19.12.1977
Efri deild: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1485 í B-deild Alþingistíðinda. (1160)

98. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 114 er þetta frv. flutt af sjútvn. Nd. Ég veit ekki hvort sá aðili, er á beinna hagsmuna að gæta í þessu máli, hefur komið á fund allra sjútvn: manna í Ed., en hann talaði við mig og lét það í ljós að hann byðist til að þetta skip sigldi á Norðurlandshafnir. Ég gat þess í ræðu í sambandi við annað vandamál, atvinnuleysi á Þórshöfn, að rétt væri að slá tvær flugur í einu höggi, tryggja verksmiðjunni nægilegt fjármagn og koma henni í rekstrarhæft ástand án tafar og láta einnig þetta skip landa fyrir norðan. Nú kann vel að vera að skipið kynni að afla það mikið, þar sem hér er um afburðaskipstjóra að ræða íslenskan, íslenska áhöfn og skipið stórt, að það gerði meira en að fullnægja afkastagetu á Þórshöfn, en engu að síður tel ég það meginatriði í þessu frv. og á þessu stigi nokkurn veginn forsendu fyrir mínum stuðningi, að Norðurlandshafnir hafi algeran forgang.

Ég er ekki ánægður með orðalagið eins og 1. gr. er og vil því óska þess, að formaður sjútvn. Ed. kynni sér málið áður en til nefndarfundar kemur, svo að afgreiðsla málsins tefjist ekki. Það er ekki mín meining með þessum aths. að tefja málið. En ég vil fá skýringu á því, hvers vegna orðalag frv. er eins og raun ber vitni, því að hér er ekki orðað í sama farveg eins og þegar viðkomandi skipstjóri og eigandi skipsins, sem er íslenskur, talaði við mig, þegar hann var að falast eftir stuðningi við frv. sem fæli í sér þennan möguleika fyrir skipið.

Hér er að vísu gerð undantekning frá mikilvægu ákvæði um fiskveiðilögsögu Íslands, en með tilliti til allra aðstæðna tel ég rétt að frv. haldi áfram. Ég vil samt hafa á hreinu að þetta skip þjóni þeim svæðum, sem minnsta eiga möguleika á löndun. Hægt er að útvega um það gögn með stuttum fyrirvara, hvernig loðnulöndun hefur dreifst á hafnir fyrir norðan, og gerðar hafa verið um það ályktanir á Siglufirði fyrr, að þeir væru þar afskiptir með löndun á vetrarvertíð.

Sumir segja, að sjálfsagt sé að loðnunefnd geti haft þetta vald til að ráðstafa skipinu, en það er ekki svo einfalt, vegna þess að menn verða að hafa það í huga að flotinn hefur, a.m.k. varðandi afkastagetu, verið stækkaður að mínu mati sennilega um fimmtung og á næstunni eru að koma enn stærri skip. Búið er að breyta togurum og nýtt skip er að koma með 1000 tonna burðargetu núna á næstu dögum til landsins. Allar verksmiðjur — að mínu mati — frá Seyðisfirði að Bolungarvík verða því fyrr eða síðar kaffærðar. Það er ekki á valdi nokkurra manna í loðnunefnd að fara að úthluta einu erlendu skipi einhvers staðar plássi, þar sem veiði á einum sólarhring getur hæglega verið 15–20 þús. tonn og siglingageta þessara skipa er mikil, — það hefur sýnt sig núna undanfarið, að þeir fara mjög létt með það, skipstjórarnir, að flytja aflann miklu lengri vegalengd en hér yrði um að ræða. Þess vegna vil ég hafa það á hreinu að aðallöndunarsvæðið og e.t.v. það eina ætti að vera á höfnum fyrir norðan.

Ég óska sem sagt eftir því, því að nú er naumur tími til afgreiðslu, að formaður n. komi með skýringu á því, hvers vegna þetta var ekki orðað eins og viðkomandi aðili bað um í einkasamtölum.