17.12.1977
Neðri deild: 35. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1436 í B-deild Alþingistíðinda. (1091)

126. mál, almannatryggingar

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég mun nú reyna að halda mér við efni þess máls sem hér liggur fyrir, nokkurn veginn a.m.k., og leiða hjá mér umr. um bros einstakra þdm., hæstv. forseta okkar í tilfelli sem kom upp áðan. Það sannast kannske hér sem stundum áður, að það getur reynst konu hættulegt að brosa á skökku augnabliki, ekki síst þegar sá, sem brosað er til, misskilur brosið. En þetta var sem sagt eins konar bros hæstv. forseta sem mér fannst taka óþarflega langan tíma í umr, hér á hv. Alþ. Ekki heldur mun ég leggja orð í belg um hetjudáðir Alþfl. í viðreisnarstjórn í tryggingamálum, læt það tilheyra liðinni tíð.

Hér hefur sitthvað borið á góma og það er að vonum, því að þetta er viðkvæmt og stórt mál sem hér er annars vegar.

Ég vil fyrst segja það, að mér fannst ekki rétt með farið hjá hv. 3. þm. Reykv. um afstöðu okkar samnefndarmanna hans í heilbr.- og t rn. Hann komst svo að orði í umr. hér í gær, að enginn í n. hefði viljað kannast við að frv. hefði neinn galla. Þetta er náttúrlega ekki rétt, enda lýsti hann því raunar yfir í dag aftur, að við hefðum haft nokkrar áhyggjur af því að þetta frv. um sjúkratryggingagjald hitti ákveðinn hóp einstaklinga það illa að við værum hreint ekki ánægð með það.

Það er nú svo, að tölur í þskj., sem við erum að fjalla um, hafa kannske ekki alltaf nógu ljósa þýðingu. Við gerum okkur ekki alltaf við meðferð málsins grein fyrir hvað tölurnar þýða í framkvæmd. Og það var einmitt það sem gerðist við athugun þessa máls, að þetta 2% sjúkratryggingagjald hlaut að koma of neikvætt út fyrir of stóran hóp fólks, og það er einmitt vegna þess, að við að loknum fundi í heilbr.- og trn. könnuðum þetta nánar. Það var raunar nokkuð sem ekki kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv., að hann krefði þetta virkilega til mergjar á okkar nefndarfundi. Mér heyrðist hann og fulltrúar minnihlutaflokkanna hafa hvað mestar áhyggjur af velferð sveitarfélaganna, og vissulega voru sveitarfélögin vel þess virði að taka tillit til þeirra. Mér fannst að þeir færu lítt út í að athuga og henda á hvernig þetta kæmi við ákveðna einstaklinga, en það voru einmitt einstaklingarnir, sem þetta gjald yrði lagt á, sem ég tók öllu nær mér heldur en óhagræði sveitarfélaganna við álagningu og innheimtu þessa gjalds, sem í rauninni er nú úr sögunni. Óánægja sveitarfélaganna á sínum tíma, þegar þetta sjúkratryggingagjald var lagt á upphaflega, fyrir tveim árum var það, var að þau þurftu að innheimta þetta gjald. (Gripið fram í: Spurði ég ekki ríkisskattstjóra?) Jú, með óbeinum hætti þó. (Gripið fram í: Með beinum hætti.) Ég endurtek það, að mér fannst það aðallega vera sveitarfélögin sem minnihlutafulltrúarnir höfðu áhyggjur af, en nú vitum við að þessu hefur verið breytt. Bæði álagning og innheimta fer fram af hálfu skattstjóra, þannig að nú snertir þetta mál sveitarfélögin aðeins óbeint, og á því held ég að hafi verið almennur skilningur í nefndinni.

Það er vitað mál, að sú aukaskattheimta, sem í þessu frv. felst og í öðrum þeim frv. sem ríkisstj. hefur lagt fyrir þing nú til aukinnar fjáröflunar, er okkur stjórnarþm. ekkert gamanmál. Við höfum síður en svo gaman af því. En það sannast hér sem stundum áður, að stundum verður að gera fleira en gott þykir. Og ég spyr hv. þm. í minni hl. og meiri hl., hvernig í ósköpunum þeir geti búist við því að ríkissjóður komist hjá að gera einhverjar ráðstafanir, þ. á m. í aukinni skattheimtu, til þess að mæta 60% almennum kauphækkunum á árinu. Ég hygg að þær launahækkanir, sem orðið hafa á Íslandi í ár, séu áreiðanlega heimsmet, og ég veit ekki hvaða þjóðfélag annað stenst slíkt stóráfallalaust.

Nú er ég ekki að gefa í skyn að hinar almennu launahækkanir séu eina orsök verðbólgunnar. Það vefst jafnvel fyrir sérfræðingum okkar að greina þar á milli orsaka og afleiðinga. En ég er alveg sannfærð um að launahækkanirnar, sem eru fjarri öllu lagi, eiga þar stóran þátt. Við þurfum ekki annað en að líta á þá tölulegu staðreynd, að launahækkanir ríkisstarfsmanna með samningum BSRB þýða 7–8 milljarða kr. útgjaldaauka fyrir ríkissjóð. Þessu hefur ekki verið mótmælt. Og það hefur verið hlutverk okkar stjórnarþm. að setjast niður nú rétt í þann mund sem afgreiða átti fjárlög og finna þessa fjárupphæð. Einhvers staðar varð að taka hana.

En ég ætla að reyna að halda mér við frv., eins og ég upphaflega lofaði. Okkur fannst, stjórnarþm. í n., að enda þótt nokkuð sé hlíft ellilífeyrisþegum í frv. eins og það liggur fyrir, þá sé sýnt að útsvarsmörkin séu svo lág, að það væri í alla staði óeðlilegt og ranglátt að reyna ekki að bæta hag þessa hóps sem þannig var ástatt um.

Brtt. n. gerir ráð fyrir að til frádráttar komi til viðbótar 300 þús. kr. fyrir hvern einstakling og 500 þús. fyrir hjón. Með þessu er vafalaust séð nokkru betur en annars væri fyrir hag þess aldraða fólks og öryrkja sem er þannig ástatt fyrir að það mundi verða fyrir þessu sjúkratryggingagjaldi um leið og það aðeins sleppur yfir mörkin að verða útsvarsskylt. Og ég vil nú, þó að fáir ráðh. séu viðstaddir ekki láta hjá liða að þakka sérstaklega viðkomandi ráðh. heilbr.- og trmrh. og fjmrh. fyrir það, hve vel þeir tóku í ábendingar okkar og hve vel þeir brugðust við til lagfæringar.

Hv. 3. þm. Reykv. hafði mörg þung og stór orð í garð núv. ríkisstj. og þá sérstaklega heilbr- og trmrh. fyrir frammistöðu hans í tryggingamálunum. Hann tók þannig til orða, eitthvað á þá leið, að frá ráðh. hafi helst aldrei komið neitt nema sem horfði í þá átt að heimta meiri peninga af fólki. Hann leiðréttir mig þá ef þetta hefur verið rangt heyrt. Ég er hissa á jafnglöggum og greindum manni og Magnúsi Kjartansson er að láta svona staðhæfingar sér um munn fara. Það er ekki erfitt verk að sanna það, að tryggingabætur hafa að undanförnu haldist fyllilega í hendur við almennt verðlag, að ég hygg fullt eins vei, ef ekki betur en í tíð Magnúsar Kjartanssonar sem heilbr.- og trmrh.

Í dag eru almennar bætur, hámarksbætur einstaklings, 68 714 kr., þar af er grunnlífeyrir 3659 kr., en tekjutryggingin 32118 kr. Árið 1974 var þessi upphæð, þ.e.a.s. án tekjutryggingarinnar, 13 þús. kr. Þessar tölur hef ég frá rn., og ég hygg að þær séu réttar. Tekjutryggingin, það er enginn vafi á því, hefur hækkað þó hlutfallslega meira en grunnlífeyririnn. Hv. þm. Magnús Kjartansson hefur kannske alveg gleymt því eða ekki heyrt það, að í suma: voru sett brbl. til þess að lögleiða sérstaka heimilisuppbót fyrir einstætt aldrað fólk sem erfiðlega var sett. Það voru sett þá lög um 12 þús. kr. heimilisuppbót, sem núna nýlega, í byrjun des., hefur verið hækkuð upp í 20 þús. Varla fær heilbrrh. mikið til baka í buddu ríkissjóðs með ráðstöfunum sem hafa þessi útgjöld í för með sér. Það má bæta því við, að í desembermánuði einum saman munu þær hækkanir, sem verða til lífeyrisþega, nema 250 millj. kr. og á öllu árinu 1978 munu þær nema um 3 milljörðum kr., svo það er furðudjarft talað að voga sér að staðhæfa, að ríkisstj. og heilbrrh. geri aldrei neitt annað en að heimta meiri peninga af fólki og þá helst af því fólki sem síst má við því, eins og gefið er í skyn. (Gripið fram í.) Ég hef orðið um stundarsakir nú.

Ég vil taka það fram, að ég er alveg sammála hv. 3. þm. Reykv., Magnúsi Kjartanssyni, að við eigum að reyna að gæta fyllsta réttlætis og þá auðvitað hvað helst gagnvart þeim þegnum þjóðfélagsins sem helst þurfa þess með að réttlætis sé gætt. En þegar við tölum um sjúkratryggingar og framkvæmd okkar sjúkrahúsarekstrar, þá er ég alveg hissa á því, að þessir réttlætisins postular, sem svokallaðir vinstri menn vilja telja sig sjálfskipaða, skuli ekki minnast á það í umr. hér og annars staðar, hvílíkt hróplegt ranglæti viðgengst og hefur viðgengist ótrúlega lengi óleiðrétt í málum þess sjúka fólks sem ekki kemst inn á spítala. Það er hrópað upp sem glæpur, það var gert hér í gær af hv. 3. þm. Reykv., að sú hugmynd kom fram hjá heilbrrh. í fyrra, að fólk væri látið borga fyrir matinn sinn á sjúkrahúsum. Ég vil taka það fram, að ég studdi þá hugmynd heils hugar og ég taldi mig vera að þjóna réttlætinu. En sú regla átti auðvitað ekki að ganga blindandi yfir í kerfinu. Hún átti ekki að miðast við langlegusjúklinga eða þjálfunarsjúklinga á Grensásdeildinni sem hv. þm. vitnaði í. Hún átti að ná til þess fólks, sem dvaldist skamman tíma á sjúkrahúsi, hélt fullum launum og beið ekkert fjárhagslegt tjón raf sínum lasleika. Þetta tel ég réttlætismál, á meðan ég tel það hróplegt ranglæti að fólk, sem kannske er haldið alvarlegum lasleika, en kemst ekki einhverra hluta vegna, stundum vegna veilu í kerfinu, inn í sjúkrahús, þarf að borga uppsprengdu verði alla læknisþjónustu, á meðan ríki maðurinn, sem kannske þarf að láta taka úr sér botnlangann eða gera á sér lítils háttar aðgerð sem kostar hann hálfan mánuð eða þrjár vikur á sjúkrahúsi, hann hagnast á því, hann beinlínis hagnast á því að leggjast inn á spítala. (MK: Hagnast á því?) Hann hagnast á því með því móti að hann þarf ekki að borga fyrir matinn sinn né aðra þjónustu, sem hann þarf að gera ef hann er fullfrískur og vinnandi maður.

Það eru einmitt svona atriði í okkar tryggingakerfi sem þurfa athugunar við, og ég lýsi mig fyllilega samþykka því að innheimta sérstaka nefskatta, — þeir mega ekki vera of flóknir eða of margir, — til þess að standa straum af almannatryggingum almennt. Þá veit fólk að það er að borga tryggingu fyrir sjálft sig ef það verður fyrir óhöppum og áföllum af sökum sjúkleika, slysa eða annarra óhappa. Það að láta þetta ganga alfarið í gegnum hina stóru hít, ríkissjóð, þannig að fólk veit ekki til hvers það er að borga hvað af sínum sköttum og skyldum, það er að mínu mati sálfræðilega rangt. En við eigum að sjálfsögðu að láta þessi iðgjöld, sem ég tel eðlileg og réttmæt, ganga yfir þannig að þeim, sem ekki geta staðið undir þeim, sé hlíft. Við eigum að miða okkar almannatryggingar, sjúkratryggingar og annað við það, að þeir, sem Holmagn hafa til að bjarga sér, geri það sjálfir. Við eigum fyrst og fremst að hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi.

En kerfið, eins og það er orðið í dag sniðgengur algjörlega þetta sjónarmið. Það er orðið yfirbyggt og um leið ranglátt. Og ég skil ekki í þessum mönnum, sem alltaf eru með munninn fullan af réttlæti og vandlætingu á hinum, sem þeir telja vonda menn, að þeir skuli ekki reyna að rýna dálítið betur í þetta og reyna að gera tryggingakerfið raunhæfara og meira í samræmi við þann tilgang sem því er ætlað að ná.

Ég er líka sammála hv. 3. þm. Reykv. í því sem bann sagði um verðbólguna. Ég held við séum öll sammála um það, að verðbólgan er siðspillandi, og ég held því miður að það sé rétt hjá honum, að siðgæðisvitund okkar góðu þjóðar sé heldur á fallanda fæti og að það sé einmitt verðbólgan sem eigi sinn stóra þátt í því, að svo illa er komið. Verðbólgan hefur ýtt undir peningahyggju fólks. Það er allt metið í ónýtum krónum og aurum, og manneskjuleg sjónarmið fara oft fyrir allt of litið. Verðbólgan hjá okkur er orðin að einum stórum blóraböggul í okkar þjóðfélagi sem allir telja sjálfsagt að skella skuldinni á og varpa um leið allri ábyrgð frá sjálfum sér.

Mér kemur í hug í þessu sambandi lesendabréf, sem ég las fyrir nokkru, í víðlesnu frönsku tímariti, sem fjallaði um verðbólguvandamál þeirra í Frakklandi, sem er þó ekki teljandi borið saman við okkar. Þessi almenni lesandi sagði eitthvað á þá leið, að það væri engin leið fær úr þeim erfiðleikum, sem hans þjóð átti við að etja, önnur en sú að almenningur, hver einasti einstaklingur, tæki málið til sín, og hann tók það djúpt í árinni, að allsherjarsiðvæðingar væri þörf. Þetta held ég að sé alveg rétt og eigi við hér hjá okkur í dag. Og hef oft bent á það og bendi á það enn, að það, sem við verðum að treysta á hér, er ekki bara ríkisstj. Alþ. og stjórnmálamenn, heldur er það hver einasti einstaklingur í landinu. Og nú skulum við athuga hvernig einstaklingarnir í landinu hafa brugðist við t.d. í kjarasamningum undangenginna missira.

Það var talað um það fjálglega, og það ætti að bæta þeim upp fyrst og fremst léleg kjör sem lélegustu kjörin hefðu. Um þetta virtust allir vera sammála. Hver varð svo árangurinn? Ég þarf ekki að segja ykkur það. Það hefur farið nú eins og alltaf áður, að lágtekjufólkið hefur lent úti í gaddinum eða alla vega margfalt verr í því heldur en hálaunafólkið. Það er talað um helgi hins frjálsa samningsréttar. Það eru verkalýðssamtökin og vinnuveitendur sem eiga að ráða málum hér, ríkisstj. á ekki að skipta sér af samningum um kaup og kjör. Ég er sammála þessu að vissu marki. En ég hefði þó talið, að þegar þeir, sem ráða fjármálum þjóðarinnar; sjá að greinileg hættumörk eru á ferðinni, þá verður að grípa inn í. Það átti að stöðva þá óhæfu, að láglaunafólkið kæmi út með 20–26% hækkun á meðan aðrir fá hækkun allt að 70%. Hvar er fólkið, hvar eru mennirnir sem eiga að bera hag láglaunamannsins fyrir brjósti? Ég spyr: Hvar eru verkalýðsforingjarnir sem eiga að bera hag sinna umbjóðenda fyrir brjósti? Hví láta þeir æ eftir æ og alfarið hlutina fara á þessa leið, að kaupið sé keyrt upp úr öllu valdi með prósentuhækkunum fyrir þá sem hæst eru launaðir? Ég hef ekki heldur orðið vör við það úr hópi hálaunamanna sem kalla sig vinstri menn, sósíalista kommúnista, Alþýðubandalagsmenn, hvaða nafni sem við nefnum þá, — ég hef ekki orðið vör við það að þeir hafi stungið upp á að stöðva og neita meiri kauphækkunum en launalægsta fólkið fær. Ég hef ekki heyrt eina einustu rödd í þessa átt. Ég hef ekki heyrt það frá alþm., sem eru í flokki þeirra sem taka margfaldar hækkanir á við láglaunafólkið, að þeir vilji slá af kröfum sínum. Mikið af hjalinu um réttlæti og jafnvægi í launamálum og fyrst og fremst í munni hinna svokölluðu alþýðuvina kemur út sem einber sýndarmennska, skrum og hræsni. Það er hægt að tala fagurlega hér í sölum Alþingis af mönnum sem hafa þó jafngóða afkomu launalega og alþm. En það þyrfti að koma fram í reynd, að þeim væri alvara. Við áttum að jafna metin með kjarasamningum nú á þessu ári, en ekki að sprengja upp alla launaskala svo að ríkissjóður stendur uppi fjárvana með stórar fúlgur vangreiddar sem ekki var von á.

Það hefur verið talað um það í sambandi við þetta sjúkratryggingagjald, að ríkisstj. sé að svíkja gerða samninga við Alþýðusamband Íslands og launafólk. En ég held að samkomulagið um skattaívilnanir og leiðréttingu í lífeyrissjóðsmálum og fleira, sem ríkisstj. ræddi um við launþegasamtökin s.l. vor, hafi verið háð þeim skilningi af hálfu ríkisstj., að þá færu launahækkanir ekki svo úr böndum sem raun varð á. Launþegasamtökin hafa heimtað að ríkisstj. stæði við sínar skuldbindingar eftir að þau hafa sjálf gengið á svig við mat ríkisstj. á því, hvað væri eðlilegar launahækkanir, svo ég held, að þessar ásakanir séu ekki byggðar á nógu traustum forsendum.

Á borðum alþm. liggur skrá frá Hagstofu Íslands sem hefur að geyma niðurstöðu af könnun sem gerð var í sambandi við launakjör starfsmanna einkaþjónustu annars vegar og í þágu ríkisins hins vegar. Þar kemur fram, — ég veit ekki hvort þm. hafa flett þessari skrá, — að hjá einum ríkisstarfsmanni eru föst laun 162 þús. kr. á mánuði, en mæld yfirvinna mánaðarlega 250 þús. — 162 þús. kr. í föst laun mánaðarlega, en 250 þús. kr. í fasta yfirvinnu — og þar að auki kemur svo ýmislegt smærra. Þetta er ekkert einsdæmi. Svona tölur sér maður viða ef flett er þessari skrá, þó að ég haldi að þetta sé hvað ömurlegasta dæmið. Ég fagna því, að ein af þeim ráðstöfunum, sem ríkisstj, hyggst gera nú til sparnaðar, er að draga úr þessari yfirvinnu og aukagreiðslum. Þar kemur póstur upp á 1750 millj., ef ég man rétt. Þetta er sú ráðstöfun, og raunar sú eina af þeim varnarráðstöfunum, sem nú eru gerðar, sem ég fagna innilega, og ég man ekki til, síðan ég fór að fylgjast með stjórnmálum, að önnur ríkisstjórn hafi gert þetta. Ég held að hversu illa sem við erum stödd nú, þá hafi núv. fjmrh. og ríkisstj. sýnt vaxandi viðleitni í þessa átt, og ef þetta tekst, sem ég vil vænta, að spara þarna hartnær 2 milljarða í þessa brjálæðislega yfirvinnukerfi, þá væri það vei, og það væri vel ef þetta væri upphafið að hreingerningu innan ríkiskerfisins, sem sannarlega er ekki vanþörf á og hefur svo verið lengi. Það er hvorki þessi ríkisstj. né sú fyrrverandi, sem ég er sérstaklega að ásaka hér, heldur hefur þetta verið að þróast með óheillavænlegum hætti í áratugi og er mál að linni Ég vil ekki lengja þessar umr. meir. Mér fannst hugmynd hv. 9. þm. Reykv., Gylfa Þ. Gíslasonar, um 0.3% veltuskatt á fyrirtæki, allrar athygli verð og hugsanlega mætti taka hana til athugunar og framkvæma hana. Mér sýnist hún þannig, án þess að ég hafi athugað hana nógu vel. Ég vil lýsa því yfir líka með skyldusparnaðinn að ég hefði viljað fá þær 300 eða 400 milljónir, sem þar er gert ráð fyrir, með því að búa til nýtt skattþrep á hátekjur og innheimta þær þannig, því að með þessu móti er þetta aðeins gálgafrestur fyrir ríkissjóð. Þetta er verðtryggð sparifjáreign, sem þessir hátekjumenn fá, og ef okkur er alvara með að það séu breiðu bökin sem eigi að bera byrðarnar þegar þörf er á, þá hefði þetta verið eðlilegri ráðstöfun heldur en að taka þessa fjárhæð með skyldusparnaði. En ég er víst enn komin nokkuð langt frá frv. Ég vona að það verði í framkvæmd eins og þessi brtt. okkar miðaði að, að það hlífði þeim tekjulægstu og þá fyrst og fremst aldraða fólkinu og öryrkjunum við því að fá þetta viðbótargjald á sig. Hinu vinnandi fólki í þjóðfélaginu, sem hefur fengið 60% launahækkanir á árinu, sé ég ekkert eftir að greiða þetta gjald, því að peningar detta ekki af himnum ofan, við verðum að fá þá einhvers staðar frá.