16.12.1977
Neðri deild: 33. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

129. mál, fjáröflun til vegagerðar

Frsm. meiri hl. (Þórarinn Þórarinsson):

Hæstv. forseti. Hv. frsm, minni hl. var að bera mér á brýn að ég væri heldur þekkingarlítill í þessum málum. Það kann vel að vera, og ég geri það yfirleitt ekki að státa mig af þekkingu, hvorki í þessu máli né öðrum. Mér virðist hins vegar liggja nokkurn veginn ljóst fyrir, að þekking hans er ekki meiri en mín, ef hann heldur að það framlag, sem ríkissjóður lætur vegagerðinni í té umfram það sem þetta frv. fjallar um, sé ekki meira en nemi söluskattinum að þessari tekjuöflun. Í fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir, er gert ráð fyrir að verja 9.6 milljörðum kr. til vegagerðarinnar. Eins og kemur fram í nál. hans sjálfs, þ.e. í nál. minni hl. fjh- og viðskn. í þessu máli, þá er reiknað með að tekjur af þessu frv., ef samþykkt verður, heildartekjur, verði ekki nema 5.6 milljarðar. Þarna munar hvorki meira né minna en 4 milljörðum. Og ég held að það sé gersamlega útilokað fyrir hv. þm. að reikna það út, að 20% söluskattur af þessu gjaldi nemi 4 milljörðum kr. Það liggur þannig ljóst fyrir, að ríkissjóður greiðir miklu meira til vegagerðarinnar umfram þennan tekjustofn heldur en nemur söluskattinum af þeirri tekjuöflun sem felst í þessu frv.

Ég hygg að þegar hv. þm. kynnir sér þessi mál betur, þá sjái hann að hann hefur vaðið hér reyk og það er rétt niðurstaða sem kom fram hjá mér, að ríkið ver til vegagerðarinnar umfram það, sem felst í þessu frv., miklu meira fé en umræddur söluskattur nemur.