17.12.1977
Neðri deild: 36. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1467 í B-deild Alþingistíðinda. (1121)

130. mál, skyldusparnaður og ráðstafanir í ríkisfjármálum

Pétur Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Hvorki hæstv. ráðh. né Lúðvík Jósepsson þurfa frekari dýrðarljóma í mínum augum en þeir þegar hafa. Ég hef verið mikill áhugamaður um að þessi leið yrði farin og verði farin, og ég er sama sinnis enn. Ég get fallist á að þetta eigi frekar heima við afgreiðslu annarra mála, — mála sem við eigum eftir að fjalla um hér á Alþ. Þetta er í sjálfu sér ekki aðeins mál bændastéttarinnar, heldur og allra neytenda. Því hefur verið haldið fram með nokkrum rökum, að nú þegar sé allmikill söluskattur. sem ekki komi fram, af fullunnum eða hálfunnum kjötvörum, landbúnaðarvörum, og jafnvel af landbúnaðarframleiðslu ýmiss konar. Mín skoðun er líka sú, að það hafi ekki verið gert það sem þurft hefur eða fullur þungi verið á bak við það að setja botn undir þann leka sem jafnvel gæti orðið ef að þessu ráði yrði horfið. Ég er hlynntur málinu. Ég fellst hins vegar á að það eigi heima undir síðari verkefnum þessa þings og greiði því ekki atkvæði.