur en það séu einhverjir alveg óviðkomandi menn sem tali fyrir þeim.

En hv. frsm, meiri hl. hefði gjarnan mátt lesa allt sem við segjum, því við bendum einmitt þar á að þrátt fyrir þann tekjuauka, sem gert er ráð fyrir að Vegasjóður fái samkvæmt þessu frv., er Vegasjóður stórlega vanhaldinn eigi að síður og getur ekki haldið uppi jafnmiklum vegaframkvæmdum og t.d. voru árið 1974, þarna yrði um verulegan samdrátt að ræða. Af því hef ég m.a. flutt brtt., sem er á þskj. 193, og þar legg ég til að aftan við 1. gr. frv. bætist eins og þar segir: „Söluskattur, sem lagður kann að verða á gjald þetta, skal renna í Vegasjóð:“ Það gjald, sem hér er um að ræða, er bensíngjald sem rennur til Vegasjóðs og verður samkv. þessari 1. gr. frv. frá 1. jan. n.k. 36.50 kr. á lítra eða mun gefa Vegasjóði í tekjur á næsta ári 4460 millj. kr. Nú liggur. fyrir að sá háttur hefur verið hafður á, að ríkissjóður hefur lagt söluskatt á þann hluta bensinverðsins, sem er beint framlag til Vegasjóðs. Það er skoðun mín, að slíkt gjald, sem er innheimt fyrir Vegasjóð, eigi ekki að verða sérstakur tekjustofn fyrir ríkið. Því legg ég til að verði söluskattur lagður á þetta gjald, sem allar líkur benda nú til því sá háttur hefur verið hafður á, þá verði sá söluskattur látinn renna í Vegasjóð. Það mundi þýða að Vegasjóður fengi tæplega 900 millj. kr, til viðbótar þessu fjárframlagi á næsta ári til sinna þarfa.

Af því að ég veit mætavel að hv. þm. Þórarinn Þórarinsson, 4. þm. Reykv., finnur til með Vegasjóði og veit hvernig ástatt er fyrir honum og veit hvernig hv, flokksbróður hans liður sem stjórnar þessum málum, hæstv, samgrh., þá vona ég að hann fylgi þessari till. minni um þennan tekjuauka handa Vegasjóði. Ég skal einnig hugga hann með því, að ef hann óttast að þá fari að hallast eitthvað á hjá ríkissjóði, þannig að hann komist í þrot, þá er ég til viðtals við hann um að reyna að ná saman einhverjum nýjum tekjum handa ríkissjóði í staðinn fyrir þessa upphæð. Við ættum að finna einhverjar leiðir til þess.

En sem sagt, ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Ég vil gjarnan að fái að reyna á það hið allra fyrsta, hversu næma tilfinningu menn hafa hér fyrir Vegasjóði og hans miklu verkefnum, og vil ég að till. mín komist undir atkv. sem fyrst.