17.12.1977
Neðri deild: 36. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1466 í B-deild Alþingistíðinda. (1115)

130. mál, skyldusparnaður og ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Það er aðeins örstutt athugasemd út af ræðum tveggja síðustu hv. ræðumanna.

Fjárfestingarliðir til flugmála hækka töluvert mikið í þeim fjárlögum sem við erum að ræða á Alþ., um eitthvað á fjórða hundrað milljóna, og menn átti sig á því, að þær 300 millj., sem hér er talað um, renna til flugvallarmála í þeim fjárl. og meira en það.

Út af því, sem hv. 2. þm. Austurl. sagði um brtt. sína, datt mér í hug, að hér væri, eins og ýmsir hafa sagt, hinn pólitíski fimleikameistari Alþingis að tala. Það var örlítil brtt. sem hann mælti með, en þegar að er gáð, þá er í frv. að öðru leyti verið að afla ríkissjóði tekna, sem brtt. gerir ráð fyrir að ríkissjóður tapi á móti, þannig að út úr dæmi hans kemur núll ef sú brtt., sem hann flutti, verður samþ.