17.12.1977
Neðri deild: 35. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1428 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

120. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Hæstv. forseti. Í gildandi lögum um tekjustofna sveitarfélaga er ákvæði um að fasteignaskatt skuli leggja á allar fasteignir sem metnar eru í fasteignamati. Þessi skattur skal miðaður við fasteignamat. Hann á að vera 1/2% af fasteignamati íbúða og íbúðarhúsa, en 1% af öðrum fasteignum. Skv. þessu ákvæði í tekjustofnalögunum frá 1972 er hverju sveitarfélagi skylt að leggja þennan fasteignaskatt á. Auk þess er sveitarstjórnum heimilt að innheimta fasteignaskatt með allt að 50% álagi. Hið fyrra er skylda, hið síðara er heimild. Á næsta ári, 1978, mundi fasteignaskattur á lagður og miðaður við framreiknað fasteignamat sem yfirfasteignamatsnefnd ber að annast. Við þann útreikning er höfð hliðsjón af breytingu verðlags fasteigna við kaup og sölu frá síðasta viðmiðunartíma, þ.e. í desember 1976. Forstjóri Fasteignamats ríkisins hefur upplýst að hækkun á fasteignamati miðað við framreikning nú í þessum mánuði verði 36%,

þ.e.a.s. að fasteignamatið verði almennt 36% hærra nú en fyrir ári. Það er því ljóst að ef ákvæði verða óbreytt í lögum, þá mun fasteignaskattur almennt á næsta ári hækka sem þessu svarar. Þetta er meiri hækkun en ýmsar sveitarstjórnir óska eftir, og þetta frv. er flutt til að bæta úr þessum annmarka.

Efni frv. er það, að sveitarstjórnum skuli heimilað að lækka fasteignaskattinn um 25% frá þeirri lágmarksprósentu sem tilgreind er í lögunum, jafnframt verði heimildin til álags á fasteignaskattinn 25% í staðinn fyrir 50% sem nú er.

Þetta frv. var lagt fyrir hv. Ed. og hlaut þar einróma stuðning. Eins og grg. ber með sér hefur stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga lýst stuðningi sínum við málið.

Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.