19.12.1977
Efri deild: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1486 í B-deild Alþingistíðinda. (1161)

98. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að upplýsa það strax, að þetta frv. er ekki flutt af sjútvn. Nd., heldur af öllum þm. úr sjútvn. Nd. sem þmfrv., að einum þm. undanskildum, sem skilaði við lokaafgreiðslu málsins séráliti, sem þegar hefur verið prentað og útgefið.

Í þeim viðtölum, sem skipstjóri þessa skips átti við mig um þetta mál, hefur hann sagt, að hann hafi boðist til þess við viðkomandi yfirvöld að landa þar á landinu sem loðnunefnd segði honum að landa, þ.e.a.s. hvar á landinu sem væri. Ég tel það vera mjög óhyggilegt varðandi þetta eina skip umfram þá viðbót, sem þegar er komin af erlendum skipum í íslenska landhelgi með einróma samþykkt Alþ., að þetta skip verði bundið við Norðurland eitt. Það er að mínu viti alrangt.

Hv. ræðumaður, 1. landsk. þm., minntist sérstaklega á Þórshöfn. Mér er sagt af kunnugum mönnum, að á því sé mjög mikill vafi, hvort skipið, sem hér er til umr., fljóti þar inn, ef fullfermt væri, þannig að ákaflega óhyggilegt væri svo að ekki sé meira sagt, að binda skipið við eina slíka höfn, þar sem ekki er fullkomið öryggi talið á því, að það flyti inn á öllum tímum sólarhrings með fullfermi. Ég hygg enn fremur, að ef loðnunefnd eða yfirvöld, sem stýra flotanum til löndunar, segja þessu skipi að landa hér eða annars staðar, verði það gert, því að skipstjórinn hefur lýst því yfir, að hann væri reiðubúinn til að fella sig við það, eins og reyndar önnur skip, sem loðnuveiðileyfi hafa, hafa orðið að gera. Hann hefur m.ö.o. lýst því yfir, að hann sé reiðubúinn til að hlíta öllum þeim takmörkunum sem settar verða um þessar landanir. En að binda það í lögum, að ákveðið tiltekið skip megi ekki landa nema í ákveðnum landshluta, teldi ég vera alrangt og a.m.k. af hálfu hv. Alþ. lágmark að fyrir því verði séð, að skipið fullfermt fljóti þar að bryggju sem því væri sagt að landa hverju sinni. Ég held þess vegna, að deilan sé raunverulega ekki um þetta. Loðnunefnd mundi áreiðanlega ekki vísa þessu skipi til löndunar á höfnum sem væru að fyllast eða í þann veginn að fyllast, heldur vísa því á þær hafnir sem minnst hráefni eða ekkert hráefni hefðu í það og það skiptið. Ég tel óhyggilegt að gera ráð fyrir því með lagabindingu einni að þær hafnir skyldu vera austan eða norðanlands. Aðalatriði málsins er raunverulega það, hvort skipið á að fá að veiða hér og hlíta þá fyrirskipunum og reglum þeirra aðila sem með ráð í þeim efnum fara, í þessu tilfeili þá loðnunefndar. Ég geri ekki ráð fyrir að rn. fari gagnstætt ákvörðun loðnunefndar, sem er raunverulega afsprengi rn., að skipta sér af löndunum einstakra skipa. Það er verkefni, sem það og hv. Alþ. hefur falið loðnunefnd. Loðnunefnd á því án alls eta síðasta orðið um það.