17.12.1977
Efri deild: 36. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1412 í B-deild Alþingistíðinda. (1070)

99. mál, verðlagsmál landbúnaðarins

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég skal reyna að tefja ekki eins tímann og ég gerði í gær. Ég afsakaði mig með því þá, að ég taldi mér skylt að gefa þær skýringar sem ég gaf í sambandi við þessi mál og taldi brýna nauðsyn bera til að gefa, og hinu líka, að ég hef ekki tafið þingstörfin á þessu hausti með miklum ræðuhöldum.

Út af því, sem fram kom í ræðu hv. 7. landsk. þm., Helga Seljans, vil ég segja það, að mér er ánægja að þessi umr. fer fram rólega og menn ræða þetta mál án þess að á því sé deilublær.

Þá vil ég í fyrsta lagi gefa skýringu um orlofsrétt bænda. Á árinu 1972 mun það hafa verið, var orlofsfé bænda tekið inn í verðlagið og hefur verið svo síðan, að ég best veit. Þetta mál var þá, haustið 1971, lagt fyrir Stéttarsambandsfundinn og óskað eftir umsögn hans um það, hvort hann vildi aðgreina þetta og hafa þetta þannig sér, að bændur gætu tekið sér orlof, sem þeir eru sem betur fer farnir að gera, en sú var niðurstaða fundarins að taka það þá inn í verðlagið. Hins vegar er verið að gefa auga kerfi sem Norðmenn eru að koma í framkvæmd hjá sér og tóku upp, held ég, á þessu eða s.l. ári formlega, og það mun verða athugað í sambandi við þetta mál og rn. mun þá leggja það fyrir Stéttarsambandsfundinn.

Ég ræddi í gær um viðskipti ASÍ og Stéttarsambandsins. Ég get tekið undir það með hv. þm. Helga Seljan, að þetta hefur í flestum tilfellum orðið mér til leiðinda og er ástæðulaust að ræða um það. Það eina, sem ég gæti vonað, væri að þessir aðilar, sem nú vinna að endurskoðun þessara mála, tækju sig nú á og reyndu að finna leið til þess að leysa þetta mál á eins farsælan hátt og frekast er hægt.

Ég vil taka það fram út af því, sem hann sagði um bæði sjálfan sig og Sigurð Magnússon, sem þá sat hér á þingi, að það er rétt, að þeir lögðu sig fram um að vinna að þessum málum. Og ég man eftir því, að vinur minn, sem þá sat á þingi, sem ég met mikils og treysti vel, Ágúst Þorvaldsson á Brúnastöðum, sem var í n., hafði orð á því, að Sigurður, sem sat í henni sem varamaður, hefði lagt sig fram um að kynna sér þessi mál. Það var ekki þar sem málið strandaði, heldur á öðrum stöðum stjórnmálanna.

Út af þessu um veðdeildina, þá er mér ljóst að þó að úr þessu verði leyst núna er vandinn ekki þar með leystur, og eftir samtali mínu og Stefáns Pálssonar að dæma vona ég, að nefndin sé að vinna núna að því að gera heildarlöggjöf fyrir veðdeildina. Það er alveg rétt, ég ætlaði mér að koma þessu máli fram á s.l. þingi, en mér tókst þá ekki að koma málinu í gegnum ríkisstj. og þess vegna lagði ég það ekki fyrir þá. Hins vegar var þá um það rætt, að málið yrði betur skoðað í vetur, og af minni hálfu mun það verða gert nú eftir áramótin. Mun ég freista þess að koma málinu áfram og hefði þá óskað helst eftir því að geta verið með málið í heild. Mér er alveg ljóst, hversu mikill vandi veðdeildarinnar er, stofnlánadeildarinnar einnig. Ég verð að segja að það hafa orðið mér vonbrigði, að staða stofnlánadeildarinnar skuli ekki vera betri en hún er, þar sem hún hefur núna t.d. á næsta ári tæpan milljarð í tekjur fyrir utan vaxtatekjur, sem eru tekjur þær sem hún fær úr ríkissjóði, frá bændum og frá neytendum. Ég var svo bjartsýnn 1973, þegar ég stóð fyrir breytingum á lögum um stofnlánadeildina, að ég taldi mér trú um að ég hefði tryggt framgang hennar a.m.k. í náinni framtíð. Náttúrlega hefur verðbólgan haft þarna sín áhrif eins og á aðra sjóði. Að vísu hafa tekjurnar aukist líka, vegna þess að þær eru bundnar verðbólgunni, en eins og nú er komið hag stofnlánadeildarinnar, þá er raunalegt til þess að vita, að um einn milljarð þurfi að gefa með þeim lánum sem eru í umferð af hennar hálfu. Því er ekki að neita, að þetta hefur valdið og veldur erfiðleikum við áframhaldandi starfsemi hennar.

Hv. þm. kom að lánsfjáráætluninni núna. Í henni eru atriði sem ég hafði fyrirvara á í ríkisstj. og sagði að væru byggð á misskilningi, ég teldi að sú tala, sem þarna væri gert ráð fyrir, 2222, væri sú tala sem deildin byggði á, og fyrirvari minn var bundinn við það, að ef þetta væri ekki rétt skilið hjá mér, þá hefði ég fyrirvara um afgreiðslu málsins. Hitt er um það, að nú fyrir einu eða tveimur árum var sett prósentutala um hækkun á framlagi til lánasjóða atvinnuveganna frá því 1971 til þess tíma, og þá var hlutfall stofnlánadeildarinnar best. Þegar sú ákvörðun var tekin í ríkisstj., að erlend lántaka skyldi ekki verða meiri hjá íslensku þjóðinni á árinu 1978 en sem næmi afborgunum og gengissigi á erlendum lánum sem tekin höfðu verið, þá var lánsfjáráætlunin öll í heild, bæði til opinberra framkvæmda og til stofnlánasjóðanna, tekin til nýrrar meðferðar, og þá var ætlunin að hlutfallið væri svipað sem væri skorið niður. Að því er Fiskveiðasjóð varðar, þá er hann meðhöndlaður eins að öðru leyti en því, að hann er með samningsbundnar erlendar lántökur vegna skipakaupa, því að hann hefur ekki greitt framlag sitt til skipakaupanna — eins og t.d. togaranna — nema jafnharðan og það hefur fallið til. Þetta var allra manna mái, að ekki væri hjá því komist að þess yrði hann að njóta, því að hjá þessu yrði ekki komist, hér væri um samningsbundnar greiðslur að ræða. Eins var tekið tillit hjá hinum sjóðunum til greiðslu á þeim lánum sem þeir höfðu tekið erlendis vegna starfsemi sinnar. En þetta var miklu meira hjá Fiskveiðasjóði vegna togaranna sem hafa verið keyptir á síðustu árum. Ég held að það muni nú verða eins með Fiskveiðasjóð, t.d. fiskiðnaðinn, hann telji sig ekki betur haldinn. Það kom fram líka varðandi Iðnlánasjóð, að með þessari lánsfjáráætlun, sem þarna væri lögð til grundvallar, gæti hann sinnt aðeins 30% af sínum lánsbeiðnum. Í raun og veru var mest um hann rætt að því leyti, að brýna nauðsyn bæri til að líta á hans mál, en afgreiðslan var svona að þessu sinni. Hins vegar var þessi fyrirvari, sem ég hafði þarna — og hann er til athugunar og verður til athugunar, þó að lánsfjáráætlunin verði afgreidd svona, því að hún er ekki formlega afgreidd — það mál er ekki þar með úr sögunni, heldur verður athugað. Hitt get ég sagt, að ég hef sagt það í ríkisstj., að ég legg meiri áherslu á, að atvinnuvegirnir, landbúnaður sem aðrir, hafi hæfilegt rekstrarfé, heldur en að mikið fari til bygginga núna. Það skiptir meginmáli.

Því er ekki að neita, að það mál hefur verið til umræðu líka, að sú trygging, sem afurða- og rekstrarlánin hafa haft, hið bundna fé í Seðlabankanum, fram úr því takmarki er nú farið, þrátt fyrir að hv. þm. segði að það væri óánægja hjá bændum út af sínum málum, og ekki er að efa það. Hitt vil ég benda á, að öll þessi ár hafa bændur — nema 1975 — fengið fullt verðlagsgrundvallarverð. Þeir fengu það ekki alveg árið 1975, en á síðustu árum hafa þeir fengið það. Út af fyrir sig er ekki við stjórnvöld að deila, því að ákvörðunin er ekki hjá þeim. Hvort það tekst fyrir árið 1977 fer eftir því sem ég kem hér að í gær og sé ekki ástæðu til að endurtaka. Að hinu hefur líka verið unnið á síðari árum, að reyna að flýta greiðslum til bænda og láta vaxtareikna það sem inni hefur staðið. T.d. veit ég um kaupfélög þau sem starfa í mínu kjördæmi og hafa mestu viðskiptin þar. Kaupfélag Borgfirðinga borgaði í nóv. 83% af innlegginu í haust og vaxtareiknar það, sem eftir stendur, frá 1. jan. Kaupfélag Hvammsfjarðar borgar 80% a.m.k., og held ég að það hafi sömu aðferð við vaxtareikninginn. Þó er ég ekki alveg eins kunnugur því og hjá hinu kaupfélaginu.

Annað hefur líka verið gert og hefur farið sívaxandi. Nú veit ég að rekstrarlánin hafa þótt lág og hafa verið, en það hefur verið afskaplega erfitt við þau að fást, því að þau voru í raun og veru sama talan frá 1960 til 1975, eða eitthvað svoleiðis. Þau voru hækkuð um 100% þá og á s.l. vori var sú fjárhæð hækkuð um 50%. Inn í þetta hafði líka komið það, að sett voru aukarekstrarlán á þeim svæðum þar sem sauðfjárframleiðsla er mest og einkum eru sauðfjárframleiðsluhéruð. Á s.l. vori var þessu öllu skellt saman í eitt. Auk þessara rekstrarlána eru svo uppgjörslánin, sem eru lánuð að vorinu, eða í maí, og þá er gert ráð fyrir því, að sláturleyfishafar geri upp innleggið frá því að haustinu miðað við grundvallarverðið frá haustinu áður og hafi upp á að hlaupa þær verðhækkanir sem hafa orðið á verðlagsárinu, það sé þeirra trygging fyrir því, að þeir greiði ekki of mikið. Þessi fjárhæð, sem fékkst til þess arna s.l. vor, var um 800 millj. Þetta hefur gert það að verkum, að sláturleyfishafarnir eiga að geta gert upp á vorin, og er eitthvað að ef það er ekki gert.

Þessu til viðbótar hefur svo verið farið inn á það nú á síðustu árum til þess að reyna að létta undir með bændum — og hafa það verið fyrst og fremst bændur á sauðfjársvæðunum að lána hluta af áburðarverðinu. Það hefur verið borgað þannig, að búið hefur verið að borga 50% af því í ágústlok og svo hefur hitt verið borgað þegar afurðalánin hafa komið að haustinu, ekki fyrr. Áður fyrr var þetta svo, að áburðarverðið var borgað strax. Þetta hefur verið veruleg fjárhæð og hefur komið að góðu gagni á síðustu árum. Ég held að það verði að líta á þessi áburðarlán alveg eins og rekstrarlán, því að það eru þau. Ef þessi áburðarlán væru ekki, þá yrði að greiða áburðinn strax og hann er tekinn út, og koma þessi lán þannig að sama gagni. Svo eru lánuð sérstök fóðurbirgðalán á norðaustursvæði vegna íshættu, eða þau byrjuðu þannig. 1, júní s.l. voru þessi uppgjörslán og rekstrarlán 4 milljarðar 928 millj. eða 42% af grundvallarverðlagi haustið áður. Þetta er hæsta tala sem verið hefur á þessum árum. Áburðarlánin, sem ég gat um áðan, eru svo þarna fyrir utan. En á þennan hátt hefur verið reynt að bæta úr þessum vandkvæðum. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því, að í okkar öru verðbólgu segir þetta alltaf til sín, ekki síst að t.d. bændur fengu sína kauphækkun seinna en ASÍ-stéttirnar í vor. Ríkisstarfsmennirnir sögðu líka, þegar var verið að þjarka við þá, að þeir væru eftir á, og það mátti til sanns vegar færa.

Ég held að ég hafi með þessum orðum gert grein fyrir því, sem fram kom í ræðu hv. 7. landsk. þm., Helga Seljans, og sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar.