17.12.1977
Efri deild: 40. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1477 í B-deild Alþingistíðinda. (1150)

129. mál, fjáröflun til vegagerðar

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég var ekki viðstaddur 2. umr. málsins, þar sem ég var bundinn á öðrum fundi, og átti þess vegna ekki þess kost að koma með aths. þá við frv. Ég gæti að sjálfsögðu margt um þetta mál sagt og um fjár.öflun ríkissjóðs til vegamála, en það er ekki það sem ég mun gera hér að umræðuefni, enda gefst að sjálfsögðu tími til þess þegar vegáætlun verður rædd hér síðar í þinginu.

Ég ætla að gera grein fyrir skriflegri brtt. sem ég flyt við 3. gr. frv. og verður ekki talin hápólitísk að efni. Þar er um að ræða að verið er að lauma inn með öðrum og miklu mikilvægari og stórfelldari ákvæðum, sem fyrst og fremst fjalla um fjármál, ákvæðum sem varða innheimtu dagsekta og eru á þann veg, að ég get alls ekki orða bundist.

Það, sem hér er um að ræða, er í fyrsta lagi það ákvæði 3. gr., að hægt sé að leggja á dagsektir ef menn draga það að koma með bifreið til álesturs, — bifreið sem á að koma til álesturs vegna kílómetramælis í tengslum við dísilvél bifreiðarinnar, hægt sé að leggja á dagsektir án þess að þeir fái nokkra tilkynningu um að álagning dagsekta sé hafin. Þeir geta því verið algerlega í góðri trú um rétt sinn. Kannske hafa þeir ekki tekið eftir þeirri auglýsingu sem hirt hefur verið í blöðunum um að þeir eigi að koma með bíl sinn til skoðunar á ákveðnum tíma, og ef þeir gera það ekki skal falla á þá dagsekt sem getur orðið tugir þús, kr. á skömmum tíma, án þess að þeir geri sér nokkra grein fyrir því sjálfir að dýrara verður með hverjum deginum að draga það að koma með bílinn til álesturs. Þetta er í hrópandi mótsögn við íslenskar réttarvenjur, íslenskar reglur um févíti og dagsektir.

Í öðru lagi tel ég það algera óhæfu, sem kemur fram í 3. gr. frv., að innheimta dagsekta skuli ekki falla niður, jafnvel þótt álestur fari síðar fram, eins og þar segir, því að þetta er einmitt grundvallarregla íslensks réttarfars í sambandi við févíti, að þegar menn hafa fullnægt þeirri skyldu, sem févítinu var ætlað að knýja þá til. fellur févítið niður. Ég vil, ef menn trúa ekki orðum mínum einum, leyfa mér að vitna í orð núv. hæstv. dómsmrh., þáv. prófessors í lögum, Ólafs Jóhannessonar, en hann fjallar einmitt um þetta í bók sinni. Stjórnarfarsréttur, á bls. 266. Hann segir í fyrsta lagi varðandi fyrra atriðið, sem ég gerði hér að umtalsefni:

„Yfirvaldi ber að taka sérstaka ákvörðun um févíti í hverju einstöku falli, þ.e. ákvörðun þess verður að miðast við ákveðna skyldu og tilgreindan aðila. Þá ákvörðun verður síðan að tilkynna þeim aðila sérstaklega.“

Þetta er alveg ljóst. Þannig er reglan í sambandi við öll févíti, allar dagsektir sem eru lagðar á hér á landi í öllum öðrum tilvikum. En hér á að koma því á, að yfirvöld geti bara auglýsi í einhverju dagblaði að þeir, sem ekki hafi komið með bílinn sinn á ákveðnum tíma, fái á sig dagsektir. Menn kunna að vera erlendis. menn kaupa e.t.v. ekki viðkomandi blöð eða á annan hátt kann þessi tilkynning að fara framhjá þeim, og þá safna þeir á sig tugþúsunda króna skuldum á tiltölulega skömmum tíma án þess að hafa nokkra hugmynd um. Þetta er óhæfa, þetta ber að afnema.

Um hitt atriðið, sem ég geri hér að umtalsefni, farast hæstv. dómsmrh. og þáv. prófessor svo orð: „Ef þeirri skyldu, sem um er að tefla, er fullnægt innan tilskilins frests, kemur ekki til greiðslu févítis. Það hefur þá ekki fallið á skylduþegn. Ljóst er enn fremur, að fullnusta hvenær sem er stöðvar frekara áfall dagsekta. Spurning er hins vegar, hvernig fara skuli með áfallnar eða óinnheimtar dagsektir eða annað févíti, þegar skyldu er fullnægt. Hér hefur vanræksla átt sér stað og hafa því dagsektir eða aðrar þvingunarsektir fallið á um lengri eða skemmri tíma. Á að láta innheimta eða afplána áfallið févíti, þrátt fyrir það að fullnusta hefur farið fram, eða á áfallið en óinnheimt févíti að falla niður, þegar skyldu er fullnægt, þótt slíkt eigi sér ekki stað fyrr en löngu eftir tilskilinn tíma? Ef litið væri á févíti sem refsingu, mundi fyrri leiðin vera rökréttari, þ.e. fullnusta skyldunnar ætti ekki að skipta máli um áfallið févítt. Það ætti þá engu að síður að innheimta eða afplána. Yfirvaldsboðinu hefur verið óhlýðnast um lengri eða skemmri tíma — brot hefur verið framið — til refsingar hefur verið unnið. Ef gefa ætti upp sakir við fullnustu skyldunnar, án þess að aðstæður hverju sinni væru athugaðar, mætti orða, að óhlýðni væri gefið undir fótinn. Sé hins vegar litið á févíti sem þvingunarráð, koma nokkuð önnur sjónarmið til greina. Þá verður fyrst og fremst litið á það, hvor reglan er líklegri til árangurs í því einstaka falli, þ.e. hvort stuðlar betur að því, að markmiði févítis — að knýja fram efndir tillekinnar skyldu — verði náð. Til þess er síðari kosturinn líklegri.“

Síðan rekur höfundur þessarar bókar, prófessor Ólafur Jóhannesson, einn hæstaréttardóm sem hefur fallíð um þetta efni. Í undirrétti féll hann svo, að sá, sem unnið hafði til févítisins, átti að greiða dagsektirnar. Hér var um að ræða það, að húsaleigunefnd Reykjavíkur skipaði ákveðnum aðila að viðlögðum 100 kr. dagsektum að breyta ákveðnu húsnæði. Hæstiréttur komst að gagnstæðri niðurstöðu, segir prófessor Ólafur Jóhannesson. Í dómi Hæstaréttar segir:

„Telja verður það meginreglu í íslenskri löggjöf, að ákvæði dóms eða úrskurðar um dagsektir á hendur aðila verði ekki fullnægt, hvorki með aðför né afplánun, ef því er að skipta, eftir að hann hefur gegnt þeirri skyldu, sem knýja átti hann til með dagsektum, sbr. 2. mgr. 193. gr. l. nr. 85/1936 og áður 4. gr. I. nr. 13/1925.“

Samkv. þessu felldi Hæstiréttur hinn áfrýjaða úrskurð úr gildi og prófessor Ólafur Jóhannesson heldur áfram: „Á þessa niðurstöðu Hæstaréttar má fallast. Verður að telja hana eðlilega, þegar litið er á févíti sem þvingunarráð. Það verður því talin regla íslensks réttar, að févítisákvæði í yfirvaldsúrskurði verði ekki fullnægt, eftir að skylduþegn hefur gegnt þeirri skyldu, sem knýja átti hann til með févíti. Líklega verður sama regla að gilda, þótt skyldu sé eigi fullnægt fyrr en eftir að fjárnám hefur verið gert fyrir févíti, en áður en sala fjárnuminna verðmæta fer fram. Þó er sú regla alls ekki vafalaus.“

Sem sagt, hér er verið að setja inn í 3. gr. þessara laga ákvæði, sem Hæstiréttur hefur komist að niðurstöðu um að sé gagnstætt meginreglu íslenskra laga og prófessor Ólafur Jóhannesson, sem hefur ritað þá kennslubók sem er notuð enn í dag um þessi efni, telur að ótvírætt sé ekki í samræmi við reglur íslensks réttar. Ég vildi benda mönnum á þetta, vegna þess að ég efast ekki um að þetta hefur farið fram hjá flestum og menn ekki áttað sig á því, að hér væri um algerlega óeðlilega lagasetningu að ræða.

Það, sem hér er að gerast, er einfaldlega það, að embættismönnum, var falið að semja frv. um bensíngjald, var falið að gera till. um, hvað þyrfti að hækka bensingjald mikið, og semja frv. um það efni. Þá er smeygt inn í frv. ákvæðum sem eru í fyrsta lagi hersýnilega ósanngjörn og í öðru lagi í algerri andstöðu við íslenskar réttarvenjur. Ég vil þess vegna mjög eindregið fara þess á leit við fjh.- og viðskn., sem fjallaði ekki um þetta efni í morgun, vegna þess hversu skammur tími var þá til stefnu og vegna þess að mér láðist að koma með þessa ábendingu á þeim fundi, að hún athugaði brtt. núna. Ég ræddi þetta á sameiginlegum fundi fjh.- og viðskn. ekki alls fyrir löngu og hélt að kannske hefði verið eitthvert tillit tekið til þeirra ábendinga, en það hefur ekki orðið af einhverjum ástæðum, og er ég að vona að þar hafi einungis verið um athugunarleysi að ræða. Brtt. mín er á þessa leið, þ.e. brtt. við það frv. sem hér er til umr.:

„1. 3. gr. 2. mgr. 2. málsl. orðist svo:

Þá getur ráðh. ákveðið með reglugerð, að það varði eiganda eða umráðamann bifreiðar dagsektum allt að 10 þús. kr. á hverju tímabili, ef eigi er komið með bifreið eða vagn til álesturs, tilkynna ber hverjum og einum að févíti verði á hann lagt og frá hvaða tíma“.

2. 3. málsl. 2. mgr. 3. gr.: „Skal innheimta þessara dagsekta ekki falla niður enda þótt álestur fari síðar fram“, fellur niður.

Þarna er um að ræða tvö atriði, eins og hefur komið fram hjá mér. Ég flyt þau í tvennu lagi, vegna þess að það kann að vera að menn geti samþykkt annað atriðið þó að þeir séu ekki reiðubúnir til að fallast á hitt atriðið. Ég tel að setja verði dagsektum eitthvert hámark, allsendis ófært sé, að ráðh. sé ekki einhver takmörk sett með það, hvað dagsektir geta numið hárri fjárhæð á ákveðnu tímabili. Í öðru lagi tel ég, — og er sammála þeim sjónarmiðum sem koma fram hjá núv. hæstv. dómsmrh., Ólafi Jóhannessyni, þáv. prófessor, sem hefur ritað glögglega um þetta efni í sinni bók. Stjórnarfarsrétti, — að það beri að tilkynna hverjum og einum að févíti hafi verið á hann lagt og allt annað séu réttarspjöll.

Þá tel ég, að þessi setning: „Skal innheimta þessara dagsekta ekki falla niður enda þótt álestur fari síðar fram“ — verði að hverfa úr þessu frv. í fullu samræmi við öll önnur févítisákvæði íslenskra laga og í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar um þetta efni og í samræmi við álit fræðimanna um þetta efni. Ég flyt um það samt sem áður sérstaka till., vegna þess að það kann að vera að einhver væri reiðubúinn til þess að fallast á tilkynningarskylduna, enda þótt hann væri ekki reiðubúinn til þess að fallast á síðara atriðið.

Ég leyfi mér að afhenda forseta þessar brtt. og vonast til þess að hann láti þessari umr. ljúka á mánudag, þannig að tækifæri gefist til að prenta brtt. og athuga þær í nefnd.