17.12.1977
Efri deild: 39. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1474 í B-deild Alþingistíðinda. (1146)

129. mál, fjáröflun til vegagerðar

Frsm. meiri hl. (Jón Helgason):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. til l. um breyt. á l. um fjáröflun til vegagerðar. Á fund n. kom Snæbjörn Jónasson vegamálstjóri og gaf skýringar á þeirri hækkun á fjáröflun til vegagerðar sem af samþykkt þessa frv. leiðir. Samkv. því munu markaðir tekjustofnar, þ.e. bensíngjald, gúmmígjald og þungaskattur, hækka um 1500 millj, kr., en samkv. fjárlagafrv. mun enn fremur beint framlag ríkissjóðs hækka um 400 millj. og lántökur um aðrar 400 millj, frá því sem gert var ráð fyrir í vegáætlun fyrir 1978 sem nú gildir. Segja má að lántökur séu einnig beint ríkisframlag því að frá árinu 1972 hefur ríkissjóður tekið að sér greiðslu vaxta og afborgana af lánum til vegagerðar og greitt það utan vegáætlunar. Söluskattur af hækkun hinna mörkuðu tekjustofna mun verða tæplega 240 millj. kr., þannig að með þessu aukna ríkisframlagi og láni hækkar framlag ríkissjóðs meira en þessari söluskattshækkun nemur. Er þar því stigið dálítið skref til móts við þær óskir, að vaxandi hluti tekna ríkissjóðs af bílum og umferð renni til vegagerðar. Heildartekjur samkv. núgildandi vegáætlun fyrir árið 1978 eru áætlaðar 7 milljarðar kr. og var þar gert ráð fyrir 18% verðlagshækkunum frá árinu 1977. Ef miðað er við að verðlagshækkanir verði 30% milli þessara ára, þá ætti samkv. fjárlagafrv. nú að vera um 11/2 milljarður sem yrði raunverulega aukið fjármagn til vegagerðar á næsta ári. Virðast allir vera sammála um þörfina fyrir aukið fjármagn til vegagerðar, en aftur á móti skiptar skoðanir um, hvaða leiðir á að fara til að afla þess. En ég hygg, að fátt skili betri arði fyrir greiðendur en það fjármagn sem varið er til að gera vegina betri.

Í aths. við 3, gr. frv. kemur fram, að með ákvæði 2. mgr. geti ráðh. ákveðið með reglugerð að áfallnar dagsektir innheimtist, enda þótt sú athöfn, sem knýja átti fram með dagsektum, hafi síðar verið framkvæmd. Til skýringar þessu atriði skal tekið fram, að samkv. gildandi reglum um innheimtu bifreiðagjalda skal leggja til dagsektir vegna vanrækslu á að koma bifreið til álesturs ökumælis á tilskildum tíma. Samkv. þessari reglugerð eru tvenns konar ákvæði, sem heimila undanþágu frá greiðslu dagsekta. Annars vegar er í 10. gr. heimilt að veita undanþágu frá álestri fyrir fram, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi, t.d. veikindi eða ófærð. Beiðni um slíka undanþágu þarf að berast innheimtumanni fyrir lok álesturstímabils. Fallist innheimtumaður á beiðnina kemur auðvitað ekki til álagningar dagsekta. Hins vegar er heimild í sömu grein til niðurfellingar þegar álagðra sekta, ef gjaldandi færir fram sérstakar ástæður fyrir því, að ekki var komið með bifreið til álesturs á tilskildum tíma. Getur innheimtumaður fellt niður sektina, ef erindi berst næstu tvær vikur eftir að álesturstímabili lýkur, en eftir þann tíma er áskilið samþykki fjmrn. við því, að t.d. veikindi umráðamanns bifreiðar eða bilun á ökutæki geti leitt til niðurfellingar. Ákvæðinu í frv. til breytinga á lögum um fjáröflun til vegagerðar er ekki ætlað að hafa áhrif á þessar undanþágur. Tilgangur þess er sá einn að koma í veg fyrir að álagðar sektir falli sjálfkrafa niður án tillits til aðstæðna ef umráðamaður bifreiðar kemur siðar með hana til álesturs, en dómur Hæstaréttar í XIV. bindi hæstaréttardóma, bls. 339, bendir til að svo sé að óbreyttum lögum. Þessari breytingu er ætlað að auka áhrif dagsekta og hvetja til að umráðamenn bifreiða láti almennt koma með bifreiðar til álesturs á tilteknum tíma, en henni er ekki ætlað að hafa áhrif á niðurfellingu sekta ef sérstaklega stendur á.

Meiri hl. fjh.- og viðskn, leggur til að frv. verði samþykkt, en minni hl. mun skila séráliti, og Albert Guðmundsson sat hjá við afgreiðslu málsins. Í ljós hefur komið að í frv. hefur fallið niður ein setning úr núgildandi lögum að gjald megi vera lægra fyrir fólksflutningabifreiðar en aðrar bifreiðar, og leggur meiri hl. fjh.- og viðskn. til á þskj. 223 að þessari setningu verði hætt inn í frv.