16.12.1977
Neðri deild: 33. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (1022)

129. mál, fjáröflun til vegagerðar

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósepsson):

Hæstv. forseti. Ég sé nú að hv. 4. þm. Reykv., Þórarinn Þórarinsson, er orðinn enn ruglaðri en ég hafði búist við. Ég finn sárt til þess, að mér finnst hann ekki tala svo í málum eins og hann gerði hér áður fyrr, eins og ég þekkti hann. Þá fannst mér hann fylgjast talsvert vel með, en nú sýnist mér hann alveg hættur að fylgjast með.

Sú athugasemd, sem hæstv. samgrh. gerði hér, var á þá leið að hann teldi að segja mætti. að Vegasjóður fengi sem næmi söluskatti af þeirri hækkun sem nú væri verið að samþ. á gjöldum til Vegasjóðs, vegna þess að í fjárlagafrv. væri að finna ákveðið framlag til Vegasjóðs þar sem væri um hækkun að ræða. Till. mín er ekki um að söluskatturinn aðeins af þessari hækkun, sem nú er að fara fram, eigi að renna í Vegasjóð, heldur söluskatturinn af öllu gjaldinu, einnig því sem fyrir var. Sá söluskattur nemur tæpum 900 millj. kr. og framlag ríkisins er hvergi nærri svo hátt.

En það er ekki nóg með það. Sú athugasemd, sem hæstv. samgrh. kom hér með, dugar auðvitað ekki heldur fyrir það sem hann ætlaðist til. Það hefur nefnilega verið þannig um áraraðir, að ríkið hefur lagt Vegasjóði meira og minna fjármagn til framkvæmda. Og þó að það megi finna nú á þessu fjárlagafrv. ákveðna fjárhæð. sem gert er ráð fyrir að ríkissjóður leggi Vegasjóði, er það ekki nema eins og gert hefur verið áður, en hlutfallslega minna að magni en oft hefur verið Þetta var m.a.þannig þegar við áttum hlut að máli í sambandi við framkvæmdir á vegum Vegasjóðs, ég og hæstv. samgrh., Halldór E. Sigurðsson, á árunum 1973 og 1974. Þá urðu framkvæmdir í vegamálum miklum mun meiri að magni en hægt verður með þeim tekjuauka sem gert er þó ráð fyrir nú. Það var auðvitað vegna þess að Vegasjóður naut þá ákveðinna tekna og ákveðinna framlaga frá ríkinu.

Það er auðvitað ekkert annað en smávegis skollaleikur hjá hæstv. samgrh. að segja að nú renni sem nemi söluskatti af þessari hækkun til Vegasjóðs vegna þess að ríkissjóður leggur Vegasjóði til nokkurt fjármagn. Eftir sem áður á að halda sér við það, að ríkissjóður geti gert gjaldið til Vegasjóðs að tekjustofni, þegar sem sagt á að hækka gjaldið til Vegasjóðs til að styrkja hann, þá geti ríkissjóður notað það aukna gjald til Vegasjóðs sem tekjustofn og lagt 20% söluskatt á þetta framlag. Ég er eins og áður andvígur þessari aðferð. Ég tel hana ranga. Það er búið að gera þetta allt of lengi og það ber að hverfa frá því, ekki síst eins og ástatt er nú um fjármál Vegasjóðs.

Ég tók líka eftir því, að hæstv. samgrh. var að tala um að hann hefði verið á þeirri skoðun, að sérgjöld af umferðinni í landinu ættu gjarnan að renna til Vegasjóðs, en hins vegar almenn skattlagning, það var ekki óeðlilegt að hún færi þá aftur í ríkissjóð. En núna renna í stríðum straumum tekjur til ríkissjóðs af umferðinni í landinu, þar sem um er að ræða sérskatta á umferðina. Ef við lítum t.d. á fjárlagafrv., þá mun þar vera gert ráð fyrir tekjum hjá ríkinu upp á 2 milljarða og 300 millj. aðeins í innflutningsgjald af bifreiðum, aukagjald á innflutning þessara ökutækja umfram venjuleg innflutningsgjöld af vörum, svo ríkissjóður tekur þetta til sín í ríkum mæli. (Gripið fram í.) Nei, og veitir ekki af. Það hefði líka mátt færa fyrir því víss rök, að ríkissjóður ætti að fá söluskatt til sín af þeim hluta bensínverðsins sem er hið eiginlega vöruverð, þ.e.a.s. söluskatt af innflutningsverðinu á bensíni að viðbættum hinum eðlilegu álögum sem koma á bensínverðið til útsölu, að sá hluti söluskattsins hefði runnið í ríkissjóð. Þá hefði það verið svipað og á sér stað með annan varning. En að ríkissjóður eigi að taka sem tekjustofn söluskatt af beinu framlagi í annan sjóð á vegum ríkisins, það er fjarstæða. Auðvitað á Alþ. að standa frammi fyrir því sem alveg aðgreindu verkefni: Á að leggja Vegasjóði til aukið fjármagn? Ef niðurstaðan verður sú, að það sé rétt að láta Vegasjóð fá aukið fjármagn, þá á að afla þess fjármagns handa Vegasjóði, en það á ekki endilega að þýða það, að þá komi ríkissjóður og noti þetta nýja framlag til Vegasjóðs sem skattstofn. Það er um það sem málið snýst.

Það þarf ekki að efa það, ég a.m.k. efast ekkert um það, að hæstv. samgrh. mundi gleðjast ef till. mín yrði samþykkt. Hann fengi þá úr talsverðu að spila. Þá fyrst gætu menn farið að gera eitthvað í vegamálum. Þá væri líklega hvort tveggja hægt að gera: að gleðja þá, sem hafa verið að flytja till. í vetur um að byggja þjóðvegi landsins upp úr snjó, eins og sagt hefur verið, og einnig hina, sem ætla að malbera olíu það sem eftir er af óolíumalbornum vegum í landinu. Ég treysti á það, að ég fái nú góðan stuðning hjá báðum þessum hópum, þeim sem ætla að byggja vegi upp úr snjó og einnig frá hinum hópnum, sem ætlar að olíumalbera. Hér eru peningarnir. Við reynum allir að sjá um ríkissjóð verði till. samþykkt.