20.10.1977
Sameinað þing: 7. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í B-deild Alþingistíðinda. (117)

13. mál, aðild Grænlendinga að Norðurlandaráði

Utanrrh. (Einar Ágústson):

Herra forseti. Ég hef ekki breytt um skoðun frá því í fyrra að þetta mál var hér til umr. Ég tel enn eins og þá, að það sé sjálfsagt mál að Grænlendingar fái tækifæri til þess á þingi Norðurlandaráðs að gera sjálfir grein fyrir sínum málum og hafa áhrif á afgreiðslu mála á því þingi. Ég ætla ekki að endurtaka neitt af þeim rökstuðningi sem fluttur hefur verið fyrir þessari niðurstöðu, aðeins ítreka að hún er hvað mig snertir óbreytt. Mér er ljóst að Danir sjálfir telja, að til þess að slíkt geti orðið, til þess að þetta skipulag geti náð fram að ganga, þurfi nokkrar stjórnarfarslegar breytingar að verða á stöðu Grænlands innan danska konungsríkisins, eða danska ríkisins, væri kannske réttara að segja núna, eftir að Margrét drottning tók þar við völdum. (MK: Drottningarríkisins.) Ég veit ekki — ég var að hugsa hvort ég ætti að segja það, að það mætti hvorki kalla það lengur konungs né drottningarríki, heldur finna eitthvert þriðja orðið, en ég fann það ekki, svo að ég hætti við það. (Gripið fram í: Mannfélag.) Mannfélag, já, Og ég er sannfærður um að Danir hljóta að viðurkenna nauðsyn þessara stjórnarfarsbreytinga og þær muni ekki vera langt undan.

En í mínum augum er þetta ekki neitt aðalatriði, heldur sú staðreynd, að Grænland byggir að verulegu leyti sérstök þjóð sem hefur sérstakar aðstæður, eigið tungumál og menningararfleifð sem þarf að standa vörð um og halda vörð um, og hún þarf á stuðningi til þess að halda, og þá er eðlilegt að sá stuðningur komi fyrst og fremst frá Norðurlandaþjóðunum. Ég er ekki með þessu að mæla með því, að við förum að skipta okkur af innanríkismálum Dana og fara að leitast við að hafa sérstök áhrif á það, hvernig sambandi landanna verður fyrir komið í framtíðinni, enda fjallar þessi till. ekki um það. Hún fjallar, eins og hér hefur margsinnis verið tekið fram, aðeins um það, að Grænlendingar eigi þess kost að flytja sjálfir mál sitt á þingi Norðurlandaráðs, alveg á sama hátt og Færeyingar og Álendingar eiga nú kost á, og það eiga þeir enda þótt formlega séð séu fulltrúar þeirra á þingi Norðurlandaráðs meðlimir annars vegar dönsku og hins vegar finnsku sendinefndanna. Þeir kjósa þessa fulltrúa sína sjálfir, þeir ráða því að öllu leyti hvernig þeir flytja mál sitt, og þeir eru þar fulltrúar þjóða sinna, þó að enn þá sé haldið við það gamla form að þeir teljist hlutar af sendinefndum stærri eininga, enda eru þeir óánægðir með það fyrirkomulag, eins og hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir kom að, og leitast við að fá því breytt og sjálfsagt verður því breytt. Ég hef fulla trú á því.

Ég held að það sé ekki hægt að líkja þessari beiðni eða kröfum á nokkurn hátt saman við þá málaleitan sem lögð hefur verið fram á þingi Norðurlandaráðs, að Samar fengju aðild að ráðinu, vegna þess að þjóðflokkurinn Samar byggir þrjú af aðildarríkjum Norðurlandaráðs, þ.e.a.s. Svíþjóð, Noreg og Finnland, ég held að það sé rétt með farið hjá mér. Þeir eru þess vegna öðruvísi settir en Grænlendingar, sem byggja sitt eigið land, eins og ég áðan sagði, og byggja á sinni sérstöku menningararfleifð, sem þróast hefur þar í Grænlandi, og tala allir sömu tungu, sem Samarnir gera ekki nema að hluta til.

Það hefur verið bent á það hér við umr., að íslenskir ráðh, og íslenskir þm. gætu notað ýmis tækifæri, sem gefast til viðræðna við starfsbræður sína og félaga frá hinum Norðurlöndunum, til þess að vinna þessu máli stuðning. Það er vissulega alveg rétt. Það hefur nokkuð verið þreifað á þessu máli. En hér er lagt til, meginefni till. er það, að á þingi Norðurlandaráðs verði slík till. fram borin, og ríkisstj., hvort sem það er íslensk eða annars ríkis, hefur ekki beina aðild að tillöguflutningi á þingum Norðurlandaráðs. Ríkisstjórnirnar óska ekki eftir því og þingið — geri ég ráð fyrir — þaðan af síður óskar eftir því, að ríkisstj. fari að blanda sér of mikið þar inn í starfsemina. Þetta er stækkað Alþ., ef svo mætti segja. Þetta er þing með þátttöku Norðurlandaþjóðanna og sem slíkt sér það um sin málefni og ræður sínum ráðum sjálft og óháð öðrum stofnunum og aðilum, og á það að mínu mati svo að vera.

Ég skal ekki tefja tímann, herra forseti, með löngum ræðuhöldum um eitt og annað sem hér hefur borið á góma, sumt athyglisvert, eins og sambúð Norðurlandanna hvers við annað frá fyrstu tíð og fram á þennan dag. Um það má sjálfsagt margt segja og hefur verið sagt. Þótt ýmislegt sé ósagt enn, þá ætla ég ekki að taka það hlutverk að mér. En ég vil aðeins í lok þessarar stuttu ræðu, eins og ég gerði við sama tækifæri í fyrra, óska þess að hv. utanrmn. taki till, til vinsamlegrar athugunar, og ég er sannfærður um það, að verði hún samþykkt hér á Alþ. hljóti að finnast leiðir sem dugi til þess að tryggja Grænlendingum þá réttarbót, sem hér er farið fram á, án þess að til nokkurra sárinda eða leiðinda þurfi að koma við aðrar þjóðir sem aðilar eru að því.