17.12.1977
Neðri deild: 35. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1451 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

126. mál, almannatryggingar

Eðvarð Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Í þeim umr., sem hér hafa farið fram um, þetta háalvarlega mál, höfum við heyrt talað um bæði hlýtt og tvírætt bros kvenna, og við höfum einnig fengið að kynnast allbeittum skaphita konu hér úr ræðustóli, og á ég þá við hv. 9, landsk, þm., Sigurlaugu Bjarnadóttur. Það voru örfá atriði í ræðu hennar sem ég ætlaði að gera aths. við. Ég hafði hins vegar ekki hugsað mér að taka hér til máls um þetta máli þó að ærin ástæða væri til. En það voru einvörðungu þau atriði úr ræðu hennar, sem ég því miður heyrði ekki alla, sem fjölluðu um launa- og samningamál, sem ég get ekki setið þegjandi undir og raunar skil ekki að fullu hvað hv. þm. var að fara í þeim efnum. Þar var áreiðanlega talað meira af skaphita en þekkingu um þau efni.

Hún sagði að láglaunafólkið hefði lent úti á gaddinum í samningunum í sumar, eins og ævinlega hafi gerst, og það væri ekki mikið að marka yfirlýsingar svokallaðra verkalýðsforingja um kjör þessa fólks, þegar ætti að reyna að bæta þau. Hún nefndi sem dæmi að hækkun á kaupi almenns verkafólks hefði verið 26–27% í samningunum í sumar — þetta er rétt — á meðan aðrir hefðu fengið um 70%, var síðan bætt við. Ég kallaði fram í, hverjir það væru, en fékk ekki svar. Ég spyr enn: Hverjir voru það í samningunum í sumar, verkalýðssamtakanna, Alþýðusambandsins, sem fengu 70% hækkun eða allt að 70%?

Ég held að það sé nauðsynlegt að rifja ofurlítið upp, hvers eðlis samningarnir í sumar voru, þó ekki væri til annars en þessi hv. þm, fleipraði ekki jafnrakalausa hluti og hér voru sagðir áðan.

Í samningum Alþýðusambandsins var það grundvallarreglan, að þeir, sem lægst voru launaðir, báru hlutfallslega mest úr býtum. Þetta er staðreynd, sem ekki verður fram hjá gengið. Það eru mjög mismunandi laun innan raða Alþýðusambandsins. En með grunnkaupshækkun í samningunum í júní í vor og með vísitölu fram til 1. des, eða réttara sagt fram til 1. mars á næsta ári fengu allir launþegar innan Alþýðusambandsins sömu krónutölu í laun, bæði varðandi grunnkaupshækkanir og einnig vísitölubætur. Hvort tveggja er greitt með sömu krónutölu til allra. Ég veit að menntun hv. þm. nær a.m.k. svo langt, hún getur reiknað út, að auðvitað kemur mun hærri prósenttala út á þá lægst launuðu heldur en hina, sem eru á hærri launum innan Alþýðusambandsins, þannig að þessi tala, sem hún nefndi, 26–27% til almenna verkafólksins, er hæsta prósentutalan sem um var samið hjú Alþýðusambandinu í sumar. Það fékk enginn meira, heldur fengu menn minna. Þetta eru staðreyndir málsins.

Síðan sagði hún að þessir verkalýðsforingjar, sem hún hafði ýmis orð um, og Alþb.-fólk, sem væri í háum stöðum, það hefði ekki heyrst frá því um að það ætti að draga úr launum þeirra eða bað ætti að láta þá, sem meira hafa, fá minna. Ég vitna aðeins til þess sem ég hef þegar sagt, að einmitt þetta fólk fékk minna, og það var stefna Alþýðusambandsins, sem var framfylgt í sumar, að það fengi minna. Ég get sagt það úr þessum stól: ég er alveg reiðubúinn til þess ásamt hv. 9. landsk. þm. að setjast niður og athuga það, hver laun okkar alþm, ættu að vera. Satt að segja hef ég verið þeirrar skoðunar, að við hefðum kannske átt að ganga á undan og jafnvel ráðh. í ríkisstj. að hafa frumkvæði um það, að laun þeirra hæst launuðu, t.d. ráðh., og okkar alþm. jafnvel líka, hækkuðu ekki á sama hátt og þau hafa gert, alveg reiðubúinn til að ræða þetta mál. Hins vegar vil ég taka það fram að frá því að ég varð hér fastkjörinn alþm., það eru víst 17–18 ár síðan eða eitthvað þar um, því hef ég aldrei tekið laun nema frá Alþingi Ég hef unnið, að ég tel, alveg tvöfalt starf, en ég hef aldrei tekið laun fyrir neitt annað starf en sem alþm. Ég veit ekki hvort hv. þm. getur sagt hið sama.

Þá sagði hv. þm., og veit ég ekki hvaðan henni koma þær upplýsingar, að lífeyrissamkomulagið, sem gert var í vor og ríkisstj. vissulega átti aðild að, hefði verið háð því skilyrði að launahækkanir yrðu viðráðanlegar. Nú skal ég ekki ábyrgjast að þetta sé nákvæmlega orðalagið, en meiningin var þessi í því sem hv. þm. sagði. Ég kallaði enn fram í og spurði: Hvaða skilyrði. skilyrði fyrir hverju? — en fékk ekki svar. Varðandi lífeyrissamkomulagið er það eitt að segja, að það var verkalýðshreyfingin sjálf, verkalýðsfélögin, lífeyrissjóðir verkalýðsfélaganna, sem tóku á sig öll útgjöld varðandi þau mál. Það eina, sem ríkisstj. gerði, var að færa til þau frítekjumörk sem fólk má hafa án þess að tekjutrygging skerðist, nokkuð til samræmis því sem lífeyrisgreiðslurnar hækkuðu frá lífeyrissjóðunum, en ekki frá ríkissjóði. það var því ekki hlutverk ríkisstj. að setja nein skilyrði í þessu efni, það hefði verið miklu frekar og nær að verkalýðsfélögin hefðu gert það. Ríkisstj. kom hins vegar varðandi skattamálin nokkuð á móti þeim aðilum, sem sátu við samningaborðið, til að auðvelda samningagerðina. Það þarf ekki að fara að rifja upp hvað gert var þar, hv. þm. hafa þau mál á borðinu fyrir framan sig, í þskj. Við erum með það til afgreiðslu núna hér í þessari hv. deild.

Það, sem ríkisstj. gerði í þessu efni, var talið nema um tveggja milljarða kr. lækkun á þeim tekjum sem ríkisstj. hefði af tekju- og eignarskatti, það sem gert var í skattamálum í sumar, og þetta var atriði sem við vissulega mátum. En hverju stöndum við nú frammi fyrir? Við stöndum í fyrsta lagi frammi fyrir því, að skattvísitalan miðast ekki við kauphækkun á milli ára, heldur við hækkun framfærsluvísitölunnar. Munurinn á þessu tvennu, þessari viðmiðun við kauphækkun á milli ára eða við framfærsluvísitöluna, er talinn færa ríkissjóði um tvo milljarða kr., þ.e.a.s. nánast þá sömu upphæð og skattaívilnunin, sem samið var um í sumar, átti að nema og sjálfsagt hefur numið.

Ég vil hins vegar taka það fram. að þessi leikur með vísitöluna á þennan hátt kemur ekki harðast niður á þeim allra lægst launuðu, þegar um tekjuskattinn er að ræða. Það koma áreiðanlega stærri fúlgur frá öðrum og það er vel. En hins vegar með þessu gjaldi sem hér er, 1% viðbótartryggingagjaldi, er áreiðanlega tekið meira aftur en sem muninum nemur varðandi skattvísitöluna. Þetta gjald hefur þann eiginleika, eins og hér er margbúið að taka fram, að það kemur langharðast niður á þeim sem minnst hafa, og það er enginn efi á því, að ef skattvísitalan hefur eitthvað hjálpað þeim allra lægst launuðu, þá gerir þetta gjald miklu meira en vega þar upp á móti. Þarna gaf ríkisstj, fyrirheit í skattamálunum, — fyrirheit sem ég álít að nú sé algerlega búið að ganga frá, Að sjálfsögðu reiknuðum við með því að fyrirheitið varðandi skattamálin ætti að gilda um samningstímabilið. en samningstímabilið með öllum eðlilegum hætti nær einnig yfir árið 1978 eða til 1. des. 1978.

Það hefur oft verið talað um það, að skattana ætti að Leggja á breiðu bökin. Reynslan hefur hins vegar orðið sú, að þegar farið er að leita að breiðu bökunum, þegar stjórnvöld hafa farið að leita að breiðu bökunum, og það á sannarlega ekki síst við um núv. hæstv. ríkisstj., þá er það almenningur, það eru almennu launþegarnir fyrst og fremst. Hér hefur verið bent á aðrar leiðir sem hefði verið hægt að fara. Þar eru breiðu bökin. En stjórnvöld sjá einvörðungu möguleikana í því að leggja skattana á fjöldann, þ.e.a.s. þá almennu launþega með lágar og miðlungstekjur. Þaðan kemur stærsti hlutinn þegar um gjöld er að ræða eins og hér um ræðir og raunar tekjuskattinn líka. Stærsti hlutinn kemur einmitt frá þessu fólki. Sú ríkisstj., sem ekki sér aðra möguleika í skattlagningu, á sannarlega ekki skilið atfylgi launafólksins.