17.12.1977
Efri deild: 40. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1480 í B-deild Alþingistíðinda. (1152)

129. mál, fjáröflun til vegagerðar

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Eins og kom fram í máli hv. þm. Ragnars Arnalds, þá komu til umr. á sameiginlegum fundi n. þau ákvæði sem hann gerði að umtalsefni. Þar sem mér fannst koma fram að þær ábendingar, sem hann var þar með, hafi ekki verið athugaðar frekar, þá vil ég geta þess; að það var gert og við fengum minnisatriði um það. Einnig fékk ég á minn fund í dag embættismann frá fjmrn. til að útskýra þessa hluti nánar. En ég vil gjarnan verða við því að athuga þetta mál frekar. Það hefur verið boðaður fundur í n. á mánudagsmorgun, og þess vegna vildi ég að þessari umr. yrði frestað og okkur ynnist tími til að athuga þetta atriði betur.

Ég er ekki löglærður maður og lögskýrandi, en hins vegar hygg ég að það sé ekki einsdæmi að dagsektir falli á án tilkynninga. Ég vil leyfa mér að minna á söluskatt og launaskatt. Þar eru ákveðin ákvæði, að ef ekki er greitt á ákveðnum gjalddaga, þá falla á sektir án þess að tilkynning sé send út um það. Það eru því ákveðin fordæmi fyrir þessu.

Mér er alveg ljóst, að í sambandi við innheimtu á hlutum sem þessum þurfa að vera nokkuð ákveðin atriði, þótt þar þurfi vissulega að gæta allrar sanngirni. Þeir, sem búa við það að eiga bensinbifreið, þurfa að greiða sinn skatt um leið og þeir taka bensin á bil sinn. Þess vegna er eðlilegt að ströng ákvæði gildi einnig um aðra innheimtu.

En ég vil gjarnan að við athugum þetta atriði enn frekar og fáum á okkar fund þá aðila sem hafa staðið að því að semja þessar greinar, svo að við getum fengið botn í þetta mál.