16.12.1977
Efri deild: 32. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1398 í B-deild Alþingistíðinda. (1053)

99. mál, verðlagsmál landbúnaðarins

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) [frh.]:

Herra forseti. Þegar þingfundi var frestað í dag var ég að skýra frá því, að ég hefði verið undrandi yfir því þegar var verið að ræða um auknar niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum á s.l. sumri í sambandi við kjarasamningana og það urðu mér nokkur vonbrigði, að mér fannst, að þessir þegnar, sem þá voru í kjarabaráttu fyrir alþýðusamtökin í landinu, kysu heldur að fá lækkaðan tekjuskatt en fá auknar niðurgreiðslur. Þegar umr. fóru fram um þetta, sem var að mörgu leyti nýtt fyrir mig, þá fannst mér að ég væri álíka staddur og skáldið Steinn Steinarr þegar hann fékk skáldalaunin, og þó að ég gæti ekki mælt á þann veg sem hann gerði, þá hugsaði ég bara á þann veg: „Eitthvað er breytt, annaðhvort ég eða þjóðin,“ þegar alþýðusamtökin í landinu voru farin að berjast fyrir því að lækka tekjuskattinn, en vildu ekki auka niðurgreiðslur á neysluvörum almennings, þá fannst mér eitthvað vera orðið breytt. Hins vegar varð niðurstaðan að hvort tveggja var gert. Niðurgreiðslurnar voru auknar sem svarar hálfum öðrum milljarði, miðað við eyðslu á ári, og tekjuskatturinn svo lækkaður eitthvað rúmlega það.

Það er því við að bæta líka í sambandi við niðurgreiðslurnar og aðgerðir í sambandi við landbúnaðarmálin, að það hefur verið gerð sú breyting í tíð núv. ríkisstj. að taka upp niðurgreiðslu á ull sérstaklega. Þetta var gert með tilliti til þess, að með því að gera ullina að verðmætari hluta kindarinnar en hún áður var var hægt að draga úr verðinu á kjötinu og um leið var með þessum hætti hægt að auka mjög atvinnu víðs vegar úti um landið. Sá ullariðnaður, sem hefur verið mesti vaxtarbroddurinn í okkar iðnaði á síðustu árum, byggist á þessu. Og nú er ákveðið að verja um 330 kr, á hvert ullarkg, sem er rúmlega hálfur milljarður á þessu verðlagsári. Þetta kemur auðvitað alveg eins út fyrir framleiðendur sauðfjárafurða og þetta væri lagt á kjötið og það kemur vel út fyrir neytendur einnig, því að öðrum kosti yrði kjötverðið að vera hærra til þess að ná heildarverði kindarinnar. Þessu má ekki gleyma þegar þetta er verið að meta. Hins vegar vil ég taka það fram, sem féll niður hjá mér áðan, að þessi aukna niðurgreiðsla, sem var gerð í sumar, og jafnframt aukin kaupgeta, að ég hygg, varð þess valdandi að salan á kjötinu var meiri seinni partinn heldur en fyrri part ársins.

Ég vil svo í framhaldi af þessu geta þess, að fleira er það, sem þessi ríkisstj. hefur tekið til meðferðar í sambandi við landbúnaðarframleiðsluna og til stuðnings við hana, og það eru fleiri ástæður en fram koma í grg. þessarar þáltill. sem hafa haft veruleg áhrif á verðlag landbúnaðarvöru. Þar vil ég minna á að áburðarverðið hækkaði um rúmar 1500 millj. kr. á árinu 1975 eða um 150% og af því voru greiddar niður 752 millj. kr. Það var hins vegar ekki gert nema þetta ár, svo að verðlagið á áburðinum, sem hefur verið rólegt síðan, hefur gengið inn í verðlagið eftir þetta. Þetta hafði hins vegar mikil áhrif, að geta gert þessa breytingu, og hefði í raun og veru þurft að halda áfram með niðurgreiðslu á áburði, en hún var tiltölulega hagstæð þetta ár þegar þessi mikla verðhækkun var. Verðbólguáhrifin af svo mikilli hækkun eins og áburðarverðshækkuninni vorið 1976, — talið var að verðið mundi 21/2-faldast, — þegar hennar gætti endanlega í verðinn í landinu er nauðsynlegt að hafa í huga þegar þess er gætt og að því er gáð af hvaða ástæðum verðbólgan hefur aukist og verðhækkun orðið á landbúnaðarvörum.

Þá vil ég og geta þess, að þegar upp voru teknar launajöfnunarbætur þegar núv. ríkisstj. kom til valda haustið 1974, þá fengu bændur með lágar tekjur þessar launajöfnunarbætur eins og aðrar stéttir, enda eðlilegt að þannig væri með farið, og það var líka gert.

Ég vil líka geta þess, að þegar gerður er samanburður á tekjum bænda annars vegar og viðmiðunarstéttanna nú og áður, þarf að hafa í huga breytingar, sem gerðar hafa verið nú á seinni árin og sérstaklega eftir 1970. Þessi samanburður var gerður og er gerður með því, að það eru teknar annars vegar brúttótekjur bænda og hins vegar tekjur viðmiðunarstéttanna. Við samanburð á brúttótekjum bænda og viðmiðunarstéttanna samkv. þessum heimildum þarf að hafa hliðsjón af því, að breytingar hafa orðið á framtali bænda. M.a.eru vextir, fyrningar húsa og fasteignagjöld o.fl. nú fært á landbúnaðarframtal. sem ekki var áður, en þá var það fært á persónulegt framtal. Í þessu sambandi er rétt að hafa það í huga, að flýtifyrningar eru einnig að verki í sambandi við þennan samanhurð og þess vegna er þessi samanburður ekki hliðstæður því, sem áður var að þessu leyti til. Þetta þarf að hafa í huga.

Um fleiri atriði, er þetta mál varða, vil ég nú geta þess, að ég sagði frá raunum mínum sem landbrh. í dag, þegar ég skipaði n. til þess að endurskoða framleiðsluráðslögin og var kominn hér með frv. upp á vasann og ættaði að fá lög afgreidd í þinginu. Fleiri tilraunir hef ég gert í þessa átt. Og það varð samkomulag í sambandi við kjaramál að taka framleiðsluráðslögin til endurskoðunar. Hinn 26. maí 1976 skipaði ég enn á ný n. til að endurskoða framleiðsluráðslögin. Þá n. skipa, með leyfi hæstv. forseta, Jónas Jónsson ritstjóri, sem er formaður n., Björn Jónsson forseti ASÍ, Brynjólfur Bjarnason rekstrarhagfræðingur, Gunnar Guðbjartsson formaður Stéttarsambands bænda, og Ólafur Andrésson bóndi í Sogni, sem er líka í stjórn Stéttarsambandsins og í framleiðsluráði.

Nú hefur það komið fyrir í þessari n., eins og kom fyrir þegar slitnaði upp úr 1958, að eftir að verðlagsgrundvöllur landbúnaðarins hafði verið hækkaður, það mun hafa verið s.l. vetur, þá kærði Alþýðusamband Íslands þessa hækkun. Þetta varð til þess, að ekki varð sérlega gott á milli foringjanna í þessari ágætu n. og formaður Stéttarsambands bænda taldi sig ekki geta tekið þátt í nefndarstörfum með forseta ASÍ á sama tíma sem þeir væru í málaferlum. Nokkrar tilraunir voru gerðar til þess að fá þetta mál í lag aftur, en án árangurs. Eitthvað var nú í skipunarbréfi mínu sem ASÍ taldi sig þurfa að gera aths. við, en það var ekki meira en svo, að ég deplaði ekki einu sinni auga, hvað þá meira, svo að það varð ekki til tafar nefndarstörfum.

Nú gerðist það svo aftur í haust, að ég ræddi við formann Stéttarsambands bænda og sagði: Nú er ekkert með það, nú gerist annað tveggja, að þú tekur upp störf að nýju og n. tekur til starfa eða þá ég verð að óska eftir því við Stéttarsambandið að það tilnefni annan fulltrúa. — Og ég hef tilkynnt formanni að ég óski eftir því, að þessi n. haldi áfram störfum. Framhaldið var svo það, að n. tók til starfa og hefur haldið nokkra fundi í haust. M.a. fjallaði hún þá um hugmyndir þær sem komu fram á Stéttarsambandsfundinum. Þær voru að vísu ekki nýjar. Þær eru í gamla frv. frá 1971 og höfðu komið fram áður. um fóðurbætisskatt sem tæki sem væri hægt að nota ef menn vildu hafa stjórn á framleiðslunni. Kvótakerfi var líka gamalkunnugt, og það urðu ekki mótmæli gegn því að fóðurbætisskattur yrði lagður á. enda kæmi hann þá ekki inn í verðlagið. Þannig fór svo þetta mál fyrir aukafund í Stéttarsambandi bænda og þar var þetta samþykkt, en þó nokkur andstaða gegn málinu. Síðan hafa. eins og kunnugt er, verið haldnir æðimargir fundir, sem ganga í þá átt að vera andsnúnir þessum skatti.

Nú hef ég sagt formanni Stéttarsambandsins að ég muni ekki beita mér fyrir flutningi þessa þáttar eins í framleiðsluráðslögunum nema samstaða væri um það, ég færi ekki að Leggja út í hörku út af þessu, ef ekki kæmist meira í gegn af framleiðsluráðslögunum. Ég átti viðræður síðast í morgun við hann ásamt fleirum um þetta mál. Um niðurstöðu þar að lútandi get ég ekki gefið frekar. skýringar nú.

Í sambandi við umr, um þessa endurskoðun, m.a.hjá ASÍ-mönnum og fleirum og m.a. hefur það komið fram í stjórnarflokkunum, að um er að ræða atriði sem menn eru ekki á eitt sáttir um framkvæmd á. Eins og þessi mál eru nú framkvæmd er miðað við 10% af heildarverðmæti framleiðsluvara bænda, og hefur nokkuð verið deilt í haust um útreikninginn á því, í fyrsta skipti síðan ég fór að fara með þessi mál til þess hefur komið. Ég hef alltaf litið á hagstofustjóra sem algildan postula þar um sem ekkert þyrfti um að ræða í því sambandi. Hann hins vegar telur að grundvöllinn verði hann að fá frá öðrum, en hann eigi að reikna út. Niðurstaða í þessu hefur ekki fengist enn þá, en það, sem menn eru þar ekki á eitt sáttir um, eru einmitt hlunnindin sem hafa ekki áhrif á útflutningsbæturnar. Hins vegar hefur sú skoðun komið fram, sem er í þáltill. hv. þm. Stefáns Jónssonar og félaga hans, að taka eingöngu þær vörur sem út eru fluttar, þ.e. framleiðslu í sambandi við sauðfjárbúskap og nautgripabúskap og annað ekki. Þetta hefur hins vegar ekki verið gert, og mér sýnist að ef þetta væri reiknað þannig út núna, þá mundu útflutningsbæturnar þurfa að vera um 12% af þeim tegundum framleiðslunnar, sem þarna eru tilgreindar, en ekki 10%, til þess að ná sömu fjárhæð og 10% ná núna miðað víð heildarframleiðsluna.

Þetta er atriði sem má svo sem hafa mismunandi skoðanir á. Hins vegar hafa þeir stéttarsambandsmenn, sem ég hef rætt þetta við, sagt að upphaflegu lögin séu samningur milli þeirra og ríkisstj. 1959 og þar féllu þeir frá því að leggja þetta á innanlandsframleiðsluna gegn þessu, og þeim finnst að þessi samningur sé enn í gildi og svo verði nema þá lögunum verði breytt.

Þessar upplýsingar vil ég gefa í sambandi við það sem um væri að ræða, ef væri farið inn á þessa einangruðu leið, sem ég er ekki að fordæma út af fyrir sig, miðað við það þó að hún hefði meira rými eins og lagt er líka til í þáltill.

Til að upplýsa um tekjur bænda og annarra stétta í þjóðfélaginu, sem að vísu eiga allar sammerkt með það, að allar telja sig hafa of lítið, þá langar mig nú til að nefna í því sambandi að árið 1971 var fiskblokkin seld fyrir 21 cent á Bandaríkjamarkaði, en núna er hún seld á 1 dollar og 21 cent. Þrátt fyrir þetta heyrist talað um það, að frystihúsum eða fiskvinnslustöðvum verði að loka nema gerðar væru sérstakar ráðstafanir til þess að þær geti annast reksturinn. Og það er svo að heyra, að útgerðin sé ekki of vel haldin. Ef við berum þetta saman við landbúnaðarútflutninginn, þá er það svo að á sama tíma er hans verðstaða mun verri en hún var þá. T.d. gaf Noregsmarkaðurinn á þessum árum, þegar hann gaf best, um 70% af heildarverðmætinu, grundvallarverðinu og þeim kostnaði sem því fylgdi, en nú er þetta sennilega komið niður fyrir 50%. Það var um 50% í haust og það var besti markaðurinn. Hins vegar hefur allur markaður fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir versnað erlendis vegna verðbólgunnar hér, og verðhækkanir á þeim mörkuðum hafa ekki átt sér stað, nema síður sé. Og þegar þetta er haft í huga, þá verður að segjast eins og er, að maður er í raun og veru undrandi að landbúnaðurinn sem atvinnugrein skuli þó ekki vera verr haldinn þegar samanburður er gerður við aðrar atvinnugreinar. Þessu vildi ég vekja athygli á, og jafnframt vil ég geta þess, að á sama tíma hafa framkvæmdir í landbúnaði verið meiri en sennilega nokkurn tíma fyrr á 5–6 árum. T.d. hafa lán úr Stofnlánadeild landbúnaðarins a.m.k. í kringum tvöfaldast að verðgildi frá 1971. Árið 1970 voru heildarlán úr Stofnlánadeild landbúnaðarins 141 millj., en nú munu þau vera 2.2 milljarðar eða kringum það. (StJ: Á sama gengi?) Nei, nei, krónutala hvert ár. Ef við aftur tökum lánin á sama verði, þá er óhætt að segja þetta sem ég benti áðan á. En þetta eru krónutölur bæði árin.

Þess vegna verður að hafa í huga að það hefur verið mikil hreyfing í landbúnaði, miklar framkvæmdir, mikil vélvæðing og afkoma bænda hefur versnað núna eins og yfirleitt gerðist á árunum 1975 og 1976, og mundi hins vegar lagast á yfirstandandi ári ef salan sprengdi ekki 10% skallann, sem útlit er fyrir að verði. Það hefur að sjálfsögðu áhrif á þetta.

Nú er mér ljóst að ég er búinn að tala hér allt of lengi og skal nú fara að stytta mál mitt, en vil vekja athygli á því, að þar sem till, fjallar um endurskoðun þessa þáttar í framleiðsluráðslögunum, að framleiðsluráðslögin í heild eru í endurskoðun og það, sem ég tel mestu máli skipta, er að fá þeirri endurskoðun lokið. Þess vegna reyndi ég að gera ítrekaðar tilraunir í haust til að herða á því og vona nú satt að segja að okkar ágætu félagar eyði nú ekki tímanum í málaferli hver við annan. En það er afar erfitt að fara að taka út úr svona veigamikilli löggjöf einstaka þætti, eins og þarna á sér stað. Í þessari endurskoðun er einmitt gert ráð fyrir þessari stefnumörkun, og fara inn á samkomulag við ríkisstj. Jafnvel þó að ég segi það að fenginni reynslu að henni skuli treysta með varúð, þá hef ég samt ákveðið a:ð fylgja þessu eftir. Ég mun ekki hika við það, ef þetta frv. félli í mínar hendur sem landbrh., að flytja það. Aðalatriðið er að það komi sæmileg samstaða út úr n. til þess að tryggja málinu framgang. Það skiptir að mínu mati meginmáli að það yrði til þess að tryggja afkomu bændastéttarinnar og um leið að tryggja þann þátt í atvinnu þjóðarinnar, að landbúnaðurinn, sem hefur verið og er einn af styrkum stoðum hennar. haldi áfram að vera öruggur og farsæll atvinnuvegur.

Það er hart að hlusta oft á það eða lesa það, að ráðist er á landbúnað, þessa matvælakistu okkar, með þeim hætti eins og margir ábyrgðarlitlir blaðasnápar gera. Ég mun hafa orðað það svo um daginn, að mér hraus hugur við því, á sama tíma og ég hlustaði á FAO-ráðstefnunni á það, þegar forustumennirnir kvörtuðu yfir því og höfðu hinar mestu áhyggjur af fæðuskorti í heiminum og töldu sig ekki sjá nein ráð til bjargar þrátt ölt sú fæðuöflun, sem nú væri sjáanleg, ykist svo mikið sem þeir gætu reiknað með, að það nægði til þess að fæða þá sem ættu eftir að fæðast og upp að vaxa á næstu árum eða áratugum.

Þess vegna verða það mín lokaorð nú, að ég vil óska eftir við flm. þessarar þáltill. að reyna ekki að koma henni áfram, vegna þess að hún hefur ekki þýðingu þar sem verið er að vinna að málinu, heldur að þeir reyndu að nota áhrif sin til þess að málinu yrði hraðað hjá þeim sem að því vinna, og að sjálfsögðu mun ég reyna það líka. Og ég tek undir það með flm. og frsm., að ég kann ekki við talið um samdrátt í landbúnaði. Það hefur aldrei verið við mína skapgerð eða fallið í minn farveg. Þegar ég var við búskap hafði ég enga löngun til annars en hafa sæmilega stórt bú. Ég byrjaði þó með mjög lítið, en það var á allt annan veg þegar ég hætti. Ég gerði mér líka grein fyrir því, að það eru slíkar sveiflur í okkar veðráttu sem hafa þau áhrif á landbúnaðinn, að það hlýtur að fara svo, að við höfum umframframleiðslu miðað við innanlandsneysluna. Og það, sem mestu máli skiptir er að reyna að koma henni í sem best verð og það gerist því aðeins að við vinnum að markaðsöflun og breytum vörunni á þann hátt í gegnum iðnaðinn, að hún verði sem best seljanleg vara, eins og okkur er þegar farið að takast í sambandi við ullariðnaðinn, þótt betur megi ef duga skal. Og því treysti ég, að íslenskur landbúnaður, þó að menn hafi þar ýmislegt við að athuga nú, eins og mér virðist nú í þjóðfélaginu öllu, — eitthvað heyrðist í haust þegar var verið að fjalla um kjaramálin, — þá fari það svo, að hann verði traustur, önnur af tveim traustustu stoðum íslensks þjóðfélags í nútíð og framtíð.