17.12.1977
Neðri deild: 36. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1461 í B-deild Alþingistíðinda. (1113)

130. mál, skyldusparnaður og ráðstafanir í ríkisfjármálum

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 217 erum við í minni hl. fjh: og viðskn., ég og hv. 9. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, og skilum þar séráliti. Við bendum á það, að þetta frv. er, eins og sagt hefur verið, aðeins einn liður í fjáröflunaráformum ríkisstj. í sambandi við afgreiðslu fjárl. að þessu sinni. Við erum andvígir þessum fjáröflunarplönum ríkisstj. þegar við lítum á þau sem heild, en tökum hins vegar fram um þann sérstaka skyldusparnað, sem hér er lagt til, að við erum ekki andvígir þessum skyldusparnaði sem slíkum, hann er ekki slík legund skattlagningar, en álítum þó, að réttara hefði verið að grípa til annarrar tekjuöflunar. Ef það hefði verið talið nauðsynlegt, eins og nú stendur á hjá ríkissjóði, að afla frekari tekna, þá hefði verið nærtækari önnur fjáröflunarleið en sú sem ríkisstj. hefur yfirleitt valið sér. Í þeim efnum get ég vitnað til þess sem kom fram í umr. fyrr í dag hjá hv. 9. þm. Reykv., Gylfa Þ. Gíslasyni, þar sem hann benti á það, sem við höfum æðioft bent á, Alþb: menn líka, að fyrirtækin í landinu sleppa mjög við að greiða til samfélagslegra þarfa, þar sem það er staðreynd, að mörg hundruð fyrirtæki í landinu, sem veita hundruðum millj. kr., sleppa svo til algerlega við tekjuskattsgreiðslur til ríkissjóðs.

En í sambandi við þetta frv. þykir mér ástæða til þess að benda á það í örfáum orðum, sem nokkuð hefur komið fram í umr. hér áður, að þessi breyting minnir á það, að jafnhliða þeirri breytingu á skattalöggjöf, sem í þessu felst, eru líka hér á ferðinni aðrar tvær mikilvægar breytingar sem gripa inn í skattalagaákvæðin.

Það er í fyrsta lagi það frv. til breytingar á tekjuskattslögum, sem fullkomin samstaða hefur verið hér um og er til staðfestingar á brbl. frá s.l. sumri í samræmi við það samkomulag sem þá varð á milli fulltrúa vinnumarkaðarins annars vegar og ríkisstj. hins vegar um breytingar á tekjuskattslögum. Þá var sagt að sú breyting fæli í sér um það bil 2000 millj. kr. lækkun á tekjusköttum fyrir þá sem hafa heldur lágar tekjur, og það mun eflaust vera rétt. En síðan kemur aftur sú ákvörðun hæstv. ríkisstj. að ákveða í skattvísitölu fyrir næsta ár 31% hækkun frá s.I. ári, þó að fyrir liggi að launahækkun á milli ára sé 42%. Í þessu felst ný skattahækkun. Ég hef gert smáathugun á því, eftir að hafa fengið upplýsingar frá skattyfirvöldum, hvernig þetta atriði kæmi út hjá þeim sem mætti telja svona meðaltekjumann eða kannske knapplega það. Mér sýnist að þegar lagt er til grundvallar dæmi um hjón, sem hefðu haft 2 millj. kr, samanlagt í skattgjaldstekjur á s.l. ári, þá hefðu slík hjón notið skattalækkunar samkv. samkomulaginu frá s. I. sumri sem nemur kringum 64 þús. kr. í skatti. En nú þegar skattvísitalan er ákveðin á þessa lund þ.e.a.s. 31% hækkun í staðinn fyrir 42% hækkun, þá kemur í kjós að tekjuskattur þessara hjóna með skattgjaldstekjur 2 millj. kr., sem þá hafa að sjálfsögðu hækkað um 42% á milli ára mundi hækka um nálega sömu upphæð eða 63 þús. kr. svo að það er nokkurn veginn ljóst að í stórum dráttum þýðir þessi breyting á skattvísitölunni að taka til baka það sem látið var af hendi af hálfu ríkisstj. með samkomulagi við verkalýðshreyfinguna á s.l. sumri. Auðvitað kemur þetta ekki fullkomlega jafnt niður á alla skattþegna. Einhverjir geta kannske haldið einhverjum smávinningi og aðrir aftur tapað. En þegar á heildina er litið og á meðaltekjufólkið er litið þá mun þessi breyting ein þýða að þeir tapa því aftur sem ávannst með samkomulaginu á s.l. sumri.

Svo kemur í þriðja lagi sú breyting sem felst í þessu frv. með skyldusparnaðarákvæðum á hærri tekjur. Um þetta frv. þarf ég ekki að fara mörgum orðum nú. Ég hef þegar rætt um það áður, þegar ég ræddi um till. ríkisstj, almennt. En ég hef leyft mér að flytja brtt. við frv. Sú brtt. er á þskj. 221 og er um það, að á eftir 6. gr. frv, komi ný gr., svo hljóðandi:

„Frá 1. jan. 1978 skal fella niður söluskatt af kjöti og kjötvörum og verðlag á þeim vörum lækka samkv. því.“

Ég hef í umr. um þessi mál áður bent á það, að frá mínu sjónarmiði er ekki nægilegt að gera aðeins takmarkaðar ráðstafanir til þess að ná saman endum fjárl. Það þarf líka að glíma við þau vandamál, sem í sjálfu sér eru miklu stærri í efnahagslífinu, þar sem er aðstaða atvinnuveganna. Við vitum það öll að bændasamtökin hafa að undanförnu gert sínar kröfur, og er enginn vafi á því, að staða bænda er nú mjög erfið á margan hátt. Þeir hafa verið að dragast aftur úr í tekjusamanburði við aðrar stéttir. Þeir eru í alllangan tíma búnir að leggja áherslu á það, að söluskattur verði afnuminn af kjöti og kjötvörum, og við Alþb.- menn höfum flutt frv. bæði á síðasta þingi og aftur á þessu þingi í þessa átt. Það frv. hefur ekki fengið neina afgreiðslu. Nú þykir mér ljóst, að það skapast tækifæri til að það fari fram atkvgr. hér á Alþ. um það, hvort alþm. geta fallist á að verða við þessari ósk bændastéttarinnar.

Ég álít að þessi ráðstöfun sé sjálfsögð og þurfi ekki að fara um hana mörgum orðum nú. Þetta yrði til þess að lækka vöruverð í landinu um allverulega upphæð og hefði sín góðu áhrif til lækkunar á framfærsluvísitölu og þar með kaupgjaldsvísitölu og sparaði ríkinu útgjöld á því sviði og auðvitað öllum atvinnurekstri í landinu. Þetta yrði til þess að auka kjötsölu í landinu og draga þannig úr þörf á útflutningi á kjöti. Auðvitað tapar ríkissjóður þarna nokkrum tekjum, hversu mikið sem það yrði þegar litið er á nettóútkomu dæmisins. En ég tel að við höfum þegar bent á það hér, stjórnarandstæðingar, að það er mjög auðvelt að fylla upp í það skarð með till. um tekjur fyrir ríkið í staðinn. Hér er um réttlætismál að ræða fyrir bændastéttina. Þetta er nauðsynleg aðgerð, og ég tel að það fari mjög vel á því að einmitt ákvæði um þetta komi inn í þetta frv. í sambandi við aðrar ráðstafanir í þessum málum, komi þar á eftir ákvæðinu um skyldusparnað, flugvallagjald og sérstakan gjaldeyrisskatt, þar yrði þetta ákvæði um að fella niður þetta vandræðagjald og leysa að nokkru vanda á því sviði sem ég tel miklu meiri en vandann sem snýr beint að ríkissjóðnum. Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta, en geri mér nú sterka von um að brtt. nái fram að ganga.