20.10.1977
Sameinað þing: 7. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

43. mál, afstaða Framsóknarflokksins til erlendrar hersetu

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Í 32. gr. laga um þingsköp Alþingis segir að alþm. geti óskað svars af ráðh. um opinbert málefni eða einstakt atriði þess. Þessi fsp, uppfyllir gersamlega þetta ákvæði þingskapa. Það skuli gera með fsp, í Sþ. er afhent sé forseta, fsp. skuli vera skýr, um afmörkuð atriði, þessu er gersamlega fullnægt í fsp. minni, og um það mál sem ráðh. ber ábyrgð á. Ég geri ráð fyrir að menn hengi sig í þetta, að hæstv. dómsmrh. fari ekki með hermál. En hæstv. dómsmrh. er bæði dómsmrh. og formaður Framsfl., og hann gegnir hér embætti sínu sem ráðh. vegna þess að hann er formaður Framsfl. Ég þekki hæstv. dómsmrh, býsna vel, tel ég vera, þó að hann sé ekki sérlega opinn fyrir öðrum yfirleitt, og ég get ekki gert þann greinarmun á þessum hæstv. ráðh., að hann sé tvær manngerðir, önnur sem ráðh. og hin sem formaður Framsfl. Ég hef að vísu lesið í bókum um þessi fyrirbæri, m.a. minnistæða sögu um persónu sem var tvískipt, þ.e. dr. Jekyll vísindamaður í venjulegu starfi, en breyttist stundum í Mr. Hyde sem var afbrotamaður. Ég hef aldrei orðið var við það, að neinn slíkur klofningur væri í hæstv. ráðh. Ólafi Jóhannessyni, og því finnst mér það mjög eðlilegt að hann svari fsp. sem er í fyllsta samræmi við þingsköp, og því segi ég já.