17.12.1977
Efri deild: 36. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1406 í B-deild Alþingistíðinda. (1065)

128. mál, tímabundið vörugjald

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. til l. um breyt, á l. nr. 49 frá 20. maí 1977, um sérstakt tímabundið vörugjald. Meiri hl. leggur til að frv. þetta verði samþykkt, en minni hl. n. þeir hv. þm. Ragnar Arnalds og Jón Árm. Héðinsson, skilar séráliti.

Ég tel ekki ástæðu til að rekja þetta mál. Hér er um gjald að ræða, sem lagt var á til eins árs á sínum tíma og hefur einu sinni áður verið framlengt. Nú er enn lagt til, að það verði framlengt, þannig að ljóst er að ríkissjóður er orðinn verulega háður þessum tekjum. Það er ljóst, eins og oft hefur komið fram, að ríkissjóður stendur frammi fyrir tekjuvanda, ekki aðeins nú, heldur á næstu árum, og það er erfitt að hugsa sér að unnt sé að afnema gjald eins og t.d. þetta vörugjald nema með heildarendurskoðun á tekjuöflunarkerfinu, þar sem tollar verða nú sífellt minni og minni hluti af tekjuöflun ríkisins.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta mál frekar, en ítreka aðeins, að meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt.

Herra forseti. Ég vil taka það fram, eins og fram kemur í nál., að hv. þm. Albert Guðmundsson sat hjá við afgreiðslu málsins.