17.12.1977
Efri deild: 39. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1473 í B-deild Alþingistíðinda. (1143)

126. mál, almannatryggingar

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur fjarvistarleyfi í dag. Ég mæli því fyrir þessu frv. samkv. beiðni hana, en hann gerði ítarlega grein fyrir þessu máli í ræðu sinni í hv. Nd.

Frv. það, sem hér er til umr., gerir ráð fyrir að lögfesta 2% sjúkragjald á gjaldstofn álagðra útsvara 1978, en eins og hv. þdm. er kunnugt hefur slíkt gjald verið lagt á s.l. tvö ár, en þá 1%.

Eins og öllum er kunnugt hefur sjúkratryggingakostnaður aukist mjög og eykst mjög á næsta ári, og ég hef í þeim grg., sem ég hef flutt varðandi ríkisfjármálin, fjárl. sem eru nú til meðferðar, gert grein fyrir þessu atriði í sambandi við lausn á þeim vanda sem við er að glíma í fjármálum ríkissjóðs, sem að sjálfsögðu stafar að vissu leyti af því sem ég sagði áðan, miklum kostnaðarauka í tryggingamálum á næsta ári. Er því gert ráð fyrir því í þessu frv. að leggja 2% sjúkragjald á gjaldstofn álagðra útsvara. Með frv. þessu eru þó lagðar til þrjár breytingar frá því sem verið hefur:

1. Að gjaldið sé lagt á af skattstjórum á öllu landinu, en ekki álagningaraðila útsvars eins og verið hefur. Ástæðan er tvíþætt: Annars vegar hefur álagning þessa gjalds dregist sums staðar, þar sem skattstjórar leggja ekki á útsvar, og allt, sem varðar tengsl milli álagningar og innheimtu gjaldsins, hefur reynst þungt í vöfum og erfitt í framkvæmd varðandi þau sveitarfélög þar sem skattstjórar leggja ekki útsvörin á. Hins vegar hefur mismunandi beiting á ívilnunarákvæðum útsvarslaga leitt til ósamræmis milli gjaldenda sjúkragjalds og þá eftir búsetu.

2. Að gjaldið nemi 2% af gjaldstofni álagðra útsvara 1978, eins og ég gat um áðan, í staðinn fyrir 1%, og þar er um að ræða mikinn kostnaðarauka. 1500 millj. kr. umfram það, sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. Útgjaldaauki vegna útgjalda sjúkratrygginga er þannig 3419 millj. eða 68.2% frá fjári. yfirstandandi árs, og í heild er áætluð aukning kostnaðar sjúkratrygginga 4722 millj. frá fjári. 1977, eða um 70%.

3. Gert ráð fyrir að gjaldfrelsismörk verði samræmd. Samkv. núgildandi lögum eru þeir gjaldendur, sem ekki er gert að greiða útsvar, gjaldafrjálsir. Þar sem útsvarshlutfallið er mishátt eftir sveitarfélögum hafa gjaldfrelsismörk sjúkragjaldsins einnig verið mishá. Í sveitarfélögum með 10% útsvar sleppa t.d. hjón við greiðslu sjúkratryggingagjalds vegna útsvarsleysis ef útsvarsstofninn var 165 300 kr. eða lægri, en í sveitarfélagi með 3% útsvar sleppa hjón við sjúkratryggingagjald ef útsvarsstofn þeirra var 605 400 kr, eða lægri. Samsvarandi tölur fyrir einhleyping voru 120 900 og 443 000 kr. Því er lagt til, að þeir verði gjaldfrjálsir sem ekki hefðu greitt útsvar væri það 10% af gjaldstofni útsvara.

Við meðferð málsins í Nd. var samþykkt brtt. við frv. á þskj. 200, viðbót við 2. tölulið 1. gr., að við hann bættist: „Í viðbót við þær fjárhæðir elli- og örorkulífeyrisbóta, sem frá eru dregnar samkv. a-lið þessa töluliðs, skal draga frá hjá þeim einstaklingum, sem nutu elli- og örorkulífeyris á árinu 1977, 300 þús. og hjá hjónum 500 þús.“ — þannig að þessi mörk eru hækkuð sem þessu nemur.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um frv., en leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði því vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.